Umsögn Íslandsdeildar ICOM um fjárlagafrumvarp 2025

Vegna áætlaðrar skerðingar á framlagi úr ríkissjóði til eftirtalinna málaflokka á sviði menningar- og skapandi greina, safnamála og menningarsjóða: safnasjóðs, samninga og styrkja til starfsemi safna, myndlistarsjóðs og barnamenningarsjóðs.

Stjórn Íslandsdeildar ICOM, Alþjóðaráðs safna, vekur athygli á mikilvægi ofantalinna ríkisstyrkja og opinberra sjóða í þágu menningar og lista. Fela slíkir styrkir í sér stefnumótandi fjárfestingu og skuldbindingu ríkisvaldsins gagnvart menningarlífinu sem skilar sér jafnt í samfélagslegum og efnahagslegum ávinningi. Þá skal vísað til nýútgefinnar skýrslu menningar- og viðskiptaráðuneytisins, „Framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi“, í því skyni að andmæla niðurskurði á opinberu fjármagni til lista og menningar.

Líkt og bent hefur verið á í fjölmörgum innlendum og erlendum rannsóknum hafa menningargeirinn og hinar skapandi greinar umtalsverð áhrif á efnahagslíf og hagsæld. Samkvæmt hinni nýju skýrslu má nefna að beint framlag menningar og skapandi greina nam 3,5% af landsframleiðslu árið 2023 og var vöxtur á þessu sviði meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum á undanförnum árum. Þetta sýnir fram á að fjárfestingar í listum og menningu hafa ekki aðeins í för með sér huglægan ábata fyrir samfélagið heldur skila þær sér einnig til baka sem efnahagslegur gróði. Þá má jafnframt nefna mikilvægt hlutverk menningar í að laða ferðamenn til landsins, sem hefur aukið atvinnu í ýmsum öðrum geirum, eins og ferðaþjónustu og hótelrekstri.

Menningarframboð í hæsta gæðaflokki býr vissulega til ákjósanlega áfangastaði fyrir ferðamenn og það eykur þannig tekjur í tengslum við ferðaþjónustu, sem hefur aftur mælanleg, jákvæð og keðjuverkandi efnahagsleg áhrif. Borgir og lönd sem eru þekkt fyrir menningu og listir hafa því sterkt aðdráttarafl fyrir ferðamenn, sem leiðir til hagvaxtar og bættrar efnahagslegrar stöðu. Niðurskurður á fjármagni til lista og menningar væri því líklegur til að minnka framboð og draga úr tækifærum til sóknar á sviði menningar og lista, sem kynni, í beinu framhaldi, að leiða til þess að ýmis efnahagsleg tækifæri glatist með fækkun starfa og verkefna – sem hafa þó sýnt fram á mikið bolmagn þegar kemur að því að takast á við efnahagslegar niðursveiflur í samfélaginu og hafa getu til að styðja kröftuglega við þjóðarbúið í misjöfnu árferði.

Listir og menning gegna auk þess lykilhlutverki í að efla samfélagslega samheldni, þjóðarvitund og persónulega velferð. Ávinningurinn af stuðningi við menningarlífð nær þannig til lýðheilsu en samkvæmt skýrslunni hefur menningarleg þátttaka jákvæð áhrif á andlega heilsu, námsárangur og samfélagslega virkni. Þar skiptir stuðningur við menningarstofnanir og listafólk sköpum, þar sem styrkirnir tryggja rekstrargrundvöll þeirra og stuðla að félagslegri þátttöku. Þetta hefur í för með sér lægri samfélagskostnað á öðrum sviðum, líkt og heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfi, þar sem heilbrigðara og hamingjusamara þjóðfélag minnkar þörfina fyrir slíka þjónustu með háum tilkostnaði á seinni stigum.

Aukin fjárfesting í listum og menningu er einnig drifkraftur nýsköpunar. Þar verður til hvatinn að rannsóknum, verkefnum og hvers konar nýjungum. Samkvæmt skýrslunni eru hinar skapandi greinar enda vettvangur nýsköpunar, þar sem þær stuðla að tækniframförum og þróun á nýjum lausnum. Þetta má til dæmis sjá í auknum tengslum skapandi greina við stafræna tækni, hönnun og hugbúnaðargerð, þar sem nýjar hugmyndir verða til sem síðan nýtast öðrum atvinnugreinum.

Með því að skera niður fjárveitingar til tengdra málaflokka er raunveruleg hætta á því að stjórnvöld setji hömlur á áframhaldandi vöxt á sviði menningar og lista, sem hefur þó sýnt fram á sveigjanleika og aðlögunarhæfni við örar markaðs-, tækni- og samfélagsbreytingar. Í skýrslu menningar- og viðskiptaráðuneytis er einnig bent á að menningargeirinn laðar að sér ungt og skapandi fólk, sem sækir sterkt fram og hefur forgöngu um nýsköpun og frumlega nálgun. Að draga úr fjárframlögum til þessara flokka væri því til marks um afturför í að hlúa að næstu kynslóð skapandi frumkvöðla.

Að lokum bendir skýrslan til þess að niðurskurður á fjármagni til menningar og lista væri skammsýn ákvörðun sem myndi skaða bæði samfélagið og efnahagslífið. Efnahagslegur ávinningur, samfélagslegur styrkur og möguleiki til nýsköpunar – sem veltur á fjárfestingu í menningargeiranum – eru mun mikilvægari til lengdar en meintur sparnaður, að því gefnu að ekki sé tekið tillit til afleiddra tekna fyrir þjóðarbúið. Með traustum, óskertum stuðningi stjórnvalda má tryggja að blómlegt menningarlíf verði áfram órjúfanlegur hluti af samfélaginu á líðandi stund, auk þess að vera uppspretta efnahagslegrar og skapandi þróunar til framtíðar.