Fréttir

FRÉTTIR 2018

5. júní 2018

Íslensku safnaverðlaunin 2018

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti Listasafni Árnesinga Íslensku safnaverðlaunin 2018 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, þriðjudaginn 5. júní kl.16. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Lesa meira hér.

 

9. mars 2018

Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí 2018

Á ári hverju velur ICOM Alþjóðlega safnadeginum yfirskrift er tengist málefnum sem eru í brennipunkti í samfélaginu.

Ofurtengslamyndun (e. hyperconnectivity) er hugtak sem smíðað var árið 2001 yfir þær fjölmörgu samskiptaleiðir sem við búum yfir í dag, svo sem samskipti í eigin persónu, tölvupóst, netspjall, síma og net. Þetta alheimssamskiptanet verður flóknara, fjölbreyttara og samtengdara með hverjum deginum sem líður. Söfn hafa fylgt þessari þróun í hinum ofurtengda veruleika nútímans. Því valdi Alþjóðasafnaráðið (ICOM) Alþjóðasafnadeginum 2018 yfirskriftina „Ofurtengd söfn: Ný nálgun, nýir gestir”.

Ómögulegt er að átta sig á hlutverki safna nema líta til allra þeirra tengsla sem þau mynda. Þau eru órjúfanlegur hluti nærsamfélagsins, menningarlandslagsins og hins náttúrulega umhverfis. Svo er tækninni fyrir að þakka að söfn geta nú náð langt út fyrir sinn nærtækasta markhóp og fundið nýja gesti með því að nálgast safneign sína á annan hátt; hvort sem er með því að koma safneigninni á stafrænt form, bæta margmiðlunarþáttum við sýningar eða með einföldum aðferðum á borð við myllumerki sem gerir gestum kleift að deila upplifun sinni á samfélagsmiðlum.

Þó er tæknin ekki rót allra þessara nýju tengsla. Söfn leggja hart að sér við að viðhalda mikilvægi sínu í samfélaginu og því hefur athyglin beinst í sífellt ríkari mæli að nærsamfélaginu og þeim fjölbreyttu hópum sem það samanstendur af. Afleiðingin er sú að á síðustu árum höfum við séð ótal samvinnuverkefni verða til undir handleiðslu safna með þátttöku minnihlutahópa, frumbyggja og stofnana í nærsamfélaginu. Svo hrífa megi þessa nýju hópa og styrkja tengslin við þá verða söfn að finna nýjar leiðir til að túlka og kynna safneign sína.

 

22. feb. 2018

ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN 2018 – ÓSKAÐ ER EFTIR ÁBENDINGUM

ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN eru viðurkenning, veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. ÓSKAÐ ER EFTIR ÁBENDINGUM frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Söfnum er jafnframt heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum. Til greina koma sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi svo sem rannsóknir og varðveisla. Valnefnd tilnefnir þrjú söfn eða verkefni sem tilkynnt verða á Alþjóðlega safnadeginum á Íslandi, 18. maí og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna. Safnaverðlaunin verða veitt í ellefta sinn 5. júní 2018 á Bessastöðum.
Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 16. apríl 2018

Sendist:
Safnaverdlaun@icom.is

eða

Safnaverðlaunin 2018 – Íslandsdeild
ICOM – pósthólf 1513 – 121 Reykjavík

Íslandsdeild alþjóðaráðs safna – ICOM og FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmanna standa saman að verðlaununum.

Byggðasafn Skagfirðinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2016

Í greinagerð valnefndar segir að starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga sé fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir. Í safninu er ríkulegur safnkostur sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og um þessar mundir beita starfsmenn aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnstörf. Byggðasafnið leggur áherslu á að rækta samstarf við stofnanir og fyrirtæki heima og heiman. Sú samvinna og samþætting skipar safninu í flokk með fremstu safna á Íslandi í dag.

18. feb. 2018

Auglýst eftir umsóknum úr útgáfu-og ferðasjóði Íslandsdeildar ICOM

Íslandsdeild ICOM auglýsir eftir umsóknum um styrki úr útgáfu- og ferðasjóði fyrir árið 2018. Í ár verða veittir allt að fjórir styrkir sem nema 60.000 kr. hver. Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til að sækja alþjóðlega fundi og ráðstefnur á vegum ICOM auk þess sem styðja má útgáfur á efni sem tengist faglegu starfi safna. Umsóknir vegna þátttöku í allsherjarþingi ICOM í Kyoto 2019 skulu að öðru jöfnu hafa forgang. Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára. Hægt er að sækja um vegna ráðstefna sem haldnar eru 2018-2019. Umsóknir skal senda í tölvupósti til stjórnar á netfangið stjorn@icom.is fyrir 10. apríl 2018.
Úthlutunarreglur stjórnar fyrir árið 2018:

Útgáfu- og ferðasjóður Íslandsdeildar ICOM
• Styrkþegi skal hafa verið skuldlaus félagi í Íslandsdeild ICOM í a.m.k. tvö ár.
• Umsækjandi sem ekki hefur hlotið styrk úr sjóðnum áður skal að öðru jöfnu sitja fyrir um styrk.
• Umsóknir vegna þátttöku í allsherjarþingi ICOM í Kyoto 2019 skulu að öðru jöfnu hafa forgang.
• Umsóknarfrestur er til 10. apríl 2018. Umsóknir skal senda með tölvupósti til stjórnar Íslandsdeildar ICOM, stjorn@icom.is
• Í umsókn skal tilgreind ástæða ferðarinnar, hvert ferðinni er heitið, kostnaðaráætlun og annar hugsanlegur fjárstuðningur.
• Styrkur er greiddur út eftir að styrkþegi hefur skilað til stjórnar staðfestingu á þátttöku.
• Að lokinni ferð skal styrkþegi skila til stjórnar stuttri skýrslu um notkun styrksins og þá ráðstefnu sem var sótt. Skal skýrslan birt á heimasíðu Íslandsdeildar ICOM.

 

18. feb. 2018

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM fer fram fimmtudaginn 5. apríl kl. 16. í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem kjósa skal í embætti formanns og einn varamann. Félagsmenn eru hvattir til að bjóða sig fram. Framboð þurfa ekki að berast fyrir fundinn en stjórn þætti gott að vita af þeim sem hyggja á framboð.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt 6. grein laga Íslandsdeildar ICOM.

  • Ársskýrsla 2017 kynnt
  • Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram og kynntir
  • Kjör til stjórnar
  • Starfsáætlun 2018 kynnt
  • Önnur mál

Inline images 3

Eldri fréttir