ALÞJÓÐARÁÐ SAFNA

STOFNUN OG
STARFSEMI

Alþjóðaráð safna, ICOM (International Council of Museums), var stofnað árið 1946 og starfa samtökin í tengslum við UNESCO. Í samtökunum eru bæði söfn og safnafólk en tilgangur ICOM er að þróa og bæta söfn í heiminum með því að skapa fagleg viðmið og siðareglur fyrir safnastarfsemi. Samtökin stuðla að þjálfun og þekkingarsköpun og beita sér að auki fyrir framgangi hagsmunamála sem varða söfn og menningararf á heimsvísu með víðtæku samstarfi og alþjóðlegu tengslaneti.


Tengslanet ICOM á heimsvísu

>50.000

Söfn og safnmenn

125

Landsdeildir

34

Alþjóðadeildir

DEILDIR ICOM

Starfsdeildir ICOM hafa aðkomu að málefnum Alþjóðaráðsins, jafnt á landsvísu sem heimsvísu, og hafa veigamiklu hlutverki að gegna við að efla samskipti á milli mismunandi hagsmunaaðila innan safnaheimsins, ákveðinna starfsstétta og safnafólks almennt.

Landsdeildir

Landsdeildir ICOM gæta hagsmuna safna og safnafólks í þeim löndum sem þær starfa. Landsdeildirnar eru í forsvari fyrir félagsmenn sína gagnvart yfirstjórn ICOM, auk þess að móta og miðla dagskrá og stefnumálum samtakanna, auk þess að sjá um framkvæmd Alþjóðlega safnadagsins hver í sínu landi. Þá er umsjón með félagatali og innheimta félagsgjalda á ábyrgð landsdeildanna.

Alþjóðadeildir

Félögum ICOM stendur til boða að skrá sig í alþjóðlegar fagdeildir Alþjóðaráðs safna en hver um sig fæst við ákveðinn kima safnastarfsins, svo sem sýningarstjórn, forvörslu, safnfræðslu og margt fleira. Þar geta sérfræðingar rætt sín á milli um eigin áhugamál ekki síður en álitamál í faginu. Alþjóðlegar fagdeildir ICOM eru 32 talsins og því fátt sem er félögum óviðkomandi.

Svæðisbandalög

Sex svæðisbandalög starfa innan vébanda ICOM. Hlutverk svæðissamtakanna er fyrst og fremst að efla samstarf og auka upplýsingamiðlun á milli landsdeilda, safna og safnafólks innan ákveðins svæðis, með tilliti til pólitískra og landfræðilegra tengsla. Svæðisbandalög eru starfrækt vítt og breitt um heiminn og jafnvel þvert á heimsálfur. Þá eru þrjú svæðisbandalög starfandi í Evrópu.

SAFNA­SKILGREININGIN

Undanfarin ár hefur ICOM unnið að endurskoðun safnaskilgreiningar Alþjóðaráðsins með tilliti til breyttra tíma, aðstæðna og þeirra krafna sem gerðar eru til safna nútímans í víðtækum skilningi, auk þess að horfa fram á við með áskoranir framtíðarinnar í huga. Fastanefndin ICOM Define hafði faglega umsjón með ferlinu við endurskoðun fyrri skilgreiningar, sem samþykkt var í Vín, 24. ágúst 2007, nákvæmlega fimmtán árum áður en allsherjarþing ICOM sameinaðist um nýja skilgreiningu í Prag. Þá hljóðar hin núgildandi safnaskilgreining svo:

„Safn er varanleg stofnun, ekki rekin í hagnaðarskyni, sem þjónar samfélaginu með rannsóknum, söfnun, varðveislu, túlkun og miðlun á áþreifanlegri og óáþreifanlegri arfleifð. Söfn eru opin almenningi, aðgengileg og inngildandi og stuðla með því að fjölbreytileika og sjálfbærni. Í starfi sínu og virkum samskiptum við ólíka samfélagshópa hafa þau fagmennsku og siðferðileg gildi að leiðarljósi og bjóða upp á margvíslegar upplifanir í þágu menntunar, ánægju, ígrundunar og þekkingarauka.“

Skilgreining samþykkt á 26. allsherjarþingi ICOM í Prag, Tékklandi, 24. ágúst 2022.

ALLSHERJAR­ÞING

Allsherjarþing ICOM eru haldin á þriggja ára fresti en fyrsta slíka þing Alþjóðaráðsins var haldið árið 1948. Á dagskránni eru ávörp leiðandi sérfræðinga og áhrifafólks í faginu, málstofur, pallborðsumræður og ýmsir aðrir viðburðir sem ætlað er að stuðla að auknum tengslum á milli félaga úr öllum áttum. Þá hefur hvert allsherjarþing yfirskrift sem tekin er til gagnrýnnar og greinandi umræðu á þinginu. 27. allsherjarþing ICOM mun fara fram í Dúbaí árið 2025. Verður yfirskrift þingsins að þessu sinni Framtíð safna (e. The Future of Museums).