Könnun: íslensk þýðing nýrrar safnaskilgreiningar ICOM

Í tilefni dags íslenskrar tungu og 76 ára afmælis ICOM, Alþjóðaráðs safna, kynnir stjórn Íslandsdeildar samtakanna síðasta liðinn í þýðingarferli nýrrar safnaskilgreiningar sem samþykkt var á allsherjarþingi ICOM í Prag þann 24. ágúst síðastliðinn.

Stjórn leitar enn samráðs við félaga Íslandsdeildarinnar en áður hefur verið boðað til umræðna með forsvarsmönnum safna, fulltrúum safnaráðs og Rannsóknaseturs í safnafræðum um íslenska þýðingu skilgreiningarinnar, auk þess sem opin málstofa var haldin um þýðinguna á Farskóla FÍSOS á Hallormsstað í haust.

Þá býður stjórn félögum nú að taka þátt í rafrænni könnun um þýðinguna og vonast til að félagar muni nýta sér þennan vettvang til að tjá sig um efnið og koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en lokaþýðing skilgreiningarinnar verður kynnt fyrir félögum síðar á árinu.

Könnunin verður opin til og með 23. nóvember næstkomandi og er aðgengileg hér. Er félögum einnig bent á að stjórn Íslandsdeildar ICOM tekur við athugasemdum eða ábendingum varðandi þýðinguna í tölvupósti á icom@icom.is.