Safnaverðlaunin

Íslensku Safnaverðlaunin

Íslensku safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár og er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á íslenskum söfnum. Þeim er jafnframt ætlað að efla faglegan metnað og vera hvatning til að kynna menningu þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Að Safnaverðlaununum standa Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna og safnamanna (FÍSOS).

Verðlaunin eru veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og vera til eftirbreytni. Ekki er gerður greinarmunur á tegundum safna og koma því öll söfn á landinu til greina; minja- og byggðasöfn, listasöfn, náttúrugripasöfn og önnur sérsöfn.

Safnverðlaunin voru fyrst veitt árið 2000. Valnefnd skipuð fulltrúum félaganna og fulltrúa frá safninu sem síðast hlaut verðlaunin velur úr innsendum hugmyndum en óskað er eftir tillögum frá almenningi jafnt sem fagmönnum. Viðurkenningin sem felst í verðlaununum er bæði heiður og hvatning söfnunum þrem sem hljóta tilnefningu ekki síður en því safni sem hlýtur verðlaunin.

2018

Listasafn Árnesinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2018

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti Listasafni Árnesinga Íslensku safnaverðlaunin 2018 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, þriðjudaginn 5. júní kl.16. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.   
 

Í greinagerð valnefndar segir að Listasafn Árnesinga bjóði upp á fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar sem veita gott aðgengi að myndlistararfi þeim sem það varðveitir. Safnið kynnir einstaka listamenn á einka- og samsýningum og hefur verið í samstarfi við önnur söfn um sýningar um árabil. Útgáfur safnsins eru til fyrirmyndar þar sem gefin er út vönduð sýningarskrá í tengslum við hverja sýningu, sem er mikilvæg heimild um starf og sýningar safnsins. Safnið heldur úti markvissu fræðslustarfi þar sem unnið er með mismunandi skólastigum, listamönnum, fræðimönnum og almenningi. Námskeið og smiðjur eru haldnar reglulega fyrir almenning þar sem gefst kostur á að vinna með mismunandi miðla í tengslum við sýningar safnsins. 

Listasafn Árnesinga var á sínum tíma fyrsta listasafnið utan höfuðborgarsvæðisins sem opið var almenningi og hefur sýnt sig og sannað sem öflugt og framsækið listasafn. 

Mat valnefndar er að sú áhersla í sýningarhaldi sem fylgir meginmarkmiði Listasafns Árnesinga um að efla áhuga, þekkingu og skilning almennings á sjónlistum sé til fyrirmyndar. Safnið beitir árangursríkum aðferðum í fræðslu með umræðum og uppákomum, sem bera vitni um metnað, fagmennsku og nýsköpun.

 Listasafn Árnesinga, Grasagarðurinn í Reykjavík, og Varðveislu- og rannsóknasetur Þjóðminjasafns Íslands hlutu viðurkenningu fyrir tilnefningar til safnaverðlaunanna 2018. Tilkynnt var um tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2018 í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum í maí.

2016

Byggðasafn Skagfirðinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2016
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Byggðasafni Skagfirðinga Íslensku safnaverðlaunin 2016 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, miðvikudaginn, 13.júlí kl. 16.

Í greinagerð valnefndar segir að starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga sé fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir. Í safninu er ríkulegur safnkostur sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og um þessar mundir beita starfsmenn aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnstörf. Byggðasafnið leggur áherslu á að rækta samstarf við stofnanir og fyrirtæki heima og heiman. Sú samvinna og samþætting skipar safninu í flokk með fremstu safna á Íslandi í dag.

Öflugar og sérhæfðar rannsóknir safnsins varpa ljósi á mannauð sem það býr yfir og sýna fram á hvers byggðasöfn eru megnug þegar þau hafa náð viðurkenndum sessi. Í safninu fara fram rannsóknir á safnkostinum auk víðtækra fornleifarannsókna í héraðinu, oft í alþjóðlegu samstarfi. Skráning, kennsla og rannsóknir á starfssviði safnsins hafa enn frekar víkkað út starfssvið safnsins og birtast m.a. í gegnum Fornverkaskólann og byggingarsögurannsóknir. Gefnar eru út rannsóknaskýrslur og sýningaskrár sem eru jafnframt aðgengilegar í gagnabanka á vefsíðu safnsins. Starfsemi safnsins nær langt út fyrir eiginlega staðsetningu þess. Sýningar þess eru víðar um héraðið en í höfuðstöðvunum að Glaumbæ, s.s. sýningin í Minjahúsinu á Sauðárkróki og aðalsýning í Vesturfarasetrinu á Hofsósi, sem einnig er dæmi um samstarfsverkefni undir undir faglegri handleiðslu byggðasafnsins. Samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem og samstarf í miðlun og sýningagerð sýnir hvernig safn getur aukið fagmennsku í sýningagerð, ferðaþjónustu og miðlun menningararfs. Safnið hefur á að skipa hæfu starfsfólki sem með vökulum áhuga og metnaði hefur tekist að skipa safninu í flokk með þeim fremstu sinnar tegundar á Íslandi. Greinagerð í fullri lengd má finna hér: Safnaverðlaunin 2016_Greinagerð valnefndar

2014

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Íslensku safnaverðlaunin 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum sunnudaginn 6. júlí. Var það Rekstrarfélag Sarps sem hlaut viðurkenninguna fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps (www.sarpur.is) og 1.000.000 kr. að auki. Þrjú söfn hlutu tilnefningu árið 2014 – Hafnarborg, menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar sem tilnefnd er fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni, Þjóðminjasafn Íslands fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins og Rekstrarfélag Sarps fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.

Í umsögn valnefndar segir:

Rekstrarfélag Sarps er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps. Á árinu 2013 urðu þau tímamót í Íslensku safnastarfi að safnkostur þeirra safna sem eiga aðild að menningarsögulega gagnasafninu Sarpi varð aðgengilegur almenningi í gegnum veraldarvefinn. Þá var opnaður svo kallaður ytri vefur Sarps sem býður upp á leit í safnkosti 44 safna af ýmsum stærðum og gerðum.

Ytri vefurinn er gátt inn í skráningarkerfi safnanna þar sem upplýsingar um safnkost þeirra er að finna. Fjársjóður sá, sem söfnin varðveita, er einstaklega fjölbreyttur; þar má finna margskonar brúkshluti, ljósmyndir, myndlistarverk af ýmsu tagi, lýsingu á þjóðháttum fyrr og nú ásamt upplýsingum um hús og margt fleira. Ytri vefur Sarps er bylting í aðgengi almennings að upplýsingum um menningararfinn og skapar tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á safnkosti íslenskra safna til að finna upplýsingar, skoða, bera saman og deila.

Vefurinn nýtist nemendum á öllum skólastigum og eykur möguleika á rannsóknum á menningararfinum. Vefurinn gefur almenningi tækifæri til að bæta við þekkingarbrunninn í gegnum sérstakt athugasemdakerfi. Gagnasafnið er því lifandi og kvikt, tekur sífellt við nýjum upplýsingum, stækkar og batnar meðal annars með myndvæðingu þess. Ytri vefur Sarps er mikilvægur til þess að söfnin í landinu séu virkir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og opnar gátt milli almennings og safna.

2012

Byggðasafn Suður-Þingeyinga, Menningarmiðstöð Þingeyinga hlaut Safnaverðlaunin 2012. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti þau við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þrjú söfn hlutu tilnefningu árið 2012 – Byggðasafn Suður-Þingeyinga, fyrir endurnýjun á grunnsýningu í Safnahúsinu á Húsavík, Listasafn Einars Jónssonar fyrir innihaldsríka heimasíðu vel tengda hlutverki safnsins og markmiðum, Rannsókna- og varðveislusviði Þjóðminjasafns Íslands, fyrir Handbók um varðveislu safnkosts.

Umsögn dómnefndar um Byggðasafn Suður-Þingeyinga, Menningarmiðstöð Þingeyinga:

Grunnsýningin Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum var opnuð í Byggðasafni Suður-Þingeyinga í Safnahúsinu á Húsavík í júní 2010. Opnun sýningarinnar markaði endapunkt umfangsmikilla breytinga á Safnahúsinu. Í stað hefðbundinnar aðgreiningar á menningu og náttúru er valin sú leið að draga upp mynd af sögu byggðarinnar í samspili manns og náttúru. Menningarminjar og náttúrugripir eru settir í nýtt og spennandi samhengi. Niðurstaðan er athyglisverð og eðlileg.

Fjallað er um lokatímabil „gamla bændasamfélagsins“. Laxá, með bæjum meðfram ánni frá upptökum til sjávar, rennur eins og lífæð gegnum sýninguna, tengir hana saman og skerpir áhersluna á samspil og gagnkvæm áhrif manns og náttúru þar sem sérkennum svæðisins og náttúrunýtingu eru gerð góð skil. Staðbundnum sérkennum og náttúruaðstæðum er komið á framfæri og á textaspjöldum eru frásagnir heimafólks sem bregða ljósi á lífsbaráttu og sjálfsþurft alþýðunnar á tímabilinu 1850-1950. Grunnstefið er gefið með skiptingu viðfangsefnisins í steinaríki, jurtaríki og dýraríki í stórum sýningarskápum samkvæmt gamalli hefð.

Uppsetning sýningarinnar er þaulhugsuð og aðlaðandi. Sýningarrýmið er haganlega nýtt og má auðveldlega skipta út hlutum sýningarinnar án endurhönnunar. Í miðju sýningarsalarins eru eyjar þar sem sýningargripir og ítarlegir textar fjalla um valda þætti mannlífs. Út frá aðalsal sýningarinnar eru minni herbergi sem vekja forvitni gesta. Fjallað er um ákveðið þema í hverju þeirra. Þar, eins og í öðrum hlutum sýningarinnar, er manngerðum hlutum og náttúrugripum fléttað saman ásamt ljósmyndum og öðru myndefni. Sérstakt herbergi, ætlað börnum, er tileinkað náttúruvættum.
Að baki sýningunni liggur hugmyndavinna hóps ólíkra einstaklinga sem eru þekktir fyrir að troða óhefðbundnar slóðir í sköpun og túlkun. Sú vinna skilaði sér í fjölbreyttri og ferskri nálgun og fleiri sjónarhornum en oft sjást í sýningum af þessum toga. Til fyrirmyndar er að allir sýningartextar eru þýddir á ensku, ekki aðeins ágrip eins og oft er. Þýðingin er vönduð og hvergi hnökra að finna. Sýningarskráin er einkar glæsileg og vel unnin, prýdd fjölda fallegra mynda og gerir hugmyndafræðinni að baki sýningunni mjög góð skil.

2010

Nýlistasafnið í Reykjavík hlaut Safnaverðlaunin 2010. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti þau við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þrjú söfn hlutu tilnefningu árið 2010 – Byggðasafn Skagfirðinga, Nýlistasafnið í Reykjavík og Heimilisiðnarðarsafnið á Blönduósi.

Umsögn dómnefndar um Nýlistasafnið:
Nýlistasafnið var stofnað 5. janúar 1978 og fagnaði því 32 ára afmæli á þessu ári. Í tilefni af 30 ára starfsemi safnsins var gefin út bókin Nýlistasafnið 1978–2008 sem er sögulegt yfirlit um starfsemi, forsendur og hlutverk safnsins sett fram á áhugaverðan og aðgengilegan hátt. Þetta sjónræna uppflettirit er skemmtileg nýbreytni í safnastarfi þar sem tekist hefur að samþætta hönnun, tíðaranda og tilgang safnsins í eins konar safngrip sem mögulega heldur sýningum og hugsjón safnsins lifandi með frekari umræðu og úrvinnslu á þeirri starfsemi sem fram hefur farið undanfarna áratugi. Í bókinni er einnig að finna fróðlega atburðaröð eða tímalínu sem unnin var úr fundargerðum og heimildum úr skjala- og gagnasafni Nýlistasafnsins.

Efnt var til viðamikils skráningar- og rannsóknarverkefnis á safneign og gögnum er tengdust sögu safnsins sem hófst formlega í byrjun árs 2008. Árangurinn af skráningarvinnunni fól í sér víðtæka samvinnu við listamenn og fagaðila og var vinnuferlið gert sýnilegt sem hluti af starfsemi safnsins. Varðveisla og heimildir um gjörninga og gjörningatengd verk skiptir hér sköpum því sá listmiðill hefur gjarnan orðið undir í söfnunarstefnu annarra listasafna á Íslandi. Nýlistasafnið hefur öðrum söfnum fremur fóstrað grasrótina í listsköpun eins og nafn safnsins gefur til kynna og aldrei hvikað frá þeirri stefnu. Safnið hefur frá upphafi verið virkur vettvangur fyrir sýningar, listviðburði og staðið fyrir söfnun á samtímamyndlist. Þegar skoðað er sýningayfirlit Nýlistasafnsins sem telur yfir 350 blaðsíður þá er tenging safnsins við alþjóðlegt myndlistarlíf óumdeilanleg. Það að bjóða íslenskum og erlendum listamönnum að sýna saman hefur einnig verið mikilsvert framlag til íslensks listalífs og án efa virkað sem hvetjandi þáttur í starfsemi þess, fyrir íslenska myndlist og ekki síst fyrir almenning. Safnið hefur sérstöðu hvað varðar stjórnun þess og eignarhald en íslenskir myndlistamenn hafa stjórnað safninu frá upphafi og unnið þar sleitulaust að mestu í sjálfboðavinnu. Á þessum þremur áratugum hefur rekstur Nýlistasafnsins orðið bæði formlegri og faglegri með því að hefðbundnum skyldum safna hefur í auknum mæli verið sinnt án þess að kraftur og sveigjanleiki safnsins sem vettvangur gagnrýninnar listumræðu hverfi.

Þann 27. febrúar 2010 opnaði Nýlistasafnið starfsemi sína að Skúlagötu 28 sem er fimmta staðsetning safnsins frá upphafi og telur safneign nú um 2000 verk.

Dómnefnd telur að Nýlistasafnið hafi, með þeirri vinnu sem safnið fór í, sýnt fram á mikilvægi sýnileika safneignar fyrir starfsemi safna og menningarstarfs almennt. Nýlistasafnið stóð frammi fyrir fjölmörgum áskorunum bæði hvað varðar húsnæðismál og á sviði varðveislu og skráningar safneignarinnar, þar sem verk í eigu þess voru oft á tíðum gerð úr forgengilegum efnum eða listhugsun verksins sú að það ætti sér ekki lengri lífdaga en sem nam sýningartímabili eða framkvæmd gjörnings. Þrátt fyrir áskoranir og erfiðleika hefur starfsemi safnsins farið fram með góðu fordæmi.

2008

Byggðasafn Vestfjarða hlaut Íslensku safnaverðlaunin. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti þau við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þau eru veitt annað hvert ár því safni sem þykir hafa skarað fram úr í sínu safnastarfi. Safnaverðlaunin voru fyrst afhent árið 2000. Þrjú söfn voru tilnefnd í ár. Það voru Byggðasafn Vestfjarða, Minjasafnið á Akureyri og Safnasafnið á Svalbarðsströnd, sem reyndar afþakkaði tilnefninguna nú fyrir skemmstu.

Það var Jón Sigurpálsson, forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða, sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd Byggðasafnsins. Í tilkynningu frá skrifstofu forseta kemur fram að Byggðasafn Vestfjarða á Ísafirði sé einstakt safn í sinni röð. Sýningarsvæði þess sé í Neðstakaupstað þar sem standi fjögur hús frá 18. öld, Tjöruhúsið, Krambúð og Faktorshúsið og Turnhúsið, sem saman myndi elstu heild húsa á Íslandi. Þá segir að Byggðasafn Vestfjarða hafi staðið að varðveislu þessara merkilegu húsa með þeim hætti að til fyrirmyndar er og í Neðstakaupstað hefur tekist að skapa andrúmsloft sem vitnar um atvinnuhætti fyrri tíma.

Byggðasafn Vestfjarða leggur áherslu á að safna bátum og bátavélum og hefur farið þá leið í varðveislu báta að halda þeim sjófærum og stuðla þannig að því að viðhalda verkþekkingu við bátasmíðar. Safnið hefur umsjón með elsta slipp landsins þar sem unnt er að standa að viðhaldi báta.

2006

Safnið sem í ár hlýtur Íslensku safnaverðlaunin hefur vakið eftirtekt fyrir vandaða og fjölbreytta miðlun og sýningargerð. Tekist hefur að efna til samstarfs við ólík félög og hópa við gerð þeirra. Á árinu 2006 hefur safnið opnað og kynnt þrjár ólíkar sýningar að efni og framsetningu. Ein sýningin er skammtímasýning en hinar tvær munu standa til lengri tíma. Þá hefur safnið nú í sumar farið óhefðbundna leið í sýningargerð og samstarfi við sex listamenn.

Það var einróma niðurstaða dómnefndar að veita Minjasafni Reykjavíkur, Árbæjarsafni, Íslensku safnaverðlaunin 2006.

Það er álit dómnefndar að með fjölbreyttum sýningum hafi Minjasafn Reykjavíkur, Árbæjarsafn lagt fram mikilvægan skerf til eflingar faglegs starfs í sýningargerð. Árangurinn er hvatning til annarra safna á Íslandi að kynna margvíslegan og fjölbreyttan menningararf þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt.

2003

Dómnefnd íslensku safnaverðlaunanna samþykkti einróma að veita Myndadeild Þjóðminjasafns Íslands Íslensku safnaverðlaunin árið 2003 fyrir öflugt og metnaðarfullt rannsókna- og útgáfustarf.

Myndadeild Þjóðminjasafns Íslands hefur borið þá gæfu að við hana hafa starfað færustu sérfræðingar í sögu íslenskrar ljósmyndunar, auk þess sem þjóðminjaverðir hafa frá upphafi dyggilega stutt framgang og vöxt myndasöfnunar Þjóðminjasafns Íslands.

Myndadeild Þjóðminjasafns Íslands varðveitir um 1,6 milljónir ljósmynda sem borist hafa jafnt og þétt frá því safnið var sett á fót fyrir 140 árum. Jafnframt varðveitir myndadeildin fjölþætt myndefni eins og teikningar, vatnslitamyndir, prentmyndir, grafíkblöð og málverk. Jafnhliða varðveislu og söfnun menningararfsins stunda sérfræðingar safnsins ljósmyndarannsóknir og rannsóknir á íslenskri ljósmyndasögu. Á vegum deildarinnar og safnsins hafa verið haldnar vandaðar ljósmyndasýningar og gefnar út veglegar ljósmyndabækur. Sérstök myndastofa er starfrækt við deildina sem veitir aðstoð þeim er þörf hafa fyrir myndefni hvort heldur er til einkanota eða til útgáfu.

Að mati dómnefndar ber þó hæst hið veglega rit Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945 sem gefið var út haustið 2001 af Þjóðminjasafni Íslands og JPV-útgáfu. Höfundur bókarinnar er Inga Lára Baldvinsdóttir sem gegnt hefur stöðu deildarstjóra Myndadeildar Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1991. Ritið byggir að grunni til á lokaritgerð höfundar í sagnfræði við Háskóla Íslands um ljósmyndun á Íslandi 1846-1926. Um er að ræða grundvallarrit um sögu ljósmyndunar á Íslandi sem er grunnur að frekari rannsóknum í sögu ljósmyndafræða. Í ritinu er inngangur að sögu ljósmyndunar á tímabilinu 1845-1945 og auk þess ítarlegt ljósmyndaratal. Ritið er aðgengilegt jafnt almenningi sem fræðimönnum og í raun ómissandi fræðirit og upplýsingabrunnur um ljósmyndun á Íslandi á þessu tímabili.

2002

Dómnefnd íslensku safnaverðlaunanna samþykkti að veita Byggðasafni Árnesinga Íslensku safnaverðlaunin árið 2002, fyrir byggingu á þjónustuhúsnæði safnsins sem var fullfrágengið í apríl sl. Ákvörðun eigenda safnsins um að reisa þjónustuhúsið með þeim hætt sem gert var er eftirbreytnivert þar sem sú framkvæmd lýsir því að lögð er áhersla á faglegt innra starf og framsýni í safnstarfinu.

Segja má að Byggðasafn Árnesinga hafi frá upphafi glímt við aðstöðuleysi svo sem fleiri söfn í landinu gera. Árið 1995 hófst uppbyggingarskeið hjá safninu þegar opnaðar voru nýjar sýningar í Húsinu og Assistentahúsinu á Eyrarbakka. Þá höfðu bæði húsin hlotið gagngera viðgerð en eftir stóð að rými vantaði fyrir innra starf safnsins, þ.e. söfnun, varðveislu, skráningu og sýningagerð. Innra starf safnanna er grundvöllur þess sem blasir við hinum almenna safngesti. Skráning og yfirsýn starfsmanna yfir safnkostinn, traustur og öruggur aðbúnaður hans eru mikilvægustu þættir þess að safnstarfið þrífist til framtíðar.

2001

Dómefnd íslensku safnaverðlaunana samþykkti einróma að veita safnfræðsludeild Listasafns Reykjavíkur Íslensku safnaverðlaunin árið 2001, en safnfræðsludeildin hefur sinnt listfræðslu til almennings af fagmennsku og verið leiðandi hvað varðar uppeldishlutverk innan safnastarfs á Íslandi.

Safnfræðsla hefur verið starfrækt við Listasafn Reykjavíkur frá árinu 1991. Í meginatriðum er um tvíþætta starfsemi að ræða annars vegar þjónusta við hinn almenna safnagest og hins vegar miðlun til skólanema.

Þjónusta við hinn almenna safngest felst í leiðsögn um sýningar safnsins sem hefur það að markmiði að gera heimsóknina áhugaverðari og ánægjulegri. Leiðsögnin er í höndum myndlistarmanna og safnkennara sem leiða gesti um sýningar safnsins og svara spurningum. Safnafræðsla gefur einnig farið fram í formi leikja og þrauta, þar sem foreldrar og börn taka þátt saman. Það er til fyrirmyndar að Listasafn Reykjavíkur býður upp á leiðsögn fyrir heyrnarskerta, en mánaðarlega fylgir táknmálstúlkur leiðsögumanni í almenni leiðsögn. Sjónskertir geta einnig bókað tíma og kynnst höggmyndum safnsins með snertingu. Heimur myndlistarinar er fyrir marga óaðgengilegur og jafnvel framandi, en með öflugri safnfræðslu fyrir almenning stuðlar safnið að því að gera myndlist aðgengilega og áhugaverða.

2000

Dómnefnd samþykkti einróma að veita Síldarminjasafninu á Siglufirði Íslensku safnaverðlaunin árið 2000. Forseti Íslands afhenti verðlaunin að Bessastöðum þann 22. september 2000, í móttöku sem var hluti af dagskrá hins árlega Farskóla safnmanna að viðstöddum u.þ.b. 80 safnmönnum. Verðlaunagripurinn er skjöldur hannaður af Sigríði Bragadóttur grafískum hönnuði.

Síldarminjasafnið hefur verið starfrækt í Róaldsbrakka frá 1994, og óhætt mun að fyllyrða að FÁUM, Félag áhugamanna um minjasafn sem stofnað var í september 1989, hafi undir forystu Örlygs Kristfinnssonar haft forgöngu um að Síldarminjasafnið þróaðist í þá mynd sem við þekkjum í dag. Síldarminjasafnið er sérhæft safn með markvissa söfnunarstefnu, þar sem söfnunarsvið þess er síldarútvegur og síldarvinnsla á Íslandi 1868-1968, eða þeir atburðir sem kallaðir hafa verið síldarævintýrið mikla.

Á sýningu safnsins er kynnt sérhæft atvinnulíf, þ.e.síldveiðar, söltun, bræðsla og frystiðnaður og fléttað saman við daglegt líf vinnandi fólks á staðnum. Þetta er gert á lifandi og áhugaverðan hátt þar sem teflt er saman þekkingu og hugviti forstöðumanns fremur en dýrum aðkeyptum lausnum.