Fréttir

FRÉTTIR 2018

22. feb. 2018

ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN 2018 – ÓSKAÐ ER EFTIR ÁBENDINGUM

ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN eru viðurkenning, veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. ÓSKAÐ ER EFTIR ÁBENDINGUM frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Söfnum er jafnframt heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum. Til greina koma sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi svo sem rannsóknir og varðveisla. Valnefnd tilnefnir þrjú söfn eða verkefni sem tilkynnt verða á Alþjóðlega safnadeginum á Íslandi, 18. maí og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna. Safnaverðlaunin verða veitt í ellefta sinn 5. júní 2018 á Bessastöðum.
Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 16. apríl 2018

Sendist:
Safnaverdlaun@icom.is

eða

Safnaverðlaunin 2018 – Íslandsdeild
ICOM – pósthólf 1513 – 121 Reykjavík

Íslandsdeild alþjóðaráðs safna – ICOM og FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmanna standa saman að verðlaununum.

Byggðasafn Skagfirðinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2016

Í greinagerð valnefndar segir að starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga sé fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir. Í safninu er ríkulegur safnkostur sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og um þessar mundir beita starfsmenn aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnstörf. Byggðasafnið leggur áherslu á að rækta samstarf við stofnanir og fyrirtæki heima og heiman. Sú samvinna og samþætting skipar safninu í flokk með fremstu safna á Íslandi í dag.

 

18. feb. 2018

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM fer fram fimmtudaginn 5. apríl kl. 16. í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem kjósa skal í embætti formanns og einn varamann. Félagsmenn eru hvattir til að bjóða sig fram. Framboð þurfa ekki að berast fyrir fundinn en stjórn þætti gott að vita af þeim sem hyggja á framboð.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt 6. grein laga Íslandsdeildar ICOM.

  • Ársskýrsla 2017 kynnt
  • Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram og kynntir
  • Kjör til stjórnar
  • Starfsáætlun 2018 kynnt
  • Önnur mál

Inline images 3

Eldri fréttir