Varðandi hugmyndir ráðgjafa og ráðamanna til hagræðingar í rekstri menningarstofnana

Stjórn Íslandsdeildar ICOM geldur varhug við þeirri uggvænlegu þróun sem vart hefur orðið við á sviði menningarmála, þar sem sveitarstjórnir og aðilar í einkageiranum hafa í sameiningu vegið að grunnstoðum ýmissa menningarstofnana og grafið undan öflugu starfi þeirra í almannaþágu. Þá hafa Reykjavíkurborg og Kópavogsbær til að mynda leitað til KPMG um ráðgjöf varðandi lausnir til hagræðingar í rekstri stofnana sem hafa mikilvægu menningarlegu og samfélagslegu hlutverki að gegna. Áhersla er lögð á gróðasjónarmið og niðurskurð, svo sem með að leggja niður stofnanir sem eiga sér langa sögu, líkt og Borgarskjalasafn og Héraðsskjalasafn Kópavogs, og eins með því að leggja til að Gerðarsafn taki við verkefnum Náttúrufræðistofu Kópavogs, sem bæði eru viðurkennd söfn.

Hafa vinnubrögð ráðamanna og ráðgjafa KPMG vakið hörð viðbrögð meðal almennings og starfsfólks á sviði menningar en alvarlegt hlýtur að teljast hversu margar villur eða rangfærslur forstöðumenn menningarhúsa Kópavogsbæjar hafa bent á í greiningu KPMG á rekstri húsanna (sjá fylgiskjöl með athugasemdum forstöðumanna ásamt fundargerð lista- og menningarráðs Kópavogs). Ber þetta ekki aðeins vott um hroðvirknislega framkvæmd, heldur bersýnilegan skilningsskort ráðgjafanna á hlutverki og gildi menningarstofnana fyrir samfélagið, auk þess sem skakkar forsendur liggja til grundvallar fjölmargra tillagna þeirra um hagræðingu. Þá er það ráðamönnum til skammar að samþykkja í skyndi tillögur sem byggðar eru á skilningsleysi á þjónustu og starfsemi slíkra stofnana, án þess að leita frekara samráðs við forstöðumenn og sérfræðinga í menningargeiranum. Enn fremur væri vert að kanna betur viðhorf almennings til varanlegra og veigamikilla breytinga á skipulagi stofnana í almannaeigu, jafnt í Reykjavík sem í Kópavogi.

Áréttað skal að samkvæmt safnaskilgreiningu ICOM, Alþjóðaráðs safna, og safnalögum nr. 141/2011 eru söfn varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þá ber viðurkenndum söfnum, sem og höfuðsöfnum ríkisins, að uppfylla ákveðin skilyrði en lögbundið hlutverk þeirra er að sinna söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og miðlun á þeim menningar- og náttúruarfi sem þau varðveita fyrir samfélagið og komandi kynslóðir. Það liggur þó ljóst fyrir að ýmsar af þeim tillögum sem settar hafa verið fram og samþykktar fyrirvaralaust af ráðamönnum eru til þess fallnar að grafa undan þessu hlutverki og gera söfnum erfiðara um vik að uppfylla skyldur sínar, einkum er kemur að rannsóknum en sá þáttur hefur þegar reynst mörgum söfnum erfiður viðfangs vegna skorts á fjármagni og mannafla.

Þrátt fyrir að menningarstofnunum um allt land hafi lengi verið sniðinn þröngur stakkur, hafa þær haldið uppi öflugu og faglegu starfi. Í Kópavogi hefur starfsemi menningarhúsanna verið til fyrirmyndar og átt stóran þátt í að efla ásýnd og auka aðdráttarafl bæjarins sem áhugaverðs áfangastaðar fyrir bæði innlenda og erlenda gesti. Það er því áhyggjuefni að niðurskurðarstefna fari nú eins og eldur í sinu um stærstu sveitarfélög landsins sem hafa hingað til mátt státa af blómlegu og metnaðarfullu menningarlífi í krafti framúrskarandi stofnana sem bjóða upp á fjölbreytta dagskrá fyrir fólk á öllum aldri. Þá gagnrýnir stjórn Íslandsdeildar ICOM harðlega hversu hröð þessi þróun hefur verið og hversu langt hún hefur náð, án þess að hugað virðist hafa verið að menningarsögulegu samhengi og samfélagslegu gildi þeirra stofnana sem um ræðir.

Því hvetjum við ráðamenn til þess að hverfa af þessari óheillabraut og vonum að valdhafar megi enn bera gæfu til að standa vörð um þær stofnanir sem almenningur treystir þeim fyrir.

Virðingarfyllst,
stjórn Íslandsdeildar ICOM,
Hólmar Hólm, formaður
Ragnheiður Vignisdóttir, ritari
Berglind Þorsteinsdóttir, gjaldkeri
Hjördís Pálsdóttir, meðstjórnandi
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, meðstjórnandi