Allsherjarþing ICOM samþykkir nýja safnaskilgreiningu

Á aukafundi 26. allsherjarþings ICOM, Alþjóðaráðs safna, í Prag þann 24. ágúst 2022 samþykkti ráðið með kosningu að breyta safnaskilgreiningu ICOM, sem hefur haldist óbreytt síðan 2007.

Markar þessi ákvörðun tímamót í starfsemi samtakanna en ráðist var að nýju í endurskoðun safnaskilgreiningarinnar fyrir átján mánuðum, eftir innri átök um tillögu að nýrri safnaskilgreiningu sem lõgð var fyrir 25. allsherjarþing ICOM í Kýótó árið 2019.

Nýtt ferli hófst árið 2020 með stofnun fastanefndarinnar ICOM Define, sem haft hefur faglega umsjón með ferlinu og mun í framhaldinu fylgja ákvörðuninni eftir er landsdeildir Alþjóðaráðsins takast á við það verkefni að þýða skilgreininguna til að hún megi sem best þjóna ólíkum mál- og safnasamfélögum.

Þá fagnar stjórn Íslandsdeildar ICOM þessum merka áfanga í sögu samtakanna og hlakkar til að eiga opið samtal við safnafólk og tengda aðila um íslenska þýðingu skilgreiningarinnar, sem og áhrif hennar á starf og stefnumótun í okkar eigin samfélagi.

Ný safnaskilgreining ICOM er svohljóðandi (á ensku):

A museum is a not-for-profit, permanent institution in the service of society that researches, collects, conserves, interprets and exhibits tangible and intangible heritage. Open to the public, accessible and inclusive, museums foster diversity and sustainability. They operate and communicate ethically, professionally and with the participation of communities, offering varied experiences for education, enjoyment, reflection and knowledge sharing.

Hér má svo sjá drög að þýðingu á skilgreiningunni, sem unnin var í tengslum við tillöguna og er birt með fyrirvara, en líkt og tekið hefur verið fram er nú tímabært að eiga samtal með ólíkum aðilum á breiðum fagvettvangi safna um málið, skilgreiningar og orðanotkun:

Safn er óhagnaðardrifin og varanleg stofnun í þjónustu við samfélagið sem rannsakar, safnar, varðveitir, túlkar og sýnir áþreifanlegan og óáþreifanlegan arf. Söfn stuðla að fjölbreytileika og sjálfbærni með því að vera opin almenningi, aðgengileg og inngildandi. Þau starfa og miðla á siðferðislegan og faglegan hátt með þátttöku ýmissa hópa samfélagsins og bjóða upp á fjölbreytta upplifun í þágu menntunar, ánægju, ígrundunar og þekkingar.