Opið bréf til ráðherra og alþingismanna í tilefni Alþjóðlega safnadagsins

Í dag fagna söfn og safnafólk á heimsvísu hinum Alþjóðlega safnadegi sem haldinn hefur verið hátíðlegur þann 18. maí á vegum ICOM, Alþjóðaráðs safna, síðan 1977. Í tilefni dagsins hvet ég, undirritaður, hæstvirta ráðherra og alþingismenn, æðstu ráðamenn þjóðarinnar, til að styðja og styrkja söfn – viðurkennd söfn sem og höfuðsöfn – eftir fremsta megni svo þau megi standa undir lögboðnu hlutverki sínu samkvæmt safnalögum 2011 nr. 141. Er þar meðal annars kveðið á um að söfn skuli ekki rekin í hagnaðarskyni, auk þess sem þau skulu „safna, varðveita, rannsaka og miðla því sem er til vitnis um manninn, sögu hans og menningu, náttúru og umhverfi í nafni samfélagsins og til framgangs þess.“

Enn fremur vek ég athygli á því að á liðnu ári, á 26. allsherjarþingi Alþjóðaráðs safna, var ný safnaskilgreining ráðsins samþykkt, svohljóðandi: „Safn er varanleg stofnun, ekki rekin í hagnaðarskyni, sem þjónar samfélaginu með rannsóknum, söfnun, varðveislu, túlkun og miðlun á áþreifanlegri og óáþreifanlegri arfleifð. Söfn eru opin almenningi, aðgengileg og inngildandi og stuðla með því að fjölbreytileika og sjálfbærni. Í starfi sínu og virkum samskiptum við ólíka samfélagshópa hafa þau fagmennsku og siðferðileg gildi að leiðarljósi og bjóða upp á margvíslegar upplifanir í þágu menntunar, ánægju, ígrundunar og þekkingarauka.“

Söfn sinna mikilvægu menntunarhlutverki ásamt því að varðveita minningar og verðmæta muni í þágu samfélagsins og komandi kynslóða. Þá er safnafólk um allt land uggandi yfir þeirri þróun sem vart hefur orðið við að undanförnu, þar sem gengið er nærri alls kyns söfnum og starfsemi þeirra stefnt í hættu. Hins vegar er brýnt að ákvarðanir um framtíð safna séu ekki teknar án aðkomu sérfræðinga á safnasviðinu, auk þess sem það má ekki vanmeta gildi safna fyrir samfélagið. Menning og menntun eru enda grundvöllur velferðar og verður verðmætasköpun safna ekki einungis metin til fjár. Eigi að síður veltur farsælt og faglegt safnastarf á því að söfn hafi nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning til að uppfylla lögboðnar skyldur sínar, samfélaginu til heilla.

Hvet ég ykkur því eindregið til að huga að söfnum, hlúa að starfsemi þeirra og standa vörð um sameiginlega arfleifð okkar fjölbreytta samfélags svo ómetanleg menningarverðmæti fari ekki forgörðum.

Virðingarfyllst,
Hólmar Hólm,
formaður Íslandsdeildar ICOM,
Alþjóðaráðs safna