Breyting á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn og Náttúruminjasafn samþykkt

Þann 5. júní síðastliðinn var frumvarp til laga um breytingu á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn Íslands og lögum um Náttúruminjasafn Íslands samþykkt á Alþingi.

Frumvarpið var lagt fram af menningar- og viðskiptaráðherra að höfðu samráði við safna- og fræðafólk haustið 2022, þar á meðal fulltrúa Íslandsdeildar ICOM og Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS).

Helsta breytingin sem þar er gerð á safnalögum er að heimilt er að endurnýja skipun forstöðumanna Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands einu sinni, til fimm ára, og geta forstöðumenn því mest gegnt embætti í tíu ár, í samræmi við gildandi lög um skipunartíma forstöðumanns Listasafns Íslands.

Þá er kveðið á um að safnaráð boði að minnsta kosti árlega til samráðsfundar með ráðherra og fulltrúum höfuðsafna og þeirra fagfélaga sem koma að starfi safnanna.

Fagnar stjórn Íslandsdeildar ICOM samþykkt frumvarpsins og færir ráðherra þakkir fyrir að fylgja því eftir, auk þess sem stjórn þakkar fulltrúum þeirra félaga sem einnig komu að málinu.

Mynd: Bragi Þór Jósefsson, af vefsíðu Alþingis.