Þann 19. nóvember 2021 kaus ráðgjafaráð ICOM, skipað formönnum eða tilnefndum fulltrúum stjórna landsdeilda, fagdeilda og svæðissamtaka Alþjóðaráðsins, auk tengdra samtaka, um áfangastað 27. allsherjarþings ICOM árið 2025. Kosið var á milli þriggja borga að þessu sinni: Dúbaí, Sameinuðu arabísku furstadæmunum; Kazan, Rússlandi; og Stokkhólms, Svíþjóð. Hlutskörpust í kosningunni varð borgin Dúbaí og tekur landsdeild furstadæmanna, ICOM UAE, því við keflinu af landsdeild Tékklands, ICOM Česká republika, í kjölfar 26. allsherjarþings ICOM sem haldið verður í Prag dagana 20. til 28. ágúst 2022. Þá verður yfirskrift þingsins 2025 Framtíð safna (e. The Future of Museums).
Fulltrúi stjórnar Íslandsdeildar ICOM kaus Stokkhólm sem áfangastað allsherjarþingsins 2025.