LÖG ÍSLANDSDEILDAR ICOM
1. Nafn og aðsetur
Nafn félagsins er Íslandsdeild ICOM. Skráð utanáskrift þess er Pósthólf 1513, 121 Reykjavík.
2. Markmið
Markmið Íslandsdeildar ICOM er að efla samvinnu, gagnkvæma aðstoð og upplýsingamiðlun meðal félaga deildarinnar og einkum:
- að vinna að markmiðum ICOM, kynna þau meðal safna og sérmenntaðra starfsmanna þeirra á Íslandi og vinna að framgangi áætlana ICOM jafnt innanlands sem utan,
- að efla aðild að ICOM meðal safna og sérmenntaðra starfsmanna þeirra á Íslandi, að vera helsti tengiliður milli ICOM og félaga þess á Íslandi,
- að gæta hagsmuna ICOM á Íslandi,
- að koma fram fyrir hönd félaga deildarinnar gagnvart yfirstjórn og aðalskrifstofu ICOM og gæta hagsmuna þeirra, þ.m.t. faglegra, á þeim vettvangi,
- að starfa í samvinnu við alþjóðadeildir ICOM og innlend jafnt sem erlend samtök sem starfa að safnamálum.
3. Aðild
Félagar í Íslandsdeild ICOM skulu vera allir þeir einstaklingar, búsettir á Íslandi, sem veitt hefur verið innganga í ICOM með fullgilda eða stuðningsaðild, svo og stofnanir á Íslandi sem veitt hefur verið innganga sem slíkum, ásamt öllum félögum ICOM sem búsettir eru í öðrum löndum og hafa stofnað til sambands við Íslandsdeild ICOM skv. starfsreglum ICOM, gr. 6.2.
Heiðursfélagar ICOM sem búsettir eru á Íslandi skulu hafa rétt til þátttöku í starfi Íslandsdeildar ICOM, en hafa hvorki kosningarétt né kjörgengi.
Einstaklingur eða stofnun, sem óskar eftir inngöngu í ICOM, skal fylla út rafræna umsókn sem stjórn Íslandsdeildarinnar tekur í framhaldinu til umfjöllunar og afgreiðslu.
Sérhver einstaklingur eða stofnun sem fullnægir skilyrðum um inngöngu og stundar ekki kaup eða sölu á listmunum eða öðrum menningarverðmætum í hagnaðarskyni skal eiga rétt á aðild að Íslandsdeild ICOM, sbr. lög ICOM gr. 4, l. 2 og 3.
Stjórn Íslandsdeildarinnar skal fjalla um allar inntökubeiðnir svo skjótt sem unnt er. Er stjórnin hefur samþykkt beiðnina skal hún tilkynna umsækjanda ákvörðun sína og er honum upp frá því skylt að greiða árgjald eins og það er ákvarðað hverju sinni af framkvæmdastjórn ICOM fyrir þá tegund aðildar sem við á. Jafnskjótt og Íslandsdeild ICOM hefur móttekið greiðslu árgjalds öðlast hinn nýi félagi þau réttindi sem fylgja aðild að deildinni.
Aðild að ICOM og Íslandsdeildinni skal aðeins ljúka í samræmi við lög ICOM, gr. 4, l. 4.
4. Árgjald
Félögum í Íslandsdeild ICOM er skylt að greiða árgjald til ICOM en upphæð þess er ákvörðuð af framkvæmdastjórn ICOM fyrir þá tegund aðildar sem viðkomandi félagi nýtur.
Íslandsdeild ICOM er heimilt að leggja allt að 10% ofan á árgjöld ICOM eins og framkvæmdastjórn hefur ákvarðað þau, til að standa straum af eigin kostnaði, nema framkvæmdastjórn hafi sérstaklega heimilað innheimtu hærri hundraðshluta.
Er Íslandsdeild ICOM hefur móttekið greiðslu árgjalds frá nýjum félaga skal hún veita aðalskrifstofu ICOM allar viðkomandi upplýsingar um hann og greiða ICOM upphæð mótsvarandi árgjaldi eins og það hefur verið ákvarðað af framkvæmdastjórn, sbr. lög ICOM, gr. 5, l. 1.
Þegar Íslandsdeild ICOM hefur fengið í hendur félagsskírteini, þar sem á er þrykkt nafn og númer hins nýja félaga, skal límmiði, sem sýnir að árgjald hefur verið greitt, festur á skírteinið og það síðan sent hinum nýja félaga.
Á hverju ári, er Íslandsdeild ICOM hefur fengið í hendur þá upphæð, sem félaga var tilkynnt að honum bæri að greiða, skal honum afhentur límmiði sem sýnir að árgjaldið hefur verið greitt. Íslandsdeildin skal síðan senda aðalskrifstofu ICOM þá upphæð sem framkvæmdastjórn ICOM hefur ákvarðað, sbr. lög ICOM, gr. 5, l. 3.
Íslandsdeild ICOM skal tilkynna aðalskrifstofu ICOM nöfn þeirra félaga sem ekki hafa greitt árgjald á eindaga. Heimilt er að neita þeim um þjónustu félagsins og þeir skulu ekki hafa rétt til þátttöku í starfsemi deildarinnar. Þeir skulu ekki hafa kjörgengi til stjórnar eða taka þátt í starfi hennar, né heldur taka þátt í neinum atkvæðagreiðslum innan deildarinnar þar til árgjaldið hefur verið greitt. Hafi árgjald ekki verið greitt er það féll í gjalddaga skal aðild viðkomandi félaga að ICOM lokið, sbr. lög ICOM, gr. 4, l. 4 (iv).
5. Fjármál
- Íslandsdeild ICOM er heimilt að afla þess fjár er hún telur nauðsynlegt til starfsemi sinnar, enda sé farið að löglegum og viðeigandi leiðum, þ.m.t. með þátttökugjaldi á fundum og sölu rita og annars varnings.
- Íslandsdeild ICOM hefur rétt til þess að halda eftir og nota í eigin þágu hvert það fé, sem hún fær frá félögum sínum umfram árgjöld, í samræmi við gr. 4 í lögum þessum.
- Íslandsdeild ICOM er heimilt að veita viðtöku styrkjum eða gjafafé, svo og tryggingum styrktaraðila fyrir greiðslu kostnaðar við starfsemi deildarinnar.
- Allt það fé sem Íslandsdeild ICOM tekur á móti skal lagt inn á sérstakan bankareikning, sem stofnaður er í nafni deildarinnar, einnig skulu allar greiðslur sem deildin innir af hendi fara um þennan reikning.
- Sjóðir Íslandsdeildar ICOM eru óskyldir öllum sjóðum í eigu ICOM sem alþjóðasamtaka og skulu varðveittir aðskildir frá þeim. Hinir síðarnefndu skulu varðveittir á sérstökum bankareikningi.
- Íslandsdeild ICOM er skylt að færa nákvæmt bókhald um allar tekjur og gjöld. Reikningana skal endurskoða árlega og leggja fyrir aðalfund deildarinnar. Reikningsskil skulu miðuð við almanaksár.
6. Fundir Íslandsdeildar ICOM
- Íslandsdeild ICOM skal halda fundi eftir því sem þurfa þykir.
- Árlega skal halda aðalfund deildarinnar. Boða skal alla félaga til aðalfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara, þ.m.t. félaga skv. gr. 6.2 í starfsreglum ICOM.
- Félaga sem ekki getur sótt aðalfund er heimilt að veita öðrum félaga deildarinnar skriflegt umboð sitt og skal umboðshafi hafa öll réttindi umbjóðanda síns á fundinum, þ.m.t. til atkvæðagreiðslu fyrir hans hönd.
- Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum Íslandsdeildar ICOM. Á aðalfundi skulu m.a. eftirfarandi liðir vera á dagskrá:
- lögð fram ársskýrsla, þar sem m.a. er fjallað um tengsl við aðrar starfseiningar ICOM, UNESCO-nefndina á Íslandi og önnur landssamtök sem fjalla um málefni safna og safnmanna;
- lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar;
- kjör til stjórnar eftir því sem við á;
- endurskoðun og samþykkt starfsáætlunar deildarinnar fyrir næsta starfsár.
- Aðalfundur er löglegur, sé löglega til hans boðað. Í atkvæðagreiðslum og kosningum ræður einfaldur meirihluti, þó að undanteknum atkvæðagreiðslum um lagabreytingar í samræmi við grein 8.4 í lögum þessum.
- Á fundum Íslandsdeildar ICOM skal sérhver félagi hafa eitt atkvæði, sbr. lög ICOM, gr. 7, en er einnig heimilt að fara með umboð annarra félaga í kosningum og atkvæðagreiðslum. Stofnun sem á aðild að deildinni sem slík, getur skriflega tilnefnt einstakling til að fara með eitt atkvæði fyrir hönd stofnunarinnar.
7. Stjórnun Íslandsdeildar ICOM
- Umsjón með störfum deildarinnar skal vera í höndum kjörinnar stjórnar. Stjórn deildarinnar skal skipuð formanni, ritara og gjaldkera ásamt tveimur meðstjórnendum. Jafnframt skulu kjörnir tveir endurskoðendur. Stjórnarmaður skal kjörinn til þriggja ára en er óheimilt að sitja lengur en tvö þriggja ára kjörtímabil í röð, nema hann sé að því loknu kjörinn formaður, gjaldkeri eða ritari og hafi ekki gegnt því starfi á næstliðnum kjörtímabilum. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur en tólf ár samfellt í stjórn.
- Allir fullgildir félagar Íslandsdeildar ICOM, þ.m.t. tilnefndir fulltrúar stofnana sem eiga aðild að deildinni sem slíkar, skulu vera kjörgengir til stjórnar, þó með þeim takmörkunum sem settar eru skv. starfsreglum ICOM, gr. 6.4.
- Hætti stjórnarmaður störfum milli aðalfunda skal stjórn tilnefna annan af meðstjórnendum í hans stað fram að næsta aðalfundi en þá skal kosinn nýr fulltrúi í stjórn í stað þess er lét af störfum. Stjórnarmaður sem kjörinn er á þann hátt skal ekki sitja lengur en til loka kjörtímabils þess sem lét af störfum, en slík stjórnarseta skal ekki talin til takmarkana skv. starfsreglum ICOM, gr. 6.4.
- Stjórnarmaður í Íslandsdeild ICOM skal láta af störfum:
- segi hann af sér,
- teljist hann ekki lengur félagi í ICOM af hvaða ástæðu sem vera skal,
- teljist hann ekki lengur fullgildur félagi í ICOM skv. lögum ICOM, gr. 4.
- Stjórn deildarinnar skal koma saman eftir þörfum, þó ekki sjaldnar en tvisvar á ári.
- Geti stjórnarmaður ekki sótt stjórnarfund skal honum heimilt að tilnefna annan af meðstjórnendum í sinn stað.
8. Lagabreytingar
- Lögum þessum má aðeins breyta á löglega boðuðum aðalfundi Íslandsdeildar ICOM.
- Öllum fullgildum félögum, svo og stjórn deildarinnar, skal heimilt að gera tillögur til lagabreytinga. Texti tillagnanna ásamt nauðsynlegustu skýringum skal kynntur öllum félögum deildarinnar í síðasta lagi tveimur vikum fyrir þann aðalfund sem fjalla á um tillögurnar.
- Aðalfundi er heimilt að gera minniháttar breytingar á breytingartillögum. Fundarstjóri ákveður hvort slíkar tillögur séu minniháttar.
- Breytingar á lögum skulu aðeins ná fram að ganga séu þær samþykktar af þremur fjórðu greiddra atkvæða fundarmanna og þá aðeins ef minnst þriðjungur af félögum deildarinnar taka þátt í fundinum, í eigin persónu eða með umboði.
9. Félagsslit
- Íslandsdeild ICOM skal lögð niður ef framkvæmdastjórn ICOM afturkallar viðurkenningu sína á deildinni skv. starfsreglum ICOM, gr. 6.5.
- Verði deildin lögð niður, skulu eignir hennar, ef einhverjar eru, renna til íslenskra landssamtaka á einhverju því sviði safnamála, sem framkvæmdastjórn ICOM viðurkennir. Séu engin slík samtök starfandi eða hafni þau að veita eignum deildarinnar viðtöku, skal málinu vísað til framkvæmdastjórnar ICOM, sem ráðstafar eignunum í samráði við menntamálaráðuneyti Íslands.
Samþykkt á aðalfundi Íslandsdeildar ICOM 11. nóvember 1991. Fyrst breytt á aðalfundi 8. desember 1993. Síðast breytt á aðalfundi 17. apríl 2024.
Lög ICOM má finna hér og þá eru starfsreglur ICOM aðgengilegar hér.