ALÞJÓÐLEGI SAFNADAGURINN

Mikill er máttur safna

Söfn hafa mátt og getu til þess að breyta heiminum. Sem einstakir staðir til uppgötvana fræða þau okkur jafnt um fortíðina og opna hug okkar gagnvart nýjum hugmyndum – sem hvort tveggja gerir okkur fært að leggja grunn að betri framtíð.

Á Alþjóðlega safnadaginn 2022, þann 18. maí næstkomandi, viljum við horfa á söfn og möguleika þeirra til að koma á umbótum í samfélaginu á þrenns konar hátt:

  • Mátturinn til að uppfylla kröfur um sjálfbærni: Söfn eru lykilþátttakendur í að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sem áhrifavaldar í sínum nærsamfélögum leggja þau mikið af mörkum á þessu sviði, þar á meðal með því að efla stuttar boðleiðir í félagshagkerfinu og miðla vísindalegum upplýsingum um umhverfisvandann og loftslagsvána.
  • Mátturinn til að stuðla að nýsköpun varðandi stafræna miðlun og aðgengi: Söfn eru orðin að vettvangi nýsköpunar þar sem ný tækni er þróuð og innleidd í hversdagslífið. Stafræn þróun og nýsköpun getur aukið aðgengi í söfnum til muna og stuðlað að skilningi á flóknum og erfiðum hugtökum.
  • Mátturinn til að styðja við samfélagið með öflugri fræðslu: Með safnkosti sínum  og opinni dagskrá spinna söfnin félagslegan vef sem nauðsynlegur er hverju samfélagi. Með því að halda á lofti lýðræðislegum gildum og bjóða upp á símenntunarmöguleika fyrir öll leggja söfn sitt af mörkum til að móta upplýst og þátttökuvænt samfélag.

Við bjóðum ykkur að taka þátt í Alþjóðlega safnadeginum með okkur þetta árið og hjálpa okkur að leysa úr læðingi þann mikla mátt sem býr í söfnum um víða veröld!