Eins og komið hefur fram í fréttum í vikunni boðaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, til fundar með þeim fagaðilum sem gagnrýnt hafa með hvaða hætti ráðherra stóð að skipun nýs þjóðminjavarðar, sem tilkynnt var um þann 25. ágúst síðastliðinn.
Fundinn sóttu meðal annars fulltrúar eftirtalinna fagfélaga: Félags íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS), Íslandsdeildar ICOM, Félags fornleifafræðinga, Sagnfræðingafélagsins og Félags þjóðfræðinga.
Þá var ákveðið að stofna samráðshóp á vegum ráðuneytisins með þeim aðilum sem boðaðir voru til fundarins en hópurinn mun hittast aftur næsta þriðjudag til að halda áfram viðræðum um málið og hugsanleg næstu skref.
Eitt af þeim atriðum sem eru til skoðunar, að tillögu félaganna, er að samræma lög um skipunartíma forstöðumanna höfuðsafnanna og leggur stjórn Íslandsdeildar ríka áherslu á að höfuðsöfnin þrjú sitji við sama borð í þeim efnum.
Mun stjórn upplýsa félaga um stöðu mála svo sem tilefni er til.