Minjasafnið á Akureyri hlýtur Íslensku safnaverðlaunin 2022

Stjórn Íslandsdeildar ICOM óskar Minjasafninu á Akureyri innilega til hamingju með að hafa hlotið Íslensku safnaverðlaunin 2022.

Í rökstuðningi valnefndar fyrir tilnefningu safnsins segir: „Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.“

Þá óskum við öllum þeim söfnum sem hlutu tilnefningu í ár einnig til hamingju með framúrskarandi starf og fögnum blómlegu starfi safna á Íslandi í dag.

Loks þakkar stjórn öllum sem voru viðstödd afhendinguna í Safnahúsinu og eins öllum sem tóku þátt í Alþjóðlega safnadeginum með okkur þetta árið.


Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum, sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn árið 2000 en í ár bárust vel á annan tug tilnefninga, ýmist frá söfnunum sjálfum og frá almenningi.

Mynd: Sigfús Karlsson fyrir RÚV.