ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN

Vekjum athygli á því sem vel er gert

Íslensku safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár og er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á íslenskum söfnum. Þeim er jafnframt ætlað að efla faglegan metnað og vera hvatning til að kynna menningu þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Að Safnaverðlaununum standa Íslandsdeild ICOM og FÍSOS (Félag íslenskra safna og safnafólks).

Verðlaunin eru veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og vera til eftirbreytni. Ekki er gerður greinarmunur á tegundum safna og koma því öll söfn á landinu til greina – minja- og byggðasöfn, listasöfn, náttúrugripasöfn og önnur sérsöfn.

Safnverðlaunin voru fyrst veitt árið 2000. Valnefnd skipuð fulltrúum félaganna og fulltrúa frá safninu sem síðast hlaut verðlaunin velur úr innsendum hugmyndum en óskað er eftir tillögum frá almenningi jafnt sem fagmönnum. Viðurkenningin sem felst í verðlaununum er bæði heiður og hvatning fyrir þau söfn sem hljóta tilnefningu ekki síður en það safn sem hlýtur verðlaunin.

TILNEFNINGAR TIL ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNANNA 2024

Tilkynnt hefur verið hvaða söfn eru tilnefnd til Íslensku safnaverðlaunanna 2024. Íslensku safnaverðlaunin eru viðurkenning sem fellur í skaut íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi á sínu sviði. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár en fyrsta afhending þeirra fór fram árið 2000. Þá verða verðlaunin afhent í fjórtánda sinn á Alþjóðlega safnadaginn, þann 18. maí næstkomandi, við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Viðburðurinn er opinn öllum. Það eru Íslandsdeild ICOM, Alþjóðaráðs safna, og Félag íslenskra safna og safnafólks (FÍSOS) sem standa að verðlaununum í sameiningu. Meðfylgjandi er rökstuðningur valnefndar Íslensku safnaverðlaunanna 2024.

Gerðarsafn: Tenging milli innra og ytra safnastarfs

Gerðarsafn hefur unnið metnaðarfullt starf sem skapar sterk tengsl milli innra og ytra safnastarfs með fjölbreyttum hætti. Leitast er eftir því að endurspegla stöðu safnsins sem eina listasafn landsins stofnað til heiðurs listakonu, Gerði Helgadóttur (1928-1975), myndhöggvara. Sköpunarkraftur og tilraunasemi Gerðar er leiðarstef í sýningargerð, viðburðum og fræðslustarfi. Gerðarsafn leggur upp úr því að vera leiðandi safn og vettvangur samtímalistar á Íslandi. Sýningardagskrá endurspeglar strauma og stefnur samtímans samhliða verkum úr safneign.

Með öndvegisstyrk úr safnasjóði árið 2021 hefur Gerðarsafni verið gert kleift að ráðast í öflugt rannsóknarstarf á verkum Gerðar Helgadóttur. Rannsóknirnar hafa leitt af sér ný sjónarhorn á listrænan feril hennar og veitt nánari innsýn í líf hennar og starf. Samhliða rannsóknunum hefur verið unnið að uppfærslu á skráningum í Sarpi sem mun auka aðgengi almennings að safneign sem og að tryggja fagleg vinnubrögð. Áherslur rannsókna árið 2023 voru að kortleggja bréfasamskipti Gerðar við ættingja og vini. Grunngögnin voru þannig skrásett, rannsökuð og gerð aðgengileg fyrir rannsakendur. Unnið var að undirbúningi bókar og sýningar sem lokaútkomu rannsóknarverkefnisins. Þannig leitast Gerðarsafn við að gera rannsóknir á verkum og lífi Gerðar aðgengilegar fræðasamfélaginu og almenningi með sýningum, bókaútgáfu og skráningu í Sarp og fléttir þannig vel saman grundvallarþáttum safnastarfs með prýðilegum hætti.

GERÐUR grunnsýning opnaði í byrjun janúar 2023 á neðri hæð Gerðarsafns. Sýningin stendur sem breytileg grunnsýning en kjarni sýningarinnar eru járnverk Gerðar sem standa í rakastýrðu sérrými. Um er að ræða nýtt rými sem er samtímis sýningarsvæði og framlenging á varðveislurými safnsins. Með opnun sýningarinnar og þessu nýja varðveislurými var stigið mikilvægt skref í aðbúnaði listaverka í safneign og tengingu milli varðveislu og miðlunar.

Sýningin er þar að auki í nánu samtali við fræðslurými safnsins Stúdíó Gerðar, þar sem gestum gefst færi á að fræðast um og skapa myndlist. Þá endurspegla áherslur á fræðslustarf safnsins að vissu leyti rannsóknar- og sýningarstarfið. Auk þess hefur safnið verið í samstarfi við erlend og innlend söfn þar sem sjónum er beint að samtali myndlistar og umhverfismála. Þannig setur Gerðarsafn upp fjölþátta samtal íslenskrar listasögu við strauma og stefnur samtímans.

Áherslur á tengingu innra og ytra starfs Gerðarsafns eru til fyrirmyndar þar sem byggt er á safneign, lífi og starfi Gerðar Helgadóttur. Safninu tekst vel til með að flétta saman varðveislu, listsögulegum rannsóknum og sýningarstarfi sem endurspeglar strauma og stefnur samtímans.

Listasafn Íslands: Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi

Verkefnið Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi miðar að því að auka aðgengi barna og ungmenna að menningarfi þjóðarinnar sem finna má í söfnum landsins. Sjónarafl er byggt á þróunarverkefni sem fræðsludeild Listasafns Íslands hefur unnið að undanfarin ár og byggir á alþjóðlegum rannsóknum í myndlæsi. Kennsla í myndlæsi eykur þekkingu yngri safngesta á myndlist, eflir gagnrýna hugsun, rökhugsun og hugtakaskilning ásamt því að þjálfa nemendur í virkri hlustun og skoðanaskiptum.

Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi var þróað og unnið í samstarfi við Barnaskóla Hjallastefnunnar árin 2021-2022. Verkefnið miðar með markvissum hætti að því að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu nemenda á menningarsögu og myndlist. Að þróunarverkefni loknu varð til mikilvægt efni sem gefið var út í rafrænu formi sem og í prentaðri útgáfu. Með því er jafnframt stuðlað að aukinni þátttöku kennara og nemenda óháð búsetu. Þannig er komið til móts við skóla á landsbyggðinni sem hafa ekki sama svigrúm til safnaheimsókna og skólar á höfuðborgarsvæðinu.

Sérstaða og styrkur fræðsluefnisins er að auðvelt er að laga það að mismunandi aldri nemenda, allt frá leikskólum upp á háskólastig. Aðferðin hefur einnig nýst almennum safngestum til dýpkunar skilnings á safnkostinum. Sömuleiðis er vel hægt að yfirfæra aðferðina á safnkost annarra safna á Íslandi.

Með verkefninu uppfyllir Listasafn Íslands óskir um vandað efni sem kennir myndlæsi og byggir á verkum íslenskra myndlistarmanna. Menntunarhlutverk safnsins sem eitt af höfuðsöfnum landsins er veigamikið. Þá styður verkefnið við mynd- og menningarlæsi í skólakerfinu með beinni tengingu við aðalnámskrá grunnskóla, Barnasáttmálann og mennta- og menningarstefnu stjórnvalda.  Efnið er nú þegar komið í notkun í mörgum skólum og hefur kennsluefnið einnig verið tekið í notkun á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem nemendur nýta sér Sjónarafl í námi sínu. Listasafn Íslands er einnig að þróa fjarkennslu í myndlæsi og er sú vinna hafin í samstarfi við Grunnskóla Snæfellsbæjar og Menntaskólann á Egilsstöðum. Verkefnið hefur mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna enda eitt meginmarkmið þess að efla myndlæsi meðal almennings og dýpka þekkingu og áhuga á myndlist.

Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi er einstaklega vel unnið, faglegt og metnaðarfullt fræðsluverkefni þar sem myndlist og menning er kennd á framsækinn og áhugaverðan hátt.  Verkefnið er skýrt og hnitmiðað og tenging skóla og safnastarfs er framúrskarandi en hentar einnig fullorðnum og almennum safngestum. Styrkur verkefnisins er sá að auðvelt er að aðlaga það mismunandi aldri, óháð búsetu. Einnig er auðvelt að yfirfæra aðferðina á safnkost annarra safna sem stuðlar að auknu samstarfi. Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi setur metnaðarfull og fagleg viðmið í fræðslustarfi. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Listasafn Reykjavíkur: Framsækið miðlunastarf

Grunnstef í miðlun Listasafns Reykjavíkur er að allir geti tengst myndlist í fortíð og samtíma á eigin forsendum. Gestir safnsins á öllum aldri, af ólíku þjóðerni og mismunandi áhuga eða getu eru hvattir til að skoða og uppgötva og ekki síst til þátttöku í miðlunarstarfi safnsins. Safnið leitast við að sníða sýningar og aðra miðlun með það að markmiði að skapa borgarbúum og öðrum gestum innihaldsríkar og ánægjulegar myndlistarstundir.

Aðgengi og inngilding er leiðarljós í fjölbreyttum miðlunarleiðum Listasafns Reykjavíkur í mörgum verkefnum, svo sem verkefninu Myndlistin okkarþar sem almenningur var hvattur til að velja verk á sýningu í gegnum stafræna miðla. Þannig gaf safnið gestum tækifæri til beinnar þátttöku í sýningargerðinni og stuðlaði um leið að vitundarvakningu um söfn og list. Gerðir voru 18 sjónvarpsþættir í tengslum við verkefnið þar sem þess var freistað að ná til breiðari hóps samfélagsins. Myndlistin þeirravoru svo smærri sýningar sem settar voru upp innan sýningarinnar Myndlistin okkar. Þar bauð safnið samstarfsaðilum sínum og fastagestum gegnum árin að velja eftir eigin höfði verk úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Settar voru upp fjórar sýningar sem stóðu í tvær til þrjár vikur í senn.

Verkefnið Listin talar tungum er sérsniðin leiðsögn fyrir fólk af erlendum uppruna, þar sem boðið er upp á leiðsagnir á þýsku, litháísku, spænsku, pólsku, arabísku, úkraínsku, rússnesku og kóresku til dæmis. Tökum höndum samaneru sérsniðnar stundir með tilliti til mismunandi þarfa gesta, til dæmis fyrir döff gesti, blinda og sjónskerta, fólk með heilabilun, fólk með skynúrvinnsluvanda o.s.frv. Útilist í Reykjavíker app þangað sem sækja má upplýsingar um öll útilistaverk í Reykjavík. Einnig heldur safnið málþing og ráðstefnur um safnamál og list, svo semGeymt dót sem tekur pláss þar sem sjónum er beint að safneign og innra starfi. Safnið heldur einnig fjölmörg námskeið fyrir fullorðna og börn. Flökkusýningareru sérhannaðar fræðslusýningar sem flakka á milli skóla. Abrakadabraer fræðsluvefur fyrir unglinga.Leikum að list erfjölskyldudagskrá og er þá ekki allt upptalið.

Miðlunarstarf stendur og fellur með starfsfólkinu.Þjónustuhandbók Listasafns Reykjavíkursetur fram metnaðarfull markmið við móttöku gestaoger til fyrirmyndar í að hvetja starfsfólk á einfaldan og skýran hátt um mikilvægi viðhorfs og framkomu gagnvart gestum. Handbókin veitir öllu starfsfólki fræðslu og lykla að því hvernig veita skuli framúrskarandi þjónustu.

Í miðlunarstarfi sínu sýnir Listasafn Reykjavíkur mikinn metnað og nýsköpun til að ná til ólíkra markhópa safnsins á framúrskarandi hátt.

Sauðfjársetur á Ströndum: Samfélagsleg nálgun í safnastarfi

Sauðfjársetur á Ströndum er mikilvæg og öflug menningarstofnun sem hefur haft gríðarmikið gildi fyrir samfélagið á Ströndum frá því það var sett á fót árið 2002. Sauðfjársetrið hefur staðið fyrir nýsköpun og uppbyggingu á sviði menningar og lista og aukið menningarlega fjölbreytni nærsamfélagsins. Safnastarf á Sauðfjársetrinu hefur á skömmum tíma vakið athygli fyrir öflugt rannsóknarstarf sem og frumlega og fræðandi viðburði eins og sviðaveislu og Íslandsmeistaramót í hrútadómum.

Starf safnsins tengir á áhugaverðan hátt náttúru og sögu samfélagsins. Náttúrubarnaskólinn á Ströndum hefur verið starfræktur síðan 2015. Hann byggir á hugmyndafræði um náttúrutúlkun og menntatengda ferðaþjónustu. Í skólanum er boðið upp á margvísleg dags- eða helgarnámskeið fyrir börn, þar sem miðlað er fróðleik um náttúru og umhverfi, í listasmiðjum og með útivist og skemmtun. Í tengslum við skólann hefur þróast Náttúrubarnahátíð sem byggir á útivist, náttúrutúlkun og þjóðfræði.

Sauðfjársetrið hefur sinnt faglegu safnastarfi af krafti og safnað á skipulegan hátt munum, myndum og minningum Strandamanna og miðlað þeim með margvíslegum hætti, til dæmis með hlaðvarpsþáttunum Sveitasíminn.

Rannsóknarstarf Sauðfjársetursins hefur verið til fyrirmyndar. Það hefur allt frá stofnun staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum og útgáfustarfsemi á sögu og menningu íbúa svæðisins í samstarfi við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

Þótt Sauðfjársetrið sé lítið safn á mælikvarða menningarstofnana er gildi þess fyrir samfélagið á Ströndum, mannlíf og menningu, langt umfram umfang starfsemi þess. Með starfi sínu hefur starfsfólk Sauðfjárseturs eflt menningarvitund og áhuga á sögu og menningu svæðisins langt út fyrir nærsamfélagið.

Þjóðminjasafn Íslands: Með verkum handanna

Sýningin Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda var sett upp í tilefni útgáfu samnefndrar bókar eftir Elsu E. Guðjónsson, fyrrverandi deildarstjóra textíl- og búningadeildar Þjóðminjasafns Íslands, en var auk þess aðalviðburður afmælisdagskrár safnsins á 160 ára afmæli þess árið 2023.

Á sýningunni Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda er heildarsafn íslenskra refilsaumsverka saman komið en alls hafa fimmtán verk, hin skrautlegu tjöld, varðveist og teljast á meðal glæsilegustu listaverka þjóðarinnar. Öll verkin eru kirkjuklæði og innihalda refilsaum, ensk-norræna útsaumsgerð sem varðveittist á Íslandi. Um er að ræða tíu myndskreytt altarisklæði, stakan altarisvæng með refilsaumuðum borða, hökul með refilsaumuðum róðukrossi, andlitsmynd af Þorláki Skúlasyni biskup, altarisbrún með refilsaumaðri áletrun og myndskreyttan refil eða veggklæði. Tólf klæðanna eru frá síðmiðöldum og þau elstu frá því seint á 14. öld. Þrjú hin yngri eru frá sautjándu öld og talið er víst að það yngsta sé frá árinu 1677. Einnig er talið að miðaldaverkin hafi flest verið saumuð við nunnuklaustrin tvö að Kirkjubæ og Reynisstað eða við biskupsstólanna tvo og líklegt er að margar hendur hafi komið að gerð hvers klæðis en öll eru verkin vitnisburður um stórfenglegt listhandverk kvenna á miðöldum.

Sýningin byggir á níu verkum í eigu Þjóðminjasafns Íslands en sex eru í eigu þriggja erlendra safna: Louvre-safnsins í París, Þjóðminjasafns Dana og Rijksmuseum Twenthe í Hollandi. Hafa flest verkanna áður verið lánuð á sýningar Þjóðminjasafnsins en er þetta í fyrsta skipti sem þau fást og sjást samtímis á sýningu hjá safninu. Telst þetta til stórviðburðar og hefur Þjóðminjasafn Íslands gengist undir strangar kröfur eigendanna varðandi forvörslu, umhverfi og aðstæður sýningarinnar, sem er glæsilega hönnuð.

Ítarleg dagskrá viðburða var sett saman í tengslum við sýninguna sem hafa verið afar vel sóttir og vakið verðskuldaða athygli almennings. Haldin hafa verið tvö málþing með átta fyrirlesurum, auk fjölda sérfræðileiðsagna, hádegisfyrirlestrar með stökum sérfræðifyrirlestrum, barnaleiðsagnir og handverksnámskeið. Þar að auki var samin sérstök fræðsludagskrá, miðuð að nemendum á miðstigi grunnskóla, þar sem fjallað er um handverk miðalda með áherslu á mynd- og ritlist.

Sýningin Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda fylgir útgáfu samnefndrar bókar sem byggir á niðurstöðum áratugalangra rannsókna Elsu E. Guðjónsson sem lést árið 2010. Rannsóknir Elsu eru einstakar í sinni röð og einkennast skrifin af alúð og nákvæmni er kemur að tækni og ferli, ásamt sögulegu og listrænu samhengi hvers klæðis. Um er að ræða stórbrotið verk sem Lilja Árnadóttir, fyrrverandi samstarfskona Elsu og sviðsstjóri á Þjóðminjasafni Íslands, lauk við og bjó til prentunar og ritstýrði ásamt Merði Árnasyni. Hlaut bókin Fjöruverðlaunin 2024 í flokki fræðirita, tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023 og tilnefningu til Viðurkenningar Hagþenkis 2024. Með verkum handanna: Íslenskur refilsaumur fyrri alda – sýning, dagskrá og útgáfa – er einstakur viðburður í íslensku safnastarfi.