Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM 2024

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM verður haldinn miðvikudaginn 17. apríl 2024, kl. 14:00-15:30, í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Dagskrá

Venjuleg aðalfundarstörf skv. 6. gr. laga Íslandsdeildar ICOM:

  • Ársskýrsla fyrir árið 2023 lögð fram.
  • Endurskoðaðir ársreikningar fyrir árið 2023 lagðir fram.
  • Starfsáætlun ársins 2024 kynnt.
  • Kjör til stjórnar. Óskað er eftir framboðum til embættis meðstjórnanda. 
  • Lagabreytingar (sjá neðar).
  • Önnur mál.

Að fundi loknum mun Lilja Árnadóttir, fyrrverandi formaður Íslandsdeildar ICOM, leiða fundargesti um sýninguna Með verkum handanna sem nú stendur yfir í Þjóðminjasafninu.


Lagabreytingar

Stjórn Íslandsdeildar ICOM leggur fram lagabreytingartillögur á lögum félagsins í því sjónarmiði að aðlaga þau að lögum og starfsreglum ICOM. Síðast voru gerðar breytingar á lögum Íslandsdeildar ICOM með samþykkt aðalfundar þann 8. desember 1993. Í millitíðinni hefur lögum Alþjóðaráðsins verið breytt en lög Íslandsdeildarinnar hafa ekki verið uppfærð til samræmis við þær breytingar. Því eru vísanir í lögum Íslandsdeildarinnar ekki í samhljómi við þær tilvísanir sem finna má í gildandi lögum og starfsreglum ICOM. Einnig leggur stjórn fram tillögu um að breyta orðanotkun í lögum Íslandsdeildarinnar til þess að endurspegla betur starfshætti deildarinnar. Kosið verður um tillögurnar í tvennu lagi en kynningu á lagabreytingartillögunum má finna með því að smella hér.

Lögum félagsins má aðeins breyta á löglega boðuðum aðalfundi og skulu tillögurnar kynntar félögum deildarinnar í síðasta lagi tveimur vikum fyrir þann aðalfund sem fjalla á um tillögurnar. Þá ná breytingarnar aðeins fram að ganga séu þær samþykktar af þremur fjórðu greiddra atkvæða fundarmanna og þá aðeins ef minnst þriðjungur af félögum deildarinnar tekur þátt í fundinum, í eigin persónu eða með umboði, svo sem kveðið er á um í lögum félagsins, 8. gr, 1., 2. og 4. lið. Þá hefur sérhver félagi eitt atkvæði en er einnig heimilt að fara með umboð annarra í kosningum og atkvæðagreiðslum, samkvæmt lögum Íslandsdeildar ICOM, 4. gr., 6. lið. Er félögum sem ekki sjá sér fært að mæta á fundinn því bent á að nýta sér þessa heimild til þess að kjósa um lagabreytingartillögurnar, svo að unnt sé að uppfæra lögin til samræmis við stjórnarhætti, lög og starfsreglur ICOM.

Spurningar, ábendingar eða athugasemdir sendist á lagabreytingar@icom.is.