Tilkynningar

27.5.2021

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Útgáfu- og ferðasjóði Íslandsdeildar ICOM.

Íslandsdeild ICOM auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Útgáfu- og ferðasjóði fyrir tímabilið júní 2021 til apríl 2022. Í þessari úthlutun verða veittir allt að fjórir styrkir sem geta numið allt að 70.000 krónum hver. 

Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til að sækja alþjóðlega fundi og ráðstefnur á vegum ICOM auk þess að styrkja útgáfur á efni sem tengist faglegu starfi safna. 

Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára. Í umsókn skal tilgreind ástæða ferðarinnar, hvert ferðinni er heitið, kostnaðaráætlun og annar hugsanlegur fjárstuðningur.

Í þeim tilfellum sem sótt er um útgáfustyrk skal tilgreina efni útgáfunnar, efnisyfirlit, útgáfuaðila, upplag og áætlun um dreifingu. Styrkur er greiddur út eftir að styrkþegi hefur skilað til stjórnar staðfestingu vegna tilgreindrar ferðar eða útgáfu.

Umsóknir skal senda í tölvupósti til stjórnar á netfangið icom@icom.is fyrir 1. september 2021.
Nánari upplýsingar um úthlutunarreglur sjóðsins má finna hér.

27.4.2021

Alþjóðlegi safnadagurinn 2021

Facebook vefsíða Alþjóðlega safnadagsins

Framtíð safna – Uppbygging og nýjar áherslur.

Í tilefni hins árlega alþjóðlega safnadags velur ICOM þema sem tengist málefnum
sem eru ofarlega á baugi hverju sinni og fólki hugleikin.
Þema alþjóðlega safnadagsins 2021 er; Framtíð safna: Uppbygging og nýjar
áherslur. Söfnum, fagfólki, starfsfólki safna og almenningi er boðið að nota þemað
eða leiðarstefið sem ICOM hefur valið í ár til að móta nýjar stefnur og þróa
hugmyndir sem geta nýst menningarstofnunum við þeim ýmsum áskorunum sem
blasa við í jafnréttis-, efnahags- og umhverfismálum um þessar mundir. Markmiðið
er að samfélagið allt njóti góðs af.

Árið 2020 var óvenjulegt og reyndist mörgum erfitt. Heimsfaraldur af völdum
COVID-19 hafði áhrif á flesta þætti lífs okkar. Sum vandamál sem ekki hefur tekist
að leysa versnuðu þegar heimsfaraldurinn skall á og urðu til þess að
efasemdaraddir um hvernig samfélög okkar eru uppbyggð tóku að heyrast víða og
kröfur um jafnrétti fyrir allar manneskjur urðu háværari en áður.

Söfn fóru ekki varhluta af ástandinu sem skapaðist í heimsfaraldrinum því loka
þurfti fjölmörgum þeirra, tímabundið. Ástandið hafði slæm fjárhagsleg,
samfélagsleg og sálræn áhrif á allan menningargeirann og ekki sér enn fyrir endann
á því. En það hafa einnig verið jákvæð teikn á lofti því að þessi erfiða staða varð
til þess að ýmsar nýjungar voru kynntar til sögunnar sem líklega eru komnar til að
vera. Nægir að nefna aukna áherslu á stafræna miðlun og nýstárlegar hugmyndir
um menningarupplifun og miðlun þeirra.

Við sem samfélag stöndum á mikilvægum tímamótum. Í þessu árferði hafa skapast
tækifæri fyrir söfn til að skoða betur aðferðir sínar við að ná athygli samfélagsins

sem þau þjóna. Söfn eru því hvött til að skoða þá fjölbreyttu rafrænu möguleika
sem í boði eru til að miðla, fræða og skemmta. Þannig geta söfn lagt lóð á
vogarskálar réttlátrar og sjálfbærrar framtíðar. Við þurfum að fanga tækifærið og
vera í forsvari fyrir nýsköpun í menningarstarfi sem gerir heiminn að betri stað,
núna og eftir að heimsfaraldurinn heyrir sögunni til.

Við óskum ykkur gleði og velgengni á alþjóðlega safnadeginum 2021!

23. júní 2020

Landsdeildir norrænu landanna í Icom hafa um margra ára skeið átt gott óformlegt samstarf og hist jafnan einu sinni á ári. Nú er það svo að landsdeildirnar óskuðu eftir því við ICOM að fá að stofna formlegt samband innan vébanda þess. Það hefur nú verið samþykkt og ICOM Nord hefur verið stofnað.  Í stjórn situr einn aðili frá hverri landsdeild. Fyrstu stjórn skipa: Soren La Cour Jensen frá Danmörku sem formaður, aðrir eru Eero ehanti frá Finnlandi, Elina Nygard Svíþjóð, Håkon Roland Noregi og frá íslandi er það Helga Lára Þorsteinsdóttir.

Markmið og stefna sem rædd var um á fyrsta fundinum:

 

  1. Markmið með ICOM Nord er að styrkja samstarf milli norðurlandanna og formgera það enn frekar en áður
  2. Vera sterkir talsmenn Blue Shield á vettvangi ICOM
  3. Ræða sérstaklega málefni tengd flutningi menningarminja til sinna upprunalanda/staða (repatriation)
    4. Þýða mikilvæg og hjálpleg skjöl og gögn milli Norðurlandanna.
  4. Vera sterkir talsmenn nýrrar siðanefndar, ICOM Ethics
  5. Sækja um styrki fyrir norrænu samstarfi innan ICOM hjá norrænum sjóðum.
  6. Setja upp Facebook síðu og heimasíðu (sem tengist ICOM).

Helga Lára situr sem fulltrúi Íslandsdeildar ICOM þar til valið verður í nefndina á aðalfundi ICOM á Íslandi í haust.

19. maí 2020

Þjóðminjasafn Íslands hlaut íslensku safnaverðlaunin 2020

Forseti Íslands afhenti á Alþjóðlega safnadaginn 18. maí íslensku safnaverðlaunin. Þjóðminjasafn Íslands hlaut verðlaunin fyrir varðveislu og rannsóknarmiðstöð sína ásamt handbók um varðveislu safnskosts.

Viðburðurinn fór fram í Safnahúsinu og viðstödd voru borgarstjóri Dagur B. Eggertsson, mennta- menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir ásamt fulltrúum stjórna ICOM og FÍSOS og fulltrúum tilnefndra safna. Íslandsdeild ICOM óskar Þjóðminjasafninu og öllum tilnefndum söfnum innilega til hamingju og þakkar Félagi íslenskra safna og safnmanna kærlega fyrir samstarfið.

Hin tilnefndu söfnin voru Borgarsögusafn, Listasafn Reykjavíkur, Náttúruminjasafn íslands og sameiginlega Minjasafns Austurlands, Tækniminjasafn Austurlands, Sjóminjasafn Austurlands og Gunnarsstofnun.

4. maí 2020

TILNEFNINGAR TIL ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNANNA 2020

Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Verðlaunin voru fyrst afhent fyrir tuttugu árum. Í ár bárust óvenjumargar ábendingar um áhugaverð verkefni enda safnastarf með eindæmum blómlegt. Það er skemmst frá því að segja að valnefndinni bárust 47 tilnefningar til 34 verkefna þar sem a.m.k. 21 safn kom við sögu ásamt fleiri stofnunum og samstarfsaðilum. Þannig að það voru margir um hituna.

Forseti Íslands,  Guðni Th. Jóhannesson,  afhendir safnaverðlaunin 2020 við hátíðlega athöfn þann 18. maí næstkomandi í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Athöfninni verður streymt á samfélagsmiðlum í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu.

TILNEFNINGAR DÓMNEFNDAR Í STAFRÓFSRÖÐ:

Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi

Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði og Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði ásamt Gunnarsstofnun, menningar- og fræðasetri á Skriðuklaustri í Fljótsdal.

Mat valnefndar er að samstarf austfirsku safnanna í verkefninu Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi, sé fordæmisgefandi um hvernig söfn af hvaða stærðargráðu sem er geta gert sig gildandi í samfélagsumræðunni og verið leiðandi í samstarfi við fleiri stofnanir. Sýningin tók á knýjandi málefnum samtímans, tengdi safnkost við samfélagið þá, nú og í náinni framtíð með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

 

Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár – ný grunnsýning Sjóminjasafns Bogarsögusafns Reykjavíkur og aðkoma tveggja hollvinasamtaka, Óðins og Magna.

Mat valnefndar er að sýningin Fiskur og fólk í Sjóminjasafni Borgarsögusafns Reykjavíkur höfði til fjölbreytts hóps gesta, jafnt þeirra sem vel þekkja til og þeirra sem lítið þekkja til sjósóknar. Sýningin miðlar sögunni á fræðandi, lifandi, gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Aðferðafræðin við gerð sýningarinnar og hið umfangsmikla tengslanet sem virkjað var, er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

 

2019 – ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur

Mat valnefndar er að 2019 – Ár listar i almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur hafi verið fjölbreytt og það vakti athygli á listinni í daglegu umhverfi utan veggja safnsins. Verkefnið náði til áþreifanlegra sem og óáþreifanlegra verka. Miðlunin var bæði hefðbundin og nýstárleg þar sem samfélagsmiðlar voru nýttir og tækninýjungar virkjaðar. Verkefnið er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

 

Vatnið í náttúru Íslands – ný grunnsýning Náttúruminjasafns Íslands

Mat valnefndar er að sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands höfði til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað tilþeirra á forvitnilegan, faglegan og gagnvirkan hátt. Það er mikilvægt að höfuðsafn á sviði náttúruminja sé sýnilegt almenningi. Grunnsýningin er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

 

Varðveislu- og rannsóknamiðstöðvar Þjóðminjasafns Íslands ásamt Handbók um varðveislu safnkosts

 Mat valnefndar er að varðveislu- og rannsóknarsetur Þjóðminjasafns Íslands í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnkosts sé mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

4. maí 2020

ICOM heldur uppá alþjóðlega safnadaginn  þann 18. maí 2020 nk. í samstarfi við  Félag íslenskra safna og safnmanna,  FÍSOS. Markmið alþjóðlega safnadagsins er að kynna og efla safnastarf í heiminum.

Í ljósi heimsfaraldursins Covid19 eru söfn hvött til að færa viðburði yfir í hinn stafræna heim og vekja þannig athygli á starfi safna samfélaginu til góðs. Félögin hvetja alla til að virða reglur Almannavarna um að það séu ekki fleiri en 50 manns í hverju rými og virða viðmið um 2 metra fjarlægð milli fólks.

Á hverju ári velur ICOM þema fyrir Alþjóðlega safnadaginn 18. maí og í ár yfirskrift dagsins:

“Söfn eru jöfn: Fjölbreytni og þátttaka allra 2020”

Söfn um heim allan munu fagna Alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí 2020 og dagana í kring með því að nota stafrænar lausnir vegna Covid19. Þátttaka í Alþjóðlega safnadeginum fer vaxandi meðal safna um heim allan. Árið 2019 tóku yfir 37.000 söfn þátt í atburðinum í 158 löndum.

Ýtum undir fjölbreytni og þátttöku allra í menningarstofnunum samfélagsins

Höfuðatriði samfélagslegs gildis safna er möguleikinn á því að bjóða fólki af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn að upplifa einstaka hluti. Söfn eru í senn virtar stofnanir og breytingaafl og nú er rétti tíminn til  að þau sýni fram á mikilvægi sitt með því að taka þátt í pólitískum, samfélagslegum og menningarlegum veruleika nútíma samfélags með uppbyggilegum hætti.

Þær áskoranir sem þátttaka fjölbreytts hóps hefur í för með sér og þeir erfiðleikar sem fylgja því að fjalla um flókin samfélagsleg málefni í umhverfi þar sem klofningur eykst stöðugt eru ekki bundin við söfn og menningarstofnanir eingöngu en skipta þessar stofnanir þó miklu máli þar sem þær eru í hávegum hafðar í samfélaginu.

Sívaxandi væntingar um samfélagslegar breytingar hafa drifið áfram umræðuna um möguleika safna á að vera jákvætt samfélagsafl með því að halda sýningar, ráðstefnur, gjörninga og standa fyrir fræðsludagskrám og framtaksverkefnum. Hins vegar er mikið óunnið í þá átt að sigrast á meðvituðum og ómeðvituðum breytum sem geta skapað ójöfnuð innan safna, og á milli safna og gesta þeirra.

Slíkur ójöfnuður getur tekið til margra atriða; til dæmis þjóðernis, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, félagslegs bakgrunns, menntunarstigs, líkamlegrar getu, stjórnmálaskoðana og trúarbragða.

Undir yfirskriftinni „Söfn eru jöfn: Fjölbreytni og þátttaka allra“, leitast Alþjóðlegi safnadagurinn 2020 við að verða sameinandi afl sem í senn fagnar þeim ólíku sjónarmiðum sem finna má í samfélögum og starfsliði safna, og leitast við að koma auga á og sigrast á hvers konar slagsíðu í því sem sýnt er og þeim sögum sem þar eru sagðar.

Sýnileiki á samfélagsmiðlum á tímum Covid19

Í tilefni af safnadeginum árið 2020 eru söfn hvött til að vera virk á samfélagsmiðlum þar sem þau deila efni um söfnin og starf þeirra. Þátttakendur eru hvattir til að merka myndir og færslur með myllumerkjunum #safnadagurinn, #söfnfyrirjafnrétti, #MuseumDay,  #IMD2020,  #Museums4Equality á Instagram, Twitter og Facebook. Þá er hægt er að deila stafrænum viðburðum á Facebook síðum FÍSOS og safnadagsins.

Söfn um allan heim

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí af International Council of Museums (ICOM). Þátttakendur eru um 37.000 söfn í 158 löndum. Söfn um allan heim skipuleggja dagskrá þann dag, helgina eða jafnvel vikuna alla sem 18. maí ber upp á og hefur það verið gert öll árin síðan 1977.

5. mars 2020

Alþjóðlegi safnadagurinn 2020:

“Söfn eru jöfn: Fjölbreytni og þátttaka allra 2020”

Ýtum undir fjölbreytni og þátttöku allra í menningarstofnunum samfélagsins

 Höfuðatriði samfélagslegs gildis safna er möguleikinn á því að bjóða fólki af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunn að upplifa einstaka hluti. Söfn eru í senn virtar stofnanir og breytingaafl og nú er rétti tíminn til  að þau sýni fram á mikilvægi sitt með því að taka þátt í pólitískum, samfélagslegum og menningarlegum veruleika nútíma samfélags með uppbyggilegum hæti.

Þær áskoranir sem þátttaka fjölbreytts hóps hefur í för með sér og þeir erfiðleikar sem fylgja því að fjalla um flókin samfélagsleg málefni í umhverfi þar sem klofningur eykst stöðugt eru ekki bundin við söfn og menningarstofnanir eingöngu en skipta þessar stofnanir þó miklu máli þar sem þær eru í hávegum hafðar í samfélaginu.

Sívaxandi væntingar um samfélagslegar breytingar hafa drifið áfram umræðuna um möguleika safna á að vera jákvætt samfélagsafl með því að halda sýningar, ráðstefnur, gjörninga og standa fyrir fræðsludagskrám og framtaksverkefnum. Hins vegar er mikið óunnið í þá átt að sigrast á meðvituðum og ómeðvituðum breytum sem geta skapað ójöfnuð innan safna, og á milli safna og gesta þeirra.

Slíkur ójöfnuður getur tekið til margra atriða; til dæmis þjóðernis, kyns, kynhneigðar og kynvitundar, félagslegs bakgrunns, menntunarstigs, líkamlegrar getu, stjórnmálaskoðana og trúarbragða.

Undir yfirskriftinni „Söfn eru jöfn: Fjölbreytni og þátttaka allra“, leitast Alþjóðlegi safnadagurinn 2020 við að verða sameinandi afl sem í senn fagnar þeim ólíku sjónarmiðum sem finna má í samfélögum og starfsliði safna, og leitast við að koma auga á og sigrast á hvers konar slagsíðu í því sem sýnt er og þeim sögum sem þar eru sagðar.

28. febrúar 2020

Fundur 4. mars 2020 um hina nýju safnaskilgreiningu ICOM

ICOM, FÍSOS og safnaráð boða til almenns fundar miðvikudaginn 4. mars kl. 9.30, í Sjóminjasafninu í Reykjavík, þar sem til umfjöllunar verður hin nýja safnaskilgreining ICOM.

Hin nýja safnaskilgreining var kynnt á aðalfundi Alþjóðráðs safna sem haldinn var í Kyoto í september 2019. Niðurstaða fundarins var að fresta kosningu um skilgreininguna og kalla eftir frekari ábendingum frá félagsmönnum um innhald skilgreiningarinnar.

Jette Sandahl, formaður nefndar um hina nýja safnaskilgreiningu, hefur þegið boð Íslandsdeildar ICOM, FÍSOS og safnaráðs að flytja erindi á fundinum og skýra út þá vinnu sem þegar hefur átt sér stað og hvert er markmið núverandi vinnuhóps um efnið.

Það er mikill fengur fyrir félagsmenn ICOM og FÍSOS að fá Jette til landsins og ræða um hvort og hvaða áhrif hin nýja skilgreining hefur á safnastarf á Íslandi. Einnig að koma með ábendingar og tillögur að úrbótum.

Undirbúningsnefnd fundarins hvetur alla félagsmenn og þá sem hafa áhuga á starfi safna á Íslandi til að fjölmenna á fundinn.

Fundardagskrá
kl. 9.30 – Guðný Dóra Gestsdóttir, formaður Íslandsdeildar ICOM býður fundargesti velkomna.
kl. 9.35 – Fundarstjóri – Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur.
kl. 9.40 – Erindi – Jette Sandahl, formaður nefndar um hina nýju safnaskilgreiningu
kl. 10.10 – Pallborðsumræður – hver fulltrúi í pallborði leggur fram sína sýn á hina nýju safnaskilgreiningu.

Í pallborði eru:
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, doktorsnemi í safnafræði
Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri
Margrét Hallgrímsson, þjóðminjavörður
Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor, safnafræði H.Í.

kl. 11.00 – Kaffi
kl. 11.15 – Umræður
kl. 12.00 – Fundi slitið

Fundurinn verður tekin upp. Fundurinn mun fara fram á ensku.
Nýju skilgreininguna má finna hér: https://icom.museum/en/news/icom-announces-the-alternative-museum-definition-that-will-be-subject-to-a-vote/

27. febrúar 2020

Íslensku safnaverðlaunin 2020 óskað eftir ábendingum.

10. febrúar 2020

Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí 2020

 

Eldri tilkynningar