ALÞJÓÐLEGI SAFNADAGURINN

Söfn, sjálfbærni og vellíðan

Söfn hafa veigamiklu hlutverki að gegna í málefnum sem varða sjálfbæra þróun og vellíðan fólks í þeim samfélögum sem þau þjóna. Starfsemi safna byggir á trausti almennings auk þess sem þau tengja saman ólíka hópa og eru því í einstakri stöðu til þess að koma jákvæðum breytingum til leiðar. Söfn geta lagt lóð sín á vogarskálarnar og stutt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með ýmsum hætti: allt frá því að taka þátt í loftslagsaðgerðum og hlúa að fjölbreytileika til þess að beita sér gegn félagslegri einangrun og bæta andlega heilsu.

Í samþykkt ICOM frá árinu 2019 varðandi sjálfbærni og samkomulag Sameinuðu þjóðanna, Að breyta heiminum: Áætlun um sjálfbæra þróun 2030 (e. Transforming Our World: the 2030 Agenda for Sustainable Development), segir: öllum söfnum ber skylda til þess að leiða og leggja grunn að sjálfbærri hugsun til framtíðar, jafnt með fræðslu, sýningahaldi, samfélagsverkefnum og rannsóknastarfi.

Á hverju ári síðan 2020 hefur Alþjóðlegi safnadagurinn varpað ljósi á valin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en í ár er lögð áhersla á eftirfarandi markmið:

  • 3. Heilsa og vellíðan: Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir fólk á öllum aldri, með tilliti til andlegrar heilsu og hættunnar sem felst í félagslegri einangrun.
  • 13. Aðgerðir í loftslagsmálum: Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra, draga markvisst úr kolefnislosun á norðurhveli jarðar og minnka mengun á suðurhvelinu.
  • 15. Líf á landi: Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu vistkerfa á landi, sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og gefa röddum frumbyggjaþjóða meira vægi í umræðunni.

Þann 18. maí næstkomandi hvetjum við því öll til að taka þátt í Alþjóðlega safnadeginum og leggjast á eitt með söfnunum um að stuðla að sjálfbærri þróun og auka vellíðan!