ALÞJÓÐLEGI SAFNADAGURINN

Söfn í þágu fræðslu og rannsókna

Yfirskrift Alþjóðlega safnadagsins í ár, Söfn í þágu fræðslu og rannsókna, snýr að mikilvægi menningarstofnana þegar kemur að því að bjóða upp á heildræna fræðslu og tækifæri til þekkingaröflunar. Þá er markmiðið með því að halda upp á daginn að stuðla að vitundarvakningu í þessum efnum, sem og að ýta undir sjálfbæra hugsun og auka jöfnuð á heimsvísu.

Söfn þjóna samfélaginu sem kraftmiklar fræðslumiðstöðvar, þar sem þau glæða forvitni, sköpunargleði og gagnrýna hugsun. Nú í ár er vakin athygli á þætti safna í að styðja við rannsóknir og skapa vettvang til að kanna og deila hugmyndum. Hvort sem viðfangið er saga eða listir, tækni eða vísindi, þá eru söfn vel í stakk búin til að efla skilning og þekkingu okkar á heiminum í gegnum fræðslu og rannsóknir.

Á hverju ári síðan 2020 hefur Alþjóðlegi safnadagurinn varpað ljósi á valin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en í ár er lögð áhersla á eftirfarandi markmið:

  • 4. Menntun fyrir öll: Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi.
  • 9. Nýsköpun og uppbygging: Byggja upp viðnámsþolna innviði fyrir alla, stuðla að sjálfstæðri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun.

Í tilefni Alþjóðlega safnadagsins 2024 bjóðum við fólki að leiða hugann að fræðsluhlutverki safna og ímynda sér framtíð þar sem þekkingarmiðlun er ekki fjötrum háð, heldur heim þar sem nýsköpun og hefðir hafa jákvæð gagnverkandi áhrif. Þá hvetjum við ykkur til að taka þátt í að fagna með okkur þann 18. maí næstkomandi er við veltum fyrir okkur þeim mikla þekkingarauði sem söfn hafa að geyma og leggjum okkur fram um að byggja betri heim í sameiningu, með jöfnuð og framfarir að leiðarljósi!