Stjórn Íslandsdeildar ICOM óskar Listasafni Reykjavíkur innilega til hamingju með að hafa hlotið Íslensku safnaverðlaunin 2024.
Viðurkenninguna hlýtur safnið fyrir framsækið miðlunarstarf en í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars: „Grunnstef í miðlun Listasafns Reykjavíkur er að allir geti tengst myndlist í fortíð og samtíma á eigin forsendum. Gestir safnsins á öllum aldri, af ólíku þjóðerni og mismunandi áhuga eða getu eru hvattir til að skoða og uppgötva og ekki síst til þátttöku í miðlunarstarfi safnsins. Safnið leitast við að sníða sýningar og aðra miðlun með það að markmiði að skapa borgarbúum og öðrum gestum innihaldsríkar og ánægjulegar myndlistarstundir.“
Þá óskum við öllum þeim söfnum sem hlutu tilnefningu í ár einnig til hamingju með framúrskarandi starf og fögnum blómlegu starfi safna á Íslandi í dag.
Loks þakkar stjórn öllum sem voru viðstödd afhendinguna í Safnahúsinu og eins öllum sem tóku þátt í Alþjóðlega safnadeginum með okkur þetta árið.
Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum en um er að ræða viðurkenningu sem fellur í skaut íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi á sínu sviði. Verðlaunin voru afhent í fyrsta sinn árið 2000 en í ár bárust vel á annan tug tilnefninga, ýmist frá söfnunum sjálfum og frá almenningi.
Mynd: Kristín S. Pétursdóttir.