Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM var haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands þann 17. apríl 2024. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf skv. 6. gr. laga félagsins: skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2023 til 2024 var lögð fram og eins endurskoðaðir ársreikningar 2023, auk þess sem starfsáætlun og helstu verkefni ársins 2024 voru kynnt. Fundarstjóri var Guðrún Dröfn Whitehead, að tilnefningu formanns.
Á fundinum fór einnig fram kjör til embættis meðstjórnanda en Ólöf Gerður Sigfúsdóttir lét af störfum sínum fyrir félagið eftir þriggja ára setu í stjórn, fyrst sem ritari, því næst sem formaður og loks sem meðstjórnandi, til eins árs í senn. Þá gaf Björn Pétursson kost á sér sem meðstjórnandi í hennar stað. Ekki bárust nein mótframboð til embættisins og var kjör hans því samþykkt einróma af fundargestum.
Lagði stjórn því næst fram lagabreytingartillögur í samræmi við 8. gr. í lögum félagsins. Er þar kveðið á um að slíkar tillögur nái aðeins fram að ganga séu þær samþykktar af þremur fjórðu greiddra atkvæða fundarmanna og þá aðeins ef minnst þriðjungur af félögum deildarinnar tekur þátt í fundinum, í eigin persónu eða með umboði.
Á kjörskrá voru 175 aðilar, þar af 162 félagar með einstaklingsaðild og 9 félagar sem komnir eru á eftirlaun, auk 4 stofnana sem hafa atkvæðisrétt í nafni stofnanaaðildar. Því þurfti kosningaþátttaka að nema minnst 58 atkvæðum til að kosningin teldist atkvæðabær. Greidd voru 60 atkvæði og skiptust þau í 47 atkvæði með umboði og 13 atkvæði viðstaddra félaga. Þá voru lagabreytingartillögurnar samþykktar einróma af kjósendum.
Þakkar stjórn fráfarandi meðstjórnanda, Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur, kærlega fyrir hennar störf í þágu félagsins á liðnum árum. Eins eru fundarstjóra og þeim félögum sem mættu og tóku þátt í fundinum færðar bestu þakkir, auk þess sem stjórn skilar þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í kosningu um lagabreytingar, ýmist með umboði eða í eigin persónu. Hlakkar stjórn loks til komandi verkefna með safnafólki um land allt á nýju starfsári.
Skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2023 til 2024 má lesa með því að smella hér.