Íslensku safnaverðlaunin 2022 – óskað er eftir ábendingum

Íslensku safnaverðlaunin eru viðurkenning sem veitt er annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Það eru FÍSOS (Félag íslenskra safna og safnmanna) og Íslandsdeild ICOM sem standa að verðlaununum.

Óskað er eftir ábendingum frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Söfnum er jafnframt heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum. Til greina koma sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi, svo sem rannsóknir og varðveisla.

Úr innsendum ábendingum tilnefnir valnefnd þrjú söfn eða verkefni sem verða tilkynnt 2. maí 2022. Stóra stundin verður svo á Alþjóðlega safnadaginn, 18. maí 2022, þegar ljóst verður hvaða safn hlýtur viðurkenninguna.

Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 15. mars 2022.

Sendist á netfangið:
safnaverdlaun2022@gmail.com