Alþjóðaráð safna fagnar 75 ára afmæli samtakanna

Daginn sem við Íslendingar fögnum degi íslenskrar tungu fagnar Alþjóðaráð safna, ICOM, því að 75 ár eru liðin frá stofnun samtakanna þann 16. nóvember 1946 í París.

Í tilefni afmælisins fer Alberto Garlandini, forseti ICOM, ásamt fleirum, yfir sögu og hlutverk samtakanna í þessu stutta myndbandi:

Þá var Alþjóðaráðið stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldar út frá þeirri hugsjón að hægt væri að búa til betri heim með mætti þeirrar menningar sem söfn standa vörð um.

Söfn og samfélög heimsins hafa sannlega breyst mikið síðan en grunngildi ICOM eru enn hin sömu: að stuðla að heimsfriði, velferð og heill mannkyns, auk þess að efla fræðslu og alþjóðlegt samstarf.

Óskum við því félögum öllum til hamingju með þennan merka áfanga og minnum á mikilvægi þess að standa saman og horfa fram á veginn.