Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, afhenti styrki úr aðalúthlutun safnasjóðs árið 2024 við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu þann 23. janúar, að loknum ársfundi höfuðsafna og safnaráðs.
Auk þess sem veittir voru styrkir til fjölda metnaðarfullra verkefna á vegum viðurkenndra safna, hlaut Íslandsdeild ICOM styrk til þess að standa að Íslensku safnaverðlaununum 2024, í samstarfi við FÍSOS, Félag íslenskra safna og safnafólks.
Það var Hólmar Hólm, formaður deildarinnar, sem tók við styrknum fyrir hönd stjórnar.
Þá fagnar stjórn öflugu starfi íslenskra safna og hlakkar til að eiga gott og gjöfult samtal við félaga á árinu.