Tillaga að nýrri safnaskilgreiningu ICOM og drög að þýðingu

Á 26. allsherjarþingi ICOM í Prag dagana 20. til 28. ágúst verður lögð fram tillaga um nýja safnaskilgreiningu Alþjóðaráðs safna, í kjölfar breiðs og opins samráðsferlis fastanefndarinnar ICOM Define undanfarna átján mánuði. Þá verður kosið á milli tillögunnar og núgildandi skilgreiningar, sem samþykkt var á 22. allsherjarþingi ICOM í Vín árið 2007, á stórfundi þingsins þann 24. ágúst kl. 12:30 að staðartíma (10:30 að íslenskum tíma).

Hér fyrir neðan má lesa tillöguna sem lögð verður fram til kosningar, auk þess sem sjá má drög að þýðingu og núgildandi safnaskilgreiningu ICOM í íslenskri þýðingu. Verði tillagan samþykkt á stórfundi allsherjarþingsins mun stjórn Íslandsdeildar í framhaldinu boða félaga til samráðs um þýðinguna með formlegum hætti en í millitíðinni tekur stjórn við ábendingum og athugasendum í tölvupósti á icom@icom.is.

TILLAGA AÐ NÝRRI SKILGREININGU:
A museum is a not-for-profit, permanent institution in the service of society that researches, collects, conserves, interprets and exhibits tangible and intangible heritage. Open to the public, accessible and inclusive, museums foster diversity and sustainability. They operate and communicate ethically, professionally and with the participation of communities, offering varied experiences for education, enjoyment, reflection and knowledge sharing.

DRÖG AÐ ÞÝÐINGU:
Safn er óhagnaðardrifin og varanleg stofnun í þjónustu við samfélagið sem rannsakar, safnar, varðveitir, túlkar og sýnir áþreifanlegan og óáþreifanlegan arf. Söfn stuðla að fjölbreytileika og sjálfbærni með því að vera opin almenningi, aðgengileg og inngildandi. Þau starfa og miðla á siðferðislegan og faglegan hátt með þátttöku ýmissa hópa samfélagsins og bjóða upp á fjölbreytta upplifun í þágu menntunar, ánægju, ígrundunar og þekkingar.

NÚGILDANDI SKILGREINING (2007):
Safn er stofnun með fastan rekstur sem ekki er rekin í ágóðaskyni heldur til þjónustu við samfélagið og til framgangs þess, er opin almenningi og safnar, varðveitir, rannsakar, miðlar og sýnir – til skoðunar, menntunarauka eða ánægju – það sem til vitnis er um fólk og umhverfi þess, bæði áþreifanlegt og óáþreifanlegt.