Tilnefningar til Íslensku safnaverðlaunanna 2024

Tilkynnt hefur verið hvaða söfn eru tilnefnd til Íslensku safnaverðlaunanna 2024.

Íslensku safnaverðlaunin eru viðurkenning sem fellur í skaut íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi á sínu sviði. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár en fyrsta afhending þeirra fór fram árið 2000. Þá verða verðlaunin afhent í fjórtánda sinn á Alþjóðlega safnadaginn, þann 18. maí næstkomandi, við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Viðburðurinn er opinn öllum.

Tilnefningar hljóta að þessu sinni (í stafrófsröð):

  • Gerðarsafn: Tenging milli innra og ytra safnastarfs
  • Listasafn Íslands: Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi
  • Listasafn Reykjavíkur: Framsækið miðlunarstarf
  • Sauðfjársetur á Ströndum: Samfélagsleg nálgun í safnastarfi
  • Þjóðminjasafn Íslands: Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda

Það eru Íslandsdeild ICOM, Alþjóðaráðs safna, og Félag íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS) sem standa að verðlaununum í sameiningu.

Hægt er að lesa rökstuðning valnefndar Íslensku safnaverðlaunanna 2024 með því að smella hér.