Bréf til menningarráðherra vegna skipunar þjóðminjavarðar

Stjórn Íslandsdeildar ICOM, Alþjóðaráðs safna, gerir alvarlegar athugasemdir við það hvernig staðið var að ráðningu nýs þjóðminjavarðar sem skipaður var án auglýsingar, skv. tilkynningu menningar- og viðskiptaráðuneytisins dagsettri þann 25. ágúst síðastliðinn. Í tilkynningu kemur fram að ráðherra hafi ákveðið að nýta heimild í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til að flytja embættismann milli stofnana, úr einu höfuðsafni í annað. Leggur stjórn Íslandsdeildar ICOM áherslu á að engar athugasemdir eru gerðar við hæfi nýskipaðs þjóðminjavarðar. Hins vegar þyki rík ástæða til að gera alvarlegar athugasemdir við ráðningarferlið og þau ógagnsæju vinnubrögð sem ráðherra viðhefur í málinu, þar sem þau stangast á við meginreglu sömu laga að opinberlega skuli auglýsa laus embætti og störf hjá ríkinu.

Mikilvægt sé að misnota ekki heimild 36. gr. laganna með þeim áhrifum að svipta aðra hæfa umsækjendur á starfssviði safna tækifærinu til þess að lýsa framtíðarsýn sinni á starfið og stofnunina, öllum til heilla. Er í því samhengi bent á 1.11 gr. í siðareglum ICOM, Alþjóðaráðs safna, sem jafnframt er vísað til í 10.7 gr. safnalaga 2011 nr. 141, en í téðri grein siðareglnanna, varðandi starfsmannahald, er kveðið á um að yfirstjórn safns eða safna skuli tryggja að allar ákvarðanir um starfsmannahald séu teknar með viðteknum löglegum hætti. Þá undirstrikar stjórn Íslandsdeildar ICOM mikilvægi þess að undanþáguheimild skuli ekki nýtt eða túlkuð sem viðtekin eða almenn regla, sér í lagi við skipun í ábyrgðarstöðu sem slíka, er felur í sér yfirstjórn eins þriggja höfuðsafna íslenska ríkisins, sem hefur enn fremur ekki verið auglýst síðan árið 2000.

Sem aðalstjórnandi safnsins gegnir þjóðminjavörður lykilhlutverki, sbr. 1.12 gr. siðareglna ICOM, og því ber ráðherra að leita allra leiða til að tryggja að til stöðunnar ráðist sá sem telst hæfastur úr hópi umsækjenda um starfið, hagsmuna safnsins og samfélagsins vegna. Með því að kjósa að auglýsa stöðuna ekki lítur ráðherra fram hjá öllum öðrum sem kæmu til greina í stöðuna, auk þess sem ráðherra rúir stjórnsýsluna trausti starfsvettvangsins, sem og samfélagsins alls, með þessari ráðstöfun. Stjórn Íslandsdeildar beinir því í framhaldinu til ráðherra að endurskoða starfshætti og vinnulag ráðuneytisins er kemur að slíkum skipunum og hafa það sem reglu að bjóða fagfólki jöfn tækifæri til þess að sækja um opinberar stöður á við þessa, með fagleg vinnubrögð, gagnsæi og jafnrétti að leiðarljósi.

Virðingarfyllst,
stjórn Íslandsdeildar ICOM,
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður
Hólmar Hólm, ritari
Anna Friðbertsdóttir, gjaldkeri
Berglind Þorsteinsdóttir, meðstjórnandi