Bréf til menningarráðuneytis

Stjórn Íslandsdeildar ICOM gerir kunnt að föstudaginn 21. mars síðastliðinn sendu Félag íslenskra safna og safnafólks, FÍSOS, og Íslandsdeild ICOM í sameiningu eftirfarandi bréf til Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins. Það var gert í kjölfar frétta af tillögu starfshóps um hagræðingu í ríkisrekstri um sameiningu Gljúfrasteins, Listasafns Einars Jónssonar, Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands.

Stjórnir FÍSOS og Íslandsdeildar ICOM setja spurningarmerki við tillögu starfshópsins og óska eftir útlistun á því hvernig vinnuferlinu verði háttað innan menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins þegar tillögur starfshópsins verða teknar til skoðunar.

Stjórnir félaganna fara þess einnig á leit við ráðuneytið að samráðshópi, með fulltrúum ráðherra/ráðuneytis, fulltrúum höfuðsafna og þeirra fagfélaga sem koma að starfi safna, verði komið á fót. Þannig verði tryggt að fulltrúar safnafólks fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, þ.e.a.s ef umræddar tillögur verða teknar til umfjöllunar eða lagðar fram til frekari útfærslu.

Hægt er að lesa bréfið í heild hér og munu stjórnir félaganna fylgjast náið með framvindu málsins