ICOM Nord kynnir vorráðstefnu svæðisbandalagsins, Nordic Roots and Routes: A Journey into Northern Values, sem haldin verður dagana 12. og 13. maí 2025 í Nordiska museet í Stokkhólmi. Á þessari tveggja daga ráðstefnu býðst safnafólki frá Norðurlöndum að hugleiða sameiginleg gildi, menningarlega sjálfsmynd og sérstöðu svæðisins. Þá verður boðið upp á upplýsandi umræður, fyrirlestra og vinnustofu, þar sem rætt verður hvernig söfn móta og miðla norrænum viðhorfum, auk þess sem sýningin Nordic Life verður könnuð.
Á dagskránni eru meðal annars áhugaverðir fyrirlestrar um menningarlega framsetningu, sýningargerð og nýjustu tíðindi frá aðalskrifstofu ICOM, stjórn ICOM Nord og formönnum norrænu landsdeildanna. Meðal þess helsta eru erindi frá Bi Puranen hjá World Values Survey og umfjöllun Tainu Pieski um sýningar á sögu og menningu Sama, auk vinnustofu þar sem hugað verður að samnorrænum gildum og hvað söfn á Norðurlöndum geta lært hvert af öðru. Einnig gefst tími til að kynnast öðrum þátttakendum, skoða fleiri sýningar og njóta kvöldverðar saman í miðborg Stokkhólms.
Skráningarfrestur er til 11. apríl næstkomandi. Félagar í ICOM njóta afsláttar af þátttökugjaldi en athugið að takmarkað pláss er á ráðstefnunni. Elina Nygård, varaformaður ICOM Nord, heldur utan um skráningu og eru áhugasöm beðin um að senda tölvupóst á elina.nygard@ajtte.com með upplýsingum um nafn, heimilisfang og félagsnúmer (ef við á), auk upplýsinga um sérþarfir eða mataróþol vegna kvöldverðar (ef við á).