Menningar- og viðskiptaráðuneytið kynnir breytingalagafrumvarp til samráðs

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur kynnt til samráðs mál nr. 220/2022: „Frumvarp til laga um breytingu á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn Íslands og lögum um Náttúruminjasafn Íslands (samráð og skipunartími)“.

Frumvarpið er breytingalagafrumvarp sem breytir þrennum lögum: safnalögum, nr. 141/2011, lögum um Þjóðminjasafn Íslands, nr. 140/2011 og lögum um Náttúruminjasafn Íslands, nr. 35/2007. Í fyrsta lagi er við safnalög bætt ákvæði þess efnis að árlega fari fram samráðsfundur ráðherra með safnaráði og safnafólki. Í öðru lagi er bætt við lög um Þjóðminjasafn Íslands og lög um Náttúruminjasafn Íslands ákvæði um skipunartíma forstöðumanna.

Tilefni lagasetningarinnar eru samráðsfundir sem menningar- og viðskiptaráðherra átti með fulltrúum safnafólks haustið 2022. Nauðsynlegt var talið að komið yrði á formlegu samráði milli aðila annars vegar og hins vegar hugað að samræmdum skipunartíma forstöðumanna höfuðsafna á Íslandi. Höfuðsöfnin eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Ákvæði eru þegar til staðar í myndlistarlögum, nr. 64/2012, varðandi skipunartíma forstöðumanns Listasafns Íslands þess efnis að heimilt sé að endurnýja skipun safnstjóra einu sinni til fimm ára, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Í frumvarpinu er sams konar ákvæði bætt við lög um Náttúruminjasafn Íslands og lög um Þjóðminjasafn Íslands.

Umsagnarfrestur er til og með 29. nóvember næstkomandi og hefur boð um umsögn þegar verið sent til hagsmunaaðila en öllum er frjálst að taka þátt í samráðinu, sjá hér.

Niðurstöður samráðsins verða birtar í gáttinni þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Stjórn Íslandsdeildar ICOM tók þátt í samráðsfundunum á vegum ráðuneytisins ásamt stjórnum eftirtalinna félaga: Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS), Félags fornleifafræðinga, Sagnfræðingafélagsins og Félags þjóðfræðinga.

Hvetur stjórn Íslandsdeildar ICOM félaga einatt til þess að taka þátt í samráðsferlinu og senda inn athugasemdir eða ábendingar í gegnum gáttina.

Mynd: Facebook-síða menningar- og viðskiptaráðuneytis.