Samstöðuyfirlýsing Íslandsdeildar með Úkraínu

Íslandsdeild ICOM tekur heilshugar undir samstöðuyfirlýsingu landsdeilda, fagdeilda og svæðissamtaka Alþjóðaráðsins með kollegum okkar í Úkraínu, auk yfirlýsingar Alþjóðaráðs safna vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, sem dagsett er þann 24. febrúar 2022.

Þá er minnt sérstaklega á ákvæði Haag-samningsins frá 1954, þar sem kveðið er á um vernd menningarverðmæta þegar kemur til vopnaðra átaka. Er innrásin jafnframt fordæmd harðlega sem og allar umleitanir til að grafa undan friði og samstarfi þjóða á milli.

Söfn standa enda vörð um hina sameiginlegu menningararfleifð mannkyns, til minja um hina myrku sem ómyrku kafla sögunnar, og ber því skylda til að halda á lofti voninni um að slík ódæði fái ekki að endurtaka sig í friðsælum heimi.