Opinber þýðing nýrrar safnaskilgreiningar ICOM á íslensku

Þann 24. ágúst síðastliðinn samþykkti Alþjóðaráð safna (ICOM) nýja safnaskilgreiningu á 26. allsherjarþingi samtakanna og því hefur stjórn Íslandsdeildar ICOM staðið frammi fyrir því verkefni undanfarna mánuði, sem ein af 122 landsdeildum ICOM, að þýða hina nýju safnaskilgreiningu fyrir íslenskt samfélag. Í því ljósi hefur stjórnin lagt mikla áherslu á að eiga opið samtal við fagvettvang safnafólks við vinnslu þýðingarinnar, auk þess að leita álits fræðafólks. Eftir þetta víðtæka samráð kynnir stjórn Íslandsdeildar ICOM nú íslenska þýðingu nýrrar safnaskilgreiningar Alþjóðaráðs safna:

Safn er varanleg stofnun, ekki rekin í hagnaðarskyni, sem þjónar samfélaginu með rannsóknum, söfnun, varðveislu, túlkun og miðlun á áþreifanlegri og óáþreifanlegri arfleifð. Söfn eru opin almenningi, aðgengileg og inngildandi og stuðla með því að fjölbreytileika og sjálfbærni. Í starfi sínu og virkum samskiptum við ólíka samfélagshópa hafa þau fagmennsku og siðferðileg gildi að leiðarljósi og bjóða upp á margvíslegar upplifanir í þágu menntunar, ánægju, ígrundunar og þekkingarauka.

Er það von okkar sem störfum fyrir Íslandsdeild ICOM að ný skilgreining megi gagnast og þjóna safnasamfélaginu hérlendis á komandi árum og verða því leiðarljós til áframhaldandi stefnumótunar og góðra verka. Starf íslenskra safna er bæði blómlegt og framsækið og að mörgu leyti mætti segja að íslensk söfn hafi nú þegar starfað í samræmi við nýja safnaskilgreiningu um árabil. Viljum við því bjóða ykkur öllum, safnafólki sem öðrum, að hugsa með okkur um hlutverk safna, framtíð þeirra og mátt sem og þann heim sem við viljum skilja eftir okkur fyrir komandi kynslóðir.

Því söfnin eru okkar allra.