Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM var haldinn í Sjóminjasafninu í Reykjavík þann 23. mars 2022. Á fundinum var sinnt venjulegum aðalfundarstörfum skv. 6. gr. laga félagsins: árskýrsla starfsársins 2021 til 2022 var lögð fram og eins endurskoðaðir ársreikningar 2021, auk þess sem starfsáætlun og helstu verkefni ársins 2022 voru kynnt.
Á fundinum fór einnig fram kjör nýrrar stjórnar en Guðný Dóra Gestsdóttir lét af störfum sem formaður og Sigurður Trausti Traustason lét sömuleiðis af störfum sem meðstjórnandi. Þá gaf Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, sem setið hefur í embætti ritara undanfarið ár, kost á sér sem formaður og bauð Hólmar Hólm, sem gegnt hefur stöðu meðstjórnanda undanfarið ár, sig fram til embættis ritara í hennar stað.
Tvö framboð bárust til embætta meðstjórnenda og voru það þær Berglind Þorsteinsdóttir og Ragnheiður Vignisdóttir sem gáfu kost á sér til stjórnar. Ekki bárust nein mótframboð um embættin fjögur og var kjör stjórnarmanna því samþykkt með lófataki fundargesta.
Tilkynnt var um úthlutun úr Útgáfu- og ferðasjóði félagsins en fimm styrkir voru veittir að þessu sinni, fjórir ferðastyrkir og einn útgáfustyrkur, en alls nema úthlutaðir styrkir í ár 430.000 kr.
Er fráfarandi stjórnarmönnum að lokum þakkað fyrir þeirra störf í þágu félagsins og hlakkar ný stjórn til komandi verkefna með safnafólki um land allt.
Árskýrslu starfsársins 2021 til 2022 má lesa með því að smella hér.
Fráfarandi stjórn, f.v.: Hólmar Hólm, meðstjórnandi, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, ritari, Guðný Dóra Gestsdóttir, formaður, Anna Friðbertsdóttir, gjaldkeri, Sigurður Trausti Traustason, meðstjórnandi.
Efri mynd, nýkjörin stjórn, f.v.: Ragnheiður Vignisdóttir, meðstjórnandi, Hólmar Hólm, ritari, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður, Anna Friðbertsdóttir, gjaldkeri. Á myndina vantar Berglindi Þorsteinsdóttur, meðstjórnanda.