Allsherjarþing ICOM í Prag 2022: Mikill er máttur safna

Allsherjarþing ICOM, Alþjóðaráðs safna, verður haldið í Prag dagana 20. til 28. ágúst 2022. Þetta er í 26. sinn sem slíkt þing fer fram á vegum samtakanna en yfirskrift þingsins að þessu sinni er Mikill er máttur safna (e. The Power of Museums).

Á dagskrá þingsins að þessu sinni er meðal annars kosning um nýja safnaskilgreiningu, sem hefur verið í endurskoðun undanfarin ár. Á 25. allsherjarþingi ICOM, sem haldið var í Kýótó árið 2019, var ákveðið að hefja á ný opið samráðsferli um skilgreininguna á breiðum grundvelli, í samstarfi við landsdeildir, alþjóðlegar fagdeildir, svæðissamtök og aðra hagsmunaaðila ICOM.

Í framhaldinu var komið á fót fastanefnd um nýja safnaskilgreiningu, ICOM Define, sem leiddi vinnuna og hefur nú skilað af sér tillögu sem lögð verður fyrir allsherjarþingið til kosningar þann 24. ágúst (sjá nánar um tillöguna og drög að þýðingu hér). Verður þar kosið á milli tillögunnar og núgildandi skilgreiningar, sem samþykkt var á 22. allsherjarþingi ICOM í Vín árið 2007.

Á allsherjarþinginu í ár verður einnig haldinn formlegur stofnfundur norrænu svæðissamtakanna ICOM NORD, að uppfylltum öllum skilyrðum er kveðið er á um í lögum Alþjóðaráðsins um starfsemi og skyldur svæðissamtaka ICOM. Mun þar með ljúka þriggja ára undirbúningsferli bráðabirgðastjórnar sem hefur unnið að fullgildingu svæðissamtakanna síðan árið 2019 þegar norrænu landsnefndirnar tóku höndum saman um stofnsetningu ICOM NORD.

Fer fundurinn fram 22. ágúst kl. 14:00 að staðartíma (kl. 12:00 að íslenskum tíma) í Ráðstefnumiðstöðinni í Prag, fundarsal 223. Hefur Hólmar Hólm, ritari Íslandsdeildar, verið tilnefndur sem ritari í stjórn svæðissamtakanna og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður deildarinnar, sem varamaður hans en hún hefur setið í bráðabirgðastjórn ICOM Nord síðustu misseri.

Þá vekur stjórn Íslandsdeildar athygli á því að félögum stendur nú í fyrsta sinn til boða að sækja allsherjarþingið með rafrænum hætti og eru félagar því eindregið hvattir til að taka þátt í dagskránni í gegnum netið en enn er hægt að skrá sig til þátttöku á slíkan hátt. Nánari upplýsingar um skráningu og fyrirkomulag rafrænna funda má finna hér á heimasíðu ICOM.

Allsherjarþingið er æðsta stofnun Alþjóðaráðsins, þar sem kjör fer fram til framkvæmdaráðs, tillögur er lagðar fram til samþykktar, auk þess sem á dagskránni eru ávörp leiðandi sérfræðinga og áhrifafólks í faginu, málstofur, pallborðsumræður og ýmsir viðburðir sem ætlað er að stuðla að auknum tengslum á milli félaga úr öllum áttum.