Eldri tilkynningar

Fréttir 2019

15. apríl 2019

Söfn sem menningarmiðstöðvar: Framtíð hefðarinnar

Alþjóðlegi safnadagurinn laugardagurinn 18. maí 2019 – Ertu með?

Á hverju ári velur ICOM þema fyrir Alþjóðlega safnadaginn 18. maí og í ár er yfirskrift dagsins „Söfn sem menningarmiðstöðvar: Framtíð hefðarinnar“.

Söfn um heim allan munu fagna Alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí 2019 og dagana í kring. Þátttaka í Alþjóðlega safnadeginum fer vaxandi meðal safna um heim allan. Árið 2018 tóku yfir 40.000 söfn þátt í atburðinum í 158 löndum.

Íslandsdeild ICOM og FÍSOS hvetja söfn á Íslandi til að taka þátt í alþjóðlega safnadeginum út frá þemanu „Söfn sem menningarmiðstöðvar: Framtíð hefðarinnar.“ Félögin tvö munu i tilefni af deginum kynna safnastarf á Íslandi með öflugum hætti. Kynningin nýtist öllum söfnum enda verður vakin athygli á söfnum almennt með eftirfarandi hætti:

Lesum – Gefið verður út blað sem fylgir Fréttablaðinu,
Horfum – Þriðja myndbandið í seríunni „Komdu á safn“ verður frumsýnt.
Hlustum – Samlesnar auglýsingar
Notum myllumerkin! Samfélagsmiðlar #Safnadagurinn #MuseumDay

Facebook síða FÍSOS https://www.facebook.com/groups/1392315794163867/

Facebook síða safnadagsins https://www.facebook.com/safnadagurinn/

Söfn eru hvött til að nýta sér samfélagsmiðla og kynna starfsemi sína þar. Hægt er að deila viðburðum á facebook síðum FÍSOS og safnadagsins.

Félögin gera ekki kröfu til þess að gefin verði frír aðgangur þennan dag en hvetur félaga til að hafa opið hjá sér í ljósi þess að verið er að minna á daginn í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Félögin hvetja einnig félagsmenn að ef þeir efna til sérstaks viðburðar á deginum að útbúa viðburð og deila þeim á fésbókarsíðu Alþjóðasafnadagsins. Ekki er gerð krafa um að dagskráin tengist yfirskrift dagsins með beinum hætti.

Hlutverk safna í samfélaginu er að breytast. Söfn eru í stöðugri endurnýjun í viðleitni sinni til að verða gagnvirkari, áhorfendamiðaðri, samfélagslegri, sveigjanlegri, aðlögunarhæfari og hreyfanlegri stofnanir. Þau hafa breyst í menningarmiðstöðvar sem skapa umhverfi þar sem sköpunargleði er sameinuð þekkingu og þar sem gestir geta einnig skapað með öðrum, deilt og átt samskipti.

Um leið og söfnin hafa varðveitt meginhlutverk sitt, við að safna, varðveita, miðla, rannsaka og sýna, hafa þau gerbreytt starfsvenjum sínum til að vera áfram nær þeim samfélögum sem þau þjóna. Í dag leita þau eftir nýstárlegum leiðum til að takast á við félagsleg vandamál og átök samtímans. Með því að starfa á staðnum geta söfn einnig barist fyrir og dregið úr alþjóðlegum vandamálum og lagt sig fram um að mæta áskorunum nútímasamfélagsins að fyrra bragði. Sem stofnanir eru söfn í hjarta samfélagsins og geta þannig komið á samtali á milli menningarheima, byggt brýr fyrir heimsfrið og skilgreint sjálfbæra framtíð. Söfn aðlagast hlutverki sínu sem menningarmiðstöðvar í auknum mæli og hafa einnig fundið nýjar leiðir til að heiðra safnmuni sína, söguna og arfleifð, og þannig skapað hefðir sem munu hafa nýja merkingu fyrir seinni kynslóðir og mikilvægi fyrir æ margbreytilegri samtímaviðtakendur á heimsvísu. Þessi umskipti, sem munu hafa djúpstæð áhrif á safnafræði og starfsvenjur, neyða okkur einnig til að endurskoða hvaða gildi söfn hafa og endurskoða þau siðfræðilegu mörk sem skilgreina sjálft eðli starfs okkar sem safnasérfræðinga.

27. mars 2019

Aðalfundur ICOM verður haldinn 10. apríl 2019 kl. 16:00-17:00 í Þjóðminjasafninu.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf skv. 6. gr. samþykktar Íslandsdeildar ICOM
– Lögð fram ársskýrsla 2018.
– Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
– Starfsáætlun 2019 kynnt.
– Kjör til stjórnar/ gjaldkera
– Úthlutanir úr ferða og útgáfusjóði.
– Önnur mál

21. janúar 2019

Ágætu félagar í ICOM.
Auglýst eftir umsóknum úr útgáfu-og ferðasjóði Íslandsdeildar ICOM og opnað fyrir skráningar á alþjóðaráðstefnu ICOM í Kyoto 2019
Íslandsdeild ICOM auglýsir eftir umsóknum um styrki úr útgáfu- og ferðasjóði fyrir árið 2019. Í ár verða veittir allt að fjórir styrkir sem nema 60.000 kr. hver. Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til að sækja alþjóðlega fundi og ráðstefnur á vegum ICOM auk þess sem styðja má útgáfur á efni sem tengist faglegu starfi safna. Umsóknir vegna þátttöku í allsherjarþingi ICOM í Kyoto 2019 skulu að öðru jöfnu hafa forgang. Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára. Hægt er að sækja um vegna ráðstefna sem haldnar eru 2019-2020. Umsóknir skal senda í tölvupósti til stjórnar á netfangið stjorn@icom.is fyrir 1. apríl 2019.
Úthlutunarreglur stjórnar fyrir árið 2018:Útgáfu- og ferðasjóður Íslandsdeildar ICOM
• Styrkþegi skal hafa verið skuldlaus félagi í Íslandsdeild ICOM í a.m.k. tvö ár.
• Umsækjandi sem ekki hefur hlotið styrk úr sjóðnum áður skal að öðru jöfnu sitja fyrir um styrk.
• Umsóknir vegna þátttöku í allsherjarþingi ICOM í Kyoto 2019 skulu að öðru jöfnu hafa forgang.
• Umsóknarfrestur er til 1. apríl 2019. Umsóknir skal senda með tölvupósti til stjórnar Íslandsdeildar ICOM, stjorn@icom.is
• Í umsókn skal tilgreind ástæða ferðarinnar, hvert ferðinni er heitið, kostnaðaráætlun og annar hugsanlegur fjárstuðningur.
• Styrkur er greiddur út eftir að styrkþegi hefur skilað til stjórnar staðfestingu á þátttöku.
• Að lokinni ferð skal styrkþegi skila til stjórnar stuttri skýrslu um notkun styrksins og þá ráðstefnu sem var sótt. Skal skýrslan birt á vefsíðu Íslandsdeildar ICOM.
Alþjóðaráðstefna ICOM í Kyoto 2019.
Opnað hefur verið fyrir skráningar á alþjóðaráðstefnu ICOM í Kyoto. Allar upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vefsíðu hennar hér: http://icom-kyoto-2019.org
Upplýsingar um skráningu er að finna hér: http://icom-kyoto-2019.org/reg-guideline.html
 

FRÉTTIR 2018

5. júní 2018

Íslensku safnaverðlaunin 2018

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti Listasafni Árnesinga Íslensku safnaverðlaunin 2018 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, þriðjudaginn 5. júní kl.16. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Lesa meira hér.

9. mars 2018

Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí 2018

Á ári hverju velur ICOM Alþjóðlega safnadeginum yfirskrift er tengist málefnum sem eru í brennipunkti í samfélaginu.

Ofurtengslamyndun (e. hyperconnectivity) er hugtak sem smíðað var árið 2001 yfir þær fjölmörgu samskiptaleiðir sem við búum yfir í dag, svo sem samskipti í eigin persónu, tölvupóst, netspjall, síma og net. Þetta alheimssamskiptanet verður flóknara, fjölbreyttara og samtengdara með hverjum deginum sem líður. Söfn hafa fylgt þessari þróun í hinum ofurtengda veruleika nútímans. Því valdi Alþjóðasafnaráðið (ICOM) Alþjóðasafnadeginum 2018 yfirskriftina „Ofurtengd söfn: Ný nálgun, nýir gestir”.

Ómögulegt er að átta sig á hlutverki safna nema líta til allra þeirra tengsla sem þau mynda. Þau eru órjúfanlegur hluti nærsamfélagsins, menningarlandslagsins og hins náttúrulega umhverfis. Svo er tækninni fyrir að þakka að söfn geta nú náð langt út fyrir sinn nærtækasta markhóp og fundið nýja gesti með því að nálgast safneign sína á annan hátt; hvort sem er með því að koma safneigninni á stafrænt form, bæta margmiðlunarþáttum við sýningar eða með einföldum aðferðum á borð við myllumerki sem gerir gestum kleift að deila upplifun sinni á samfélagsmiðlum.

Þó er tæknin ekki rót allra þessara nýju tengsla. Söfn leggja hart að sér við að viðhalda mikilvægi sínu í samfélaginu og því hefur athyglin beinst í sífellt ríkari mæli að nærsamfélaginu og þeim fjölbreyttu hópum sem það samanstendur af. Afleiðingin er sú að á síðustu árum höfum við séð ótal samvinnuverkefni verða til undir handleiðslu safna með þátttöku minnihlutahópa, frumbyggja og stofnana í nærsamfélaginu. Svo hrífa megi þessa nýju hópa og styrkja tengslin við þá verða söfn að finna nýjar leiðir til að túlka og kynna safneign sína.

22. feb. 2018

ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN 2018 – ÓSKAÐ ER EFTIR ÁBENDINGUM

ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN eru viðurkenning, veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. ÓSKAÐ ER EFTIR ÁBENDINGUM frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Söfnum er jafnframt heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum. Til greina koma sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi svo sem rannsóknir og varðveisla. Valnefnd tilnefnir þrjú söfn eða verkefni sem tilkynnt verða á Alþjóðlega safnadeginum á Íslandi, 18. maí og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna. Safnaverðlaunin verða veitt í ellefta sinn 5. júní 2018 á Bessastöðum.
Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 16. apríl 2018

Sendist:
Safnaverdlaun@icom.is

eða

Safnaverðlaunin 2018 – Íslandsdeild
ICOM – pósthólf 1513 – 121 Reykjavík

Íslandsdeild alþjóðaráðs safna – ICOM og FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmanna standa saman að verðlaununum.

Byggðasafn Skagfirðinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2016

Í greinagerð valnefndar segir að starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga sé fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir. Í safninu er ríkulegur safnkostur sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og um þessar mundir beita starfsmenn aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnstörf. Byggðasafnið leggur áherslu á að rækta samstarf við stofnanir og fyrirtæki heima og heiman. Sú samvinna og samþætting skipar safninu í flokk með fremstu safna á Íslandi í dag.

18. feb. 2018

Auglýst eftir umsóknum úr útgáfu-og ferðasjóði Íslandsdeildar ICOM

Íslandsdeild ICOM auglýsir eftir umsóknum um styrki úr útgáfu- og ferðasjóði fyrir árið 2018. Í ár verða veittir allt að fjórir styrkir sem nema 60.000 kr. hver. Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til að sækja alþjóðlega fundi og ráðstefnur á vegum ICOM auk þess sem styðja má útgáfur á efni sem tengist faglegu starfi safna. Umsóknir vegna þátttöku í allsherjarþingi ICOM í Kyoto 2019 skulu að öðru jöfnu hafa forgang. Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára. Hægt er að sækja um vegna ráðstefna sem haldnar eru 2018-2019. Umsóknir skal senda í tölvupósti til stjórnar á netfangið stjorn@icom.is fyrir 10. apríl 2018.
Úthlutunarreglur stjórnar fyrir árið 2018:

Útgáfu- og ferðasjóður Íslandsdeildar ICOM
• Styrkþegi skal hafa verið skuldlaus félagi í Íslandsdeild ICOM í a.m.k. tvö ár.
• Umsækjandi sem ekki hefur hlotið styrk úr sjóðnum áður skal að öðru jöfnu sitja fyrir um styrk.
• Umsóknir vegna þátttöku í allsherjarþingi ICOM í Kyoto 2019 skulu að öðru jöfnu hafa forgang.
• Umsóknarfrestur er til 10. apríl 2018. Umsóknir skal senda með tölvupósti til stjórnar Íslandsdeildar ICOM, stjorn@icom.is
• Í umsókn skal tilgreind ástæða ferðarinnar, hvert ferðinni er heitið, kostnaðaráætlun og annar hugsanlegur fjárstuðningur.
• Styrkur er greiddur út eftir að styrkþegi hefur skilað til stjórnar staðfestingu á þátttöku.
• Að lokinni ferð skal styrkþegi skila til stjórnar stuttri skýrslu um notkun styrksins og þá ráðstefnu sem var sótt. Skal skýrslan birt á heimasíðu Íslandsdeildar ICOM.

18. feb. 2018

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM fer fram fimmtudaginn 5. apríl kl. 16. í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem kjósa skal í embætti formanns og einn varamann. Félagsmenn eru hvattir til að bjóða sig fram. Framboð þurfa ekki að berast fyrir fundinn en stjórn þætti gott að vita af þeim sem hyggja á framboð.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt 6. grein laga Íslandsdeildar ICOM.

 • Ársskýrsla 2017 kynnt
 • Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram og kynntir
 • Kjör til stjórnar
 • Starfsáætlun 2018 kynnt
 • Önnur mál

FRÉTTIR 2017

21.-23. sept 2017

Ráðstefna: Difficult Issues
ICOM Nord og ICOM Germany standa fyrir ráðstefnu sem fer fram í Helsingborg í Svíþjóð dagana 21.-23. september 2017 undir heitinu Difficult Issues. Ráðstefnan er sú fyrsta sem haldin er í samvinnu deildanna tveggja en Íslandsdeild ICOM er virkur aðili að ICOM Nord og fundar árlega meðal landsdeilda Norðurlandanna.

Difficult Issues: bæklingur

Difficult Issues: dagskrá

Samantekt: What have we learned

17. maí 2017

Hádegisumræður í tilefni Alþjóðlega safnadagsins á Íslandi
Miðvikudaginn 17.maí kl. 12-13
Fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins

Miðvikudaginn 17. maí kl. 12 mun Íslandsdeild ICOM standa fyrir hádegisviðburði í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í tilefni af alþjóðlega safnadeginum. Yfirskrift dagsins í ár er „Söfn og umdeildar sögur: að segja það sem ekki má í söfnum“, en markmiðið með málþinginu er að skapa vettvang fyrir fagfólk í íslensku safnaumhverfi til að ræða á opinskáan hátt spurningar og álitamál sem lúta að hlutverki safna þegar kemur að umdeildum og erfiðum frásögnum.
Í uppleggi Alþjóðaráðs safna kemur fram að fyrsta skrefið í þá átt að stuðla að friðsamlegum samskiptum og samfélagi sé að horfast í augu við umdeildar sögur og óþægileg söguleg minni. Að segja það sem ekki má sé það sem söfn verði nú að takast á við, og eru þau hvött til að taka sér skýrt og friðsamlegt hlutverk í hvers kyns umfjöllum um trámatískar, sársaukafullar og óþægilegar sögur með þeim einstöku verkfærum og aðferðum sem söfn búa yfir. Eru söfn á Íslandi í dag í stakk búin að takast á við umdeildar og erfiðar sögur? Hvaða sögur eru umdeildar (jafnvel þaggaðar) í íslensku samhengi, og hvernig hafa söfn tekist á við slíkar sögur? Hvað gerist bak við tjöldin þegar starfsmenn sinna slíkum sögum, hvað getum við lært að ferlinu?
Þjóðminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir opnar viðurðinn með stuttri innleiðingu.Í kjölfarið velta þrír frummælendur fyrir sér hvernig málefni sem þessi snúa að íslensku samfélagi og safnaumhverfi. Þátttakendur eru Anna Lísa Rúnarsdóttir, sviðsstjóri rannsókna og þróunar við Þjóðminjasafn Íslands, Guðrún Dröfn Whitehead, aðjúnkt í safnafræði við HÍ, og Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við HÍ. Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, doktorsnemi í safnafræði, stýrir umræðum. Viðbuðurinn er ætlaður sem innslag til ráðstefnunnar Difficult Issues sem Íslandsdeildin stendur fyrir í samvinnnu við ICOM Nord og ICOM Germany og fer fram Helsingborg í Svíþjóð dagana 21.-23. september 2017. Sjá nánar hér að neðan.

Alþjóðlegi safnadagurinn á Íslandi
Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS), taka höndum saman um að efla safnastarf á Íslandi og styrkja tengslin við alþjóðasamfélagið með því að sameina íslenska safnadaginn þeim alþjóðlega. Fjölbreytt dagskrá fer fram víðsvegar um landið alla vikuna. Dagskrá verður aðgengileg á heimasíðu félagsins www.safnmenn.is
Ráðstefna: Difficult Issues
Helsingborg, Svíþjóð
21.-23. september 2017.
ICOM Nord og ICOM Germany standa fyrir ráðstefnu sem haldin verður í Helsingborg í Svíþjóð dagana 21.-23. september 2017 undir heitinu Difficult Issues . Ráðstefnan er sú fyrsta sem haldin er í samvinnu deildanna tveggja en Íslandsdeild ICOM er virkur aðili að ICOM Nord og fundar árlega meðal landsdeilda Norðurlandanna.

Efnt er til ráðstefnunnar í því markmiði að skapa vettvang fyrir umræðu um „erfið málefni“ sem söfn og safnaumhverfið glíma við. Hvaða hlutverki gegna söfnin við miðlun á „erfiðum málefnum“ eða sögum samfélagsins? Hvers vegna er sumt gleymt meðan annað er geymt? Hvað er dregið fram í dagsljósið og hvað er hulið? Áhersla er lögð á að opna fyrir umræðu og varpa ljósi á ólíkar aðferðir og fjölbreytileika í nálgun, miðlun og efnistökum þegar tekist er á við erfið málefni.

Á ráðstefnunni gefst tækifæri til að velta upp spurningum, ræða og miðla af eigin reynslu. Markmiðið er að benda á mikilvægi safna sem vettvangs til að ræða og vekja athygli á viðkvæmum, umdeildum eða erfiðum málefnum.

Á heimasíðu og spjallþræði ráðstefnunar má nálgast allar nánari upplýsingar og pistla um ýmis tengd málefni : http://www.icom-helsingborg-2017.org/conference/

 

22. mars 2017

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM verður haldinn fimmtudaginn 30. mars kl. 16:00 í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt 6. grein laga Íslandsdeildar ICOM.

 • Ársskýrsla 2016 kynnt
 • Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram og kynntir
 • Kjör til stjórnar
 • Starfsáætlun 2017 kynnt
 • Önnur mál

Undir skýrslu síðasta árs fellur líka umfjöllun um þátttöku í Allsherjarþingi ICOM í Mílanó á 2016 og kynning á samvinnuverkefni ICOM Nord og ICOM Þýskaland sem er Ráðstefnan Difficult issues, sem haldin verður í Helsingborg í september nk. og fellur að yfirskrift alþjóðlega safnadagsins í ár sem er Söfn og umdeild saga; að segja í söfnum það sem ekki má segja.

Að fundi loknum er boðið upp á léttar veitingar

 • Stjórnin bendir á að enn er hægt að senda inn tillögur að erindum á ráðstefnunni Difficult Issues til 1. apríl – sjá nánari upfjöllun á vefsíðu www.icom-helsingborg-2017.org/ conference
 • Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki úr útgáfu- og ferðasjóði. Í ár verða veittir allt að 4 styrkir að upphæð kr. 60 þús. hver og hafa umsóknir vegna þátttöku í ráðstefnunni Difficult Issues í Svíþjóð forgang í ár. Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára. Umsóknir skal senda í tölvupósti á icom@icom.is og umsóknarfrestur er til 1. apríl.

 

28.febrúar 2017

Difficult Issues
Kallað eftir erindum / Call for papers 
Helsingborg, Svíþjóð
21.-23. september 2017.
ICOM Nord og ICOM Germany kalla eftir erindum á ráðstefnuna Difficult Issues sem haldin verður í Helsingborg í Svíþjóð dagana 21.-23. september 2017. Ráðstefnan er sú fyrsta sem haldin er í samvinnu deildanna tveggja en Íslandsdeild ICOM er virkur aðili að ICOM Nord og fundar árlega meðal landsdeilda Norðurlandanna.
Efnt er til ráðstefnunnar í því markmiði að skapa vettvang fyrir umræðu um „erfið málefni“ sem söfn og safnaumhverfið glíma við. Hvaða hlutverki gegna söfnin við miðlun á „erfiðum málefnum“ eða sögum samfélagsins? Hvers vegna er sumt gleymt meðan annað er geymt? Hvað er dregið fram í dagsljósið og hvað er hulið? Áhersla er lögð á að opna fyrir umræðu og varpa ljósi á ólíkar aðferðir og fjölbreytileika í nálgun, miðlun og efnistökum þegar tekist er á við erfið málefni.
Á ráðstefnunni gefst tækifæri til að velta upp spurningum, ræða og miðla af eigin reynslu. Markmiðið er að benda á mikilvægi safna sem vettvangs til að ræða og vekja athygli á viðkvæmum, umdeildum eða erfiðum málefnum. Landsdeildirnar sex, ICOM Ísland, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Danmörk og Þýskaland hvetja áhugasama til að leggja inn tillögur að erindum sem fjalla um átakanleg viðfangsefni eða málefni sem hafa tilhneigingu til að vera dulin í safnaumhverfinu.
Frestur til að senda inn tillögur rennur út 1. apríl 2017. 
Sjá frekari upplýsingar í viðhengi. 
Á heimasíðu og spjallþræði ráðstefnunar má nálgast enn frekari upplýsingar og pistla um ýmis tengd málefni : http://www.icom-helsingborg-2017.org/conference/

25.janúar 2017

Difficult Issues: Ráðstefna ICOM NORD og ICOM Germany

ICOM Germany og ICOM Nord, sem Íslandsdeild ICOM er aðili að, skipuleggja sameiginlega ráðstefnu sem haldin verður í  Helsingborg, Svíþjóð, dagana  21–23, September 2017 undir þemanu “Difficult issues“. Heimasíðu og spjallþráð ráðstefnunar má nálgast hér: http://www.icom-helsingborg-2017.org/conference/

FRÉTTIR 2016

13.júlí 2016

Byggðasafn Skagfirðinga hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2016

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Byggðasafni Skagfirðinga Íslensku safnaverðlaunin 2016 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, miðvikudaginn, 13.júlí kl. 16.

unnamed (1)

Í greinagerð valnefndar segir að starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga sé fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir. Í safninu er ríkulegur safnkostur sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og um þessar mundir beita starfsmenn aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnstörf. Byggðasafnið leggur áherslu á að rækta samstarf við stofnanir og fyrirtæki heima og heiman. Sú samvinna og samþætting skipar safninu í flokk með fremstu safna á Íslandi í dag.

Öflugar og sérhæfðar rannsóknir safnsins varpa ljósi á mannauð sem það býr yfir og sýna fram á hvers byggðasöfn eru megnug þegar þau hafa náð viðurkenndum sessi. Í safninu fara fram rannsóknir á safnkostinum auk víðtækra fornleifarannsókna í héraðinu, oft í alþjóðlegu samstarfi. Skráning, kennsla og rannsóknir á starfssviði safnsins hafa enn frekar víkkað út starfssvið safnsins og birtast m.a. í gegnum Fornverkaskólann og byggingarsögurannsóknir. Gefnar eru út rannsóknaskýrslur og sýningaskrár sem eru jafnframt aðgengilegar í gagnabanka á vefsíðu safnsins. Starfsemi safnsins nær langt út fyrir eiginlega staðsetningu þess. Sýningar þess eru víðar um héraðið en í höfuðstöðvunum að Glaumbæ, s.s. sýningin í Minjahúsinu á Sauðárkróki og aðalsýning í Vesturfarasetrinu á Hofsósi, sem einnig er dæmi um samstarfsverkefni undir undir faglegri handleiðslu byggðasafnsins. Samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem og samstarf í miðlun og sýningagerð sýnir hvernig safn getur aukið fagmennsku í sýningagerð, ferðaþjónustu og miðlun menningararfs. Safnið hefur á að skipa hæfu starfsfólki sem með vökulum áhuga og metnaði hefur tekist að skipa safninu í flokk með þeim fremstu sinnar tegundar á Íslandi.
Valnefnd Íslensku safnaverðlaunanna 2016 skipa þau Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður, Hlynur Hallsson, Unnur Birna Karlsdóttir, Sigurður Trausti Traustason, og María Karen Sigurðardóttir sem tók við af Lilju Árnadóttur. Greinagerð í fullri lengd má finna hér: Safnaverðlaunin 2016_Greinagerð valnefndar

18. maí 2016

Tilkynnt hefur nú verið um tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2016

Tilkynnt var um tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2016 í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum á Íslandi, 18. maí í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Valnefnd hefur tilnefnt eftirfarandi þrjú söfn og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna  Safnaverðlaun 2016 og 1.000.000 króna að auki.  Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn þann 13. júlí á Bessastöðum. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin. Valnefnd skipa þau Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður, Hlynur Hallsson, Unnur Birna Karlsdóttir, Sigurður Trausti Traustason, og María Karen Sigurðardóttir sem tók við af Lilju Árnadóttur.

TILNEFNINGAR DÓMNEFNDAR ERU Í STAFRÓFSRÖÐ:

Byggðasafn Skagfirðinga

Starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga er fjölþætt og metnaðarfull. Þar er fagmannlega að verki staðið og hver þáttur faglegs safnastarfs unninn í samræmi við staðfesta stefnu og starfsáætlanir. Í safninu er ríkulegur safnkostur sem safnast hefur allt frá stofnun þess árið 1952 og um þessar mundir beita starfsmenn aðferðum við söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun sem mæta kröfum samtímans um safnstörf. Byggðasafnið leggur áherslu á að rækta samstarf við stofnanir og fyrirtæki heima og heiman. Sú samvinna og samþætting skipar safninu í flokk með fremstu safna á Íslandi í dag.

Öflugar og sérhæfðar rannsóknir safnsins varpa ljósi á mannauð sem það býr yfir og sýna fram á hvers byggðasöfn eru megnug þegar þau hafa náð viðurkenndum sessi. Í safninu fara fram rannsóknir á safnkostinum auk víðtækra fornleifarannsókna í héraðinu, oft í alþjóðlegu samstarfi. Skráning, kennsla og rannsóknir á starfssviði safnsins hafa enn frekar víkkað út starfssvið safnsins og birtast m.a. í gegnum Fornverkaskólann og byggingarsögurannsóknir. Gefnar eru út rannsóknaskýrslur og sýningaskrár sem eru jafnframt aðgengilegar í gagnabanka á vefsíðu safnsins.Starfsemi safnsins nær langt út fyrir eiginlega staðsetningu þess. Sýningar þess eru víðar um héraðið en í höfuðstöðvunum að Glaumbæ, s.s. sýningin í Minjahúsinu á Sauðárkróki og aðalsýning í Vesturfarasetrinu á Hofsósi, sem einnig er dæmi um samstarfsverkefni undir undir faglegri handleiðslu byggðasafnsins. Samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem og samstarf í miðlun og sýningagerð sýnir hvernig safn getur aukið fagmennsku í sýningagerð, ferðaþjónustu og miðlun menningararfs.Safnið hefur á að skipa hæfu starfsfólki sem með vökulum áhuga og metnaði hefur tekist  að skipa safninu í flokk með þeim fremstu sinnar tegundar á Íslandi.

Listasafn Reykjavíkur – Ásmundarsafn

Ásmundur Sveinsson var einn frumkvöðla höggmyndalistar á Íslandi. Honum auðnaðist löng og starfssöm ævi og eftir hann eru listaverk, sem hann tryggði örugga framtíð með því að ánafna þeim Reykjavíkurborg eftir lát sitt, ásamt eintöku húsi sínu við Sigtún í Reykjavík. Við stofnun safnsins árið 1983 var strax ákveðið að stefna þess yrði að leggja áherslu á að halda á lofti verkum listamannsins og gildum. Það er gert með því að tengja þau strauma og stefnum líðandi stundar í samspili við verk valinna, ungra listamanna.

Í Ásmundarsafni hefur síðustu misseri tekist einkar vel að halda uppi lifandi samræðu bæði við listasöguna jafnt og samtímann með vel skipulagðri sýningarstefnu. Valin eru til sýningar verk starfandi listamanna eða þeim boðið að gera ný verk og þau sett í samhengi við safnkostinn og vinnuaðferðir Ásmundar með vel útfærðri sýn sýningarstjóranna.  Þannig er sýn okkar á verk þessa mikla meistara endurnýjuð með reglulegu millibili, sem um leið varpar nýju ljósi á íslenska listasögu og túlkun okkar á henni. Þannig sýnir safnið hvernig mögulegt er halda safnkosti í stöðugri endurskoðun með því að velta upp nýjum flötum og skoðunum frá ólíkum sjónarhornum virkra listamanna í samtímanum. Þá hafa verið gefin út rit og bækur um list og persónusögu Ásmundar og lögð er áhersla á útgáfu fræðsluefnis, sem tryggir miðlun á stórmerkum arfi listamannsinsÁsmundarsafn er einmenningssafn, sem skarar fram úr á landsvísu. Aðferðir sem hafðar eru að leiðarljósi í starfi safnsins sýna að vel hefur tekist að glæða safnið og halda markvisst á lofti minningu og listsköpun merks myndhöggvara, sem markaði spor með listsköpun sinni og mun áfram gera það í gegnum metnaðarfulla starfsemi safnsins.

Sjónarhorn

Sýningin Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands. Samstarfið markar tímamót í safnastarfi á Íslandi, en afar vel hefur tekist að leiða saman þessar ólíku stofnanir í því markmiði að miðla sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Þá heiðrar sýningin Safnahúsið sjálft á viðeigandi hátt, sem upphaflega var byggt til að varðveita og miðla menningarminjum úr ólíkum áttum.

Sjónarhorn býður gestum í leiðangur um íslenskan myndheim frá fortíð til nútíðar. Sýningin státar af forngripum, handverki, náttúruminjum, listaverkum, handritum, hönnun og ýmiss konar skjölum, sem saman mynda marglaga sýn. Þessi nálgun hvetur áhorfandann til að velja sér sitt sjónarhorn um leið og honum er ljóst að ekki er til neitt eitt réttmætt sjónahorn. Þá eru það nýmæli hér á landi að menningararfur á svo á víðtæku tímabili sé skoðaður með sjóngleri listasögunnar og hins fagurfræðilega, en í því tilliti er sýningin endurskoðun á þröngri túlkun muna af því tagi sem á henni er til sýnis. Þannig færir sýningin okkur nýjar menningarlegar víddir og viðmið sem beitir annarskonar lestri á sögunni og skilar jafnvel nýjum skilningi á menningarsögu okkar.Sýningarstjórnun er afar vönduð og byggir á heildstæðri og ígrundaðri afstöðu til safnkostar allra hlutaðeigandi stofnana. Unnið út fyrir hefðbundin flokkunarkerfi safna, sem brotin eru niður og gripir látnir tala sínu máli í krafti sjónrænna áhrifa fremur en eðliseiginleikum eða tegundum. Þá ríkir skýr meðvitund um að sú nálgun sem hér er beitt taki mið af því áður hefur verið gert á safnasviðinu, og að á sama tíma sé hún lituð af þeim samtíma sem sýningin sprettur úr. Sýningin er þannig í áhugaverðu samtali við sögu og hlutverk safna í samtímanum, sem gerir áhorfandann um leið meðvitaðan um vald safnastofnana og sýningastjórans sjálfs til að hafa áhrif á sjálfsímynd þjóða. Þá fellur hönnun sýningarinnar fullkomlega að þessu markmiði og minnir á furðustofur endurreisnarinnar (e. cabinets of curiosity), þar sem ólíkum gripum ægir saman og ekki er gerður stigveldismunur á náttúruminjum, menningarminjum og listaverkum.Mjög ítarleg leiðsögn fylgir sýningunni, hvort sem er á vef, í hljóðleiðsögn eða smáforriti fyrir síma, og þannig er nútíma safnatækni vel nýtt. Upplýsingar á vef er auðvelt að finna og hægt er að kafa á dýptina í efni um einstaka gripi. Prentuð sýningarskrá er sömuleiðis vönduð og fagurlega hönnuð.

12. maí 2016

Capture

SÖFN OG MENNINGARLANDSLAG – HÁDEGISFYRIRLESTUR OG TILNEFNINGAR ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNANNA.

Miðvikudaginn 18. maí kl. 12.10 mun Íslandsdeild ICOM standa fyrir hádegisviðburði í fyrirlestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu í tilefni af alþjóðlega safnadeginum. Yfirskrift dagsins að þessu sinni er „söfn og menningarlandslag“ en með því eru söfn um víða veröld hvött til að líta út fyrir veggi safnanna og huga menningarlegu, sögulegu og náttúrulegu landslagi utan þess. Söfnin geta og eiga að deila þekkingu sinni og vera virkir ábyrgðarmenn menningarlandslagsins og menningarlegrar arfleifar umhverfisins. Hugað verður að þemanu í íslensku samhengi í inngangserindi stjórnar Íslandsdeildar ICOM. Ásdís Spanó og Hugrún Þorsteinsdóttir, listgreinakennarar segja frá nýju verkefni sem unnið var um útilistaverk í Reykjavík í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur. Í kjölfarið kynnir valnefnd þau söfn sem hljóta tilnefningu til Safnaverðlaunanna 2016.

Dagskrá

12.11    Inngangur – söfn og menningarlandslag – Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, formaður Íslandsdeildar ICOM.

12.20    Fræðsluefni um útilistaverk í Reykjavík – Ásdís Spanó og Hugrún Þorsteinsdóttir, listgreinakennarar.
Markmið verkefnisins Fræðsluefni um útilistaverk í Reykjavík er að vekja fólk til umhugsunar um útilistaverk Listasafns Reykjavíkur og gera fræðslu um þau aðgengilegri.Sjónum er beint að inntaki, útliti og einkennum listaverkanna út frá ólíkum vinklum með tengingar við ýmsar námsgreinar. Meðvitund um nánasta umhverfi getur dýpkað skilning og skapað auknar tengingar og áhuga á umhverfinu. Höfundar verkefnisins vonast til að nemendur, kennarar sem og aðrir fái tækifæri og tilefni til að ganga á milli útilistaverkanna og kynnast verkunum og listamönnunum á nýja vegu í gegnum fræðslu, leik og hreyfingu.

12.40    Tilnefningar til Íslensku Safnaverðlaunanna 2016 – Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, formaður valnefndar.

Allir velkomnir og ókeypis inn.

Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna- og safnmanna (FÍSOS), taka höndum saman um að efla safnastarf á Íslandi og styrkja tengslin við alþjóðasamfélagið með því að sameina íslenska safnadaginn þeim alþjóðlega. Fjölbreytt dagskrá fer fram víðsvegar um landið alla vikuna. Dagskrá verður aðgengileg á heimasíðu félagsins www.safnmenn.is

25. mars 2016

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM

Stjórn Íslandsdeildar ICOM minnir á aðalfund félagsins sem haldinn verður í Sjóminjasafninu fimmtudaginn 31. mars kl. 16. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem kjósa skal í embætti ritara og einn varamann. Félagsmenn eru hvattir til að bjóða sig fram. Framboð þurfa ekki að berast fyrir fundinn ern stjórn þætti gott að vita af þeim sem hyggja á framboð.

Ný útgáfa af Siðareglum ICOM fyrir söfn verður kynnt og seld á fundinum. Guðbrandur Benediktsson kynnir samstarf ICOM NORD og ICOM Germany sem stendur yfir og EMYA – evrópsku safnaverðlaunin. Úthlutað verður úr ferða- og útgáfusjóði Íslandsdeildar ICOM.

Með kveðju,
Stjórn Íslandsdeildar ICOM

Screen Shot 2016-03-25 at 19.21.54

2. mars 2016

Ný útgáfa fáanleg: Siðareglur ICOM 

ICOM_Sidareglur_2015_LQ-1

Ný útgáfa af Siðareglum ICOM fyrir söfn fæst nú hjá Íslandsdeild ICOM. Pantið eintök í netfang: icom@icom.is. Nánari upplýsingar má nálgast hér.

16. febrúar 2016

Alþjóðlegi safnadagurinn á Íslandi

IMDPoster2016-iceland_print72

Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna- og safnmanna, FÍSOS

Á alþjóðlega safnadeginum, 18. maí ár hvert, hafa söfn um allan heim skipulagt dagskrá þann dag, helgina eða jafnvel vikuna alla sem 18. maí ber upp á og hefur það verið gert öll árin síðan 1977. Á síðasta ári tóku yfir 30 þúsund söfn þátt sem staðsett eru í yfir 120 löndum. Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna- og safnmanna, FÍSOS, hafa tekið höndum saman um að efla safnastarf á Íslandi og styrkja tengslin við alþjóðasamfélagið með því að sameina íslenska og alþjóðlega safnadaginn. Alþjóðlegi safnadaginn á Íslandi verður haldinn hátíðlegur miðvikudaginn 18. maí 2016 með fjölbreyttri dagskrá.

Hér má hala niður veggspjaldi og banner á íslensku:

IMD2016_banner_ice400px (1)

IMDPoster2016-iceland_print (1)

Söfn og menningarlandslag

Þema safnadagsins árið 2016 er „Söfn og menningarlandslag“ (e. Museum and cultural landscape). Á hverju ári velur ráðgjafarnefnd ICOM þema til þess að leggja út af, með það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi safna í þróun samfélagsins. Þemað í ár leggur áherslu á ábyrgð safna gagnvart umhverfi sínu og er ákall til þeirra um að leggja til þekkingu og sérfræðikunnáttu og taka virkan þátt í stjórnun þess og viðhaldi.

Megin hlutverk safna er að hafa umsjón með arfleifð, hvort sem það er innan eða utan veggja þeirra.  Starfsvettvangi safna er eiginlegt að stækka og eðlilegt að söfn láti til sín taka á vettvangi menningarlandslags og þeirrar arfleifðar sem umlykur söfnin og þar sem gera má ráð fyrir að þau axli mismikla ábyrgð.

Með því að leggja áherslu á tengslin milli safna og menningararfs eykst gildi safna sem svæðismiðstöðva sem taki virkan þátt í að vernda menningarlandslagið.

Hádegisfyrirlestur Físos – kallað eftir erindum.

Næsti hádegisfyrirlestur FÍSOS verður haldinn 25. febrúar í samstarfi við Íslandsdeild ICOM og er helgaður þemanu „Söfn og menningarlandslag“.

Físos kallar í því tilefni eftir stuttum erindum /hugleiðingum (5-15 mín) sem innlegg í umræðuna. Erindi geta tengst verkefnum og viðburðum sem tengjast þemanu og/eða  stuttar hugleiðingar sem eru vel til þessa fallnar að vekja upp spurningar og kveikja umræður í tengslum við áherslur ársins í ár. Áhugasamir hafi samband við Elísabetu Pétursdóttir í netfang: elisabet@safnmenn.is

9. febrúar 2016

Auglýst er eftir umsóknum úr útgáfu- og ferðasjóði Íslandsdeildar ICOM árið 2016

Íslandsdeild ICOM auglýsir eftir umsóknum um styrki úr útgáfu- og ferðasjóði fyrir árið 2016. Í ár verða veittir allt að fjórir styrkir sem nema 60.000 kr. hver. Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til að sækja alþjóðlega fundi og ráðstefnur á vegum ICOM auk þess sem styðja má útgáfur á efni sem tengist faglegu starfi safna. Umsóknir vegna þátttöku í allsherjarþingi ICOM í Mílanó munu hafa forgang.

Umsóknum skal skila fyrir 15. mars 2016 og skal umsækjandi tilgreina hvaða ráðstefnu hann hyggst sækja eða gera grein fyrir fyrirhugaðri útgáfu.

Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára. Hægt er að sækja um vegna ráðstefna sem haldnar eru 2016-2017.

Umsóknir skal senda í tölvupósti til stjórnarinnar á netfangið stjorn@icom.is fyrir 15. mars 2016. 

Nánar um reglur sjóðsins á www.icom.is. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér fundi og ráðstefnur á slóðinni www.icom.museum  – skoða alþjóðadeildir og einnig viðburðadagatal.

 

FRÉTTIR 2015

16. desember 2015

Vegna umræðu um stöðu Tónlistarsafns Íslands

Vegna umræðu um stöðu Tónlistarsafns Íslands kallaði Íslandsdeild ICOM eftir upplýsingum um hvernig ábyrgðaraðilar og eigendur Tónlistarsafns Íslands hyggjast finna safninu farveg til framtíðar. Svör bárust frá fulltrúum Kópavogsbæjar og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem sjá má hér að neðan, ásamt fyrirspurnarbréfi stjórnar deildarinnar. Ákveðið var á stjórnarfundi mánudaginn 30. nóvember 2015 að stjórnin mun ekki hafast frekar við í málinu en fylgjast áfram með framgangi Tónlistarsafnsins (sjá fundargerð).
16. júní 2015

Allsherjarþing ICOM 2016

Screen Shot 2015-06-16 at 8.47.39 PM

24. allsherjarþing ICOM verður haldið í Mílanó á Ítalíu 3-9 júlí 2016. Allar nánari upplýsingar má finna á heimasvæði ráðstefnunnar http://network.icom.museum/icom-milan-2016/the-conference/presentation/

Fyrstu tilkynningu og drög að dagskrá má nálgast hér: Allsherjarþing ICOM

 

6. maí 2015

Banner_ice

Íslenski safnadagurinn er nú í fyrsta sinn haldinn hátíðlegur í tengslum við alþjóðlega safnadaginn og fer fram sunnudaginn 17. maí 2015.

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn að frumkvæði Alþjóðaráðs safna ICOM 18. maí ár hvert. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi safna í þróun samfélagsins en dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur með ýmsum hætti frá árinu 1977 um allan heim. Yfirskrift dagsins er að þessu sinni „söfn í þágu sjálfbærni“ en ein af helstu áskorunum samtímans er að þróa lifnaðarhætti sem stuðla að verndun náttúruauðlinda, aukinni samvinnu og sjálfbærni samfélaga.

Íslandsdeild ICOM og Félag íslenskra safna- og safnmanna, FÍSOS, taka höndum saman um að efla safnastarf á Íslandi og styrkja tengslin við alþjóðasamfélagið með því að sameina þessa tvo viðburði; íslenska og alþjóðlega safnadaginn. Fjölbreytt dagskrá er í boði á söfnum landsins sunnudaginn 17.maí með áherslu á yfirskriftina „söfn í þágu sjálfbærni“ og eru allir hvattir til að heimsækja söfnin og nýta sér það sem þar er boðið upp á.

Mánudaginn 18. maí mun Íslandsdeild ICOM standa fyrir hádegisfyrirlestrum í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Hugað verður að yfirskriftinni „söfn í þágu sjálfbærni“ í erindum. Fyrirlesarar eru Ásthildur Björg Jónsdóttir, lektor í listkennsludeild Listaháskólans og Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafnsins. Dagskráin hefst kl.12.10  Allir velkomnir og ókeypis inn.

Hér má afla sér frekari upplýsinga af heimasíðu ICOM um yfirskrift dagsins í ár: http://icom.museum/activities/international-museum-day/imd-2015/

CaptureICOM

Hér má hala niður plakati sem nýta má í kynningu: Icom_poster_isl_02 copy

Líkt og áður heldur FÍSOS utan um skipulag íslenska safnadagsins. Söfnin eru hvött til að senda dagskrá á elisabet@safnmenn.is 

 

22. apríl 2015

SIÐAREGLUNÁMSKEIÐ ICOM

Siðareglur ICOM eru mikilvægur grunnur að öllu faglegu safnastarfi, nokkuð sem safnmenn þurfa að líta til í störfum sínum. Íslandsdeild ICOM bíður félögum upp á námsskeið um siðareglurnar en deildin gaf út námskeiðsefni fyrr á árinu sem nýtt verður við kynningar. Sjá nánar hér.

Hafið samband við Íslandsdeild ICOM og pantið námskeið: icom@icom.is

FullSizeRender

19. mars 2015

ÁLYKTUN AÐALFUNDAR ÍSLANDSDEILDAR ICOM

Vegna umræðu um stöðu Náttúrminjasafns Íslands vill Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) koma eftirfarandi á framfæri:

Aðalfundur Íslandsdeildar Alþjóðaráðs safna (ICOM), sem haldinn var í fundarsal Þjóðminjasafns Íslands 19. mars 2015, skorar á yfirvöld safnamála á Íslandi að axla ábyrgð á starfsemi Náttúruminjasafns Íslands og tryggja því viðunandi starfsaðstöðu þannig að safnið geti uppfyllt þær starfsskyldur sem settar eru fram í lögum um hlutverk þess.

Samkvæmt safnalögum sem tóku gildi í janúar 2013 kemur fram í 3. gr. annarri málsgrein um hlutverk safna: „Með söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun er það hlutverk safna að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.“ Í safnalögum kemur einnig fram að söfnum beri að fara að siðareglum ICOM þar sem jafnfram er kveðið á um ríkar skyldur eigenda gagnvart söfnunum.

Ályktun vegna óviðunandi stöðu Náttúruminjasafns Íslands var samþykkt á aðalfundi Íslandsdeildar Alþjóðaráðs safna árið 2012 en virðist staðan hafa versnað fremur en batnað á því tímabili.

19. mars 2015

Úthlutun úr Ferða- og útgáfusjóði ICOM

Ferðastyrkir:

Rakel Pétursdóttir, Deildarstjóri fræðsludeildar og Safns Ásgríms Jónssonar, Listasafni Íslands, vegna ráðstefnu ICOM/CECA, 17. – 21. september 2015, Washington, D.C.

Soffía Karlsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs, Bæjarskrifstofur Seltjarnarness, vegna Allsherjarþings ICOM í Mílanó, Ítalíu 2.-9. júlí 2016.

Sif Jóhannesdóttir, Forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, Safnahúsinu á Húsavík. Ferðastyrkur , vegna Allsherjarþings ICOM í Mílanó, Ítalíu 2.-9. júlí 2016.

Útgáfustyrkir:

Sigurjón Baldur Hafsteinsson, dósent í safnafræði við Háskóla Íslands og Helgi Máni Sigurðsson, deildarstjóri munadeildar, Sjóminjasafnið fyrir útgáfu á Sögu byggðasafna á Íslandi og kemur út árið 2015.

12. mars 2015

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM

Stjórn Íslandsdeildar ICOM minnir á aðalfund félagsins sem haldinn verður í fundarsal Þjóðminjasafns fimmtudaginn 19. mars kl. 15. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem Sigurður Trausti Traustason og Hilmar Malmquist segja frá ICOM-ráðstefnum sem þeir sóttu á síðasta ári. Á báðum ráðstefnum var komið inn á málefni sem varða íslenskt safnasamfélag samtímans.

Á fundinum skal kjósa í þrjú embætti – formann, gjaldkera og einn varamann. Félagsmenn eru hvattir til að bjóða sig fram. Framboð þurfa ekki að berast fyrir fundinn ern stjórn þætti gott að vita af þeim sem hyggja á framboð.

Úthlutað verður úr ferða- og útgáfusjóði Íslandsdeildar ICOM. Umsóknarfrestur rennur út þann 15. mars og geta félagsmenn sótt um stuðning við verkefni á árunum 2015 og 2016, sjá nánar um umsóknir á heimasíðunni icom.is en þar má einnig finna slóð inn á ráðstefnur félagsins á árinu 2015 og inn á upplýsingar um allsherjarþing sem haldið verður í Mílanó árið 2016.

 

12. mars 2015

ICOM á Fésbókinni

Fylgist með ICOM á Fésbók hér. Einnig er að finna síður alþjóðadeilda CECA og Avicom.

Capture

6. janúar 2015

ICOMMUNITY – UMRÆÐUVEFUR ICOM FÉLAGA

icommunity

ICOMMUNITY er sameiginlegur umræðuvefur ICOM sem gerir félögum kleipt að deila faglegum upplýsingum og þekkingu. Á vefinum er að finna ýmsar fréttir, upplýsingar og umræður sem lagðar eru fram af meðlimum innan ólíkra fagdeilda ICOM.

Íslandsdeild ICOM hvetur alla sína félaga til að skrá sig hér. ICOMMUNITY-vefurinn er eingöngu ætlaður félagsmönnum ICOM.

23. febrúar 2015

Auglýst er eftir umsóknum úr útgáfu- og ferðasjóði Íslandsdeildar ICOM árið 2015.

Íslandsdeild ICOM auglýsir eftir umsóknum um styrki úr útgáfu- og ferðasjóði fyrir árið 2015. Í ár verða veittir allt að fjórir styrkir sem nema 60.000 kr. hver. Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til að sækja alþjóðlega fundi og ráðstefnur á vegum ICOM auk þess sem styðja má útgáfur á efni sem tengist faglegu starfi safna. Upplýsinga um ráðstefnur og fundi má finna á heimasíðum alþjóðlegu fagdeildanna og á slóðinni: http://icom.museum/events/calendar/2015/

 • Umsóknum skal skila fyrir 15. mars og skal umsækjandi tilgreina hvaða ráðstefnu hann hyggst sækja eða gera grein fyrir fyrirhugaðri útgáfu.
 • Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára.
 • Hægt er að sækja um vegna ráðstefna sem haldnar eru 2015-2016.

Umsóknir skal senda í tölvupósti til stjórnarinnar á netfangið stjorn@icom.is fyrir 15. mars 2015. Nánar um reglur sjóðsins hér

Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér fundi og ráðstefnur á slóðinni www.icom.museum – skoða alþjóðadeildir og einnig viðburðadagatal.

 

FRÉTTIR 2014

24. október 2014

Blái sköldurinn á Íslandi

IMG_0374

Landsnefnd Bláa skjaldarins var formlega stofnuð í dag 24. október á degi Sameinuðu þjóðanna á Þjóðminjasafni Íslands. Þar komu saman fjölmennur hópur fólks sem starfar að varðveislu menningarminja ásamt fulltrúum Almannavarna, Landsbjargar, ráðuneyta og Rauða krossins, en Blái skjöldurinn hefur verið nefndur rauði kross menningarminja.

BLÁI SKJÖLDURINN – International Committee of the Blue Shield – var stofnaður árið 1996 til að vinna að verndun menningararfs sem er í hættu vegna náttúruhamfara og stríðsátaka. Markmið Bláa skjaldarins er að vinna að verndun menningararfs heimsins með því að samhæfa viðbragðsáætlanir þar sem hættuástand verður. Grundvöllur í starfi alþjóðanefndar Bláa Skjaldarins er Hague sáttmálinn frá 1954. Alþjóðanefnd Bláa skjaldarins hefur aðsetur í París en landsnefndir starfa víða um heim.

Nafnið Blái skjöldurinn vísar til bláa litarins í merki því sem menningarminjar, sem njóta verndar samkvæmt Hague sáttmálanum, eru auðkenndar með. Blái skjöldurinn, sem nefndur hefur verið Rauði kross menningarminja, er UNESCO og öðrum alþjóðlegum samtökum til ráðgjafar og innan vébanda hans eru sérfræðingar með fjölbreytta þekkingu á sviði varðveislu menningararfs. Það gerir samtökunum kleift að safna og deila upplýsingum um ógn við menningarminjar um allan heim og vera til ráðgjafar um viðeigandi ráðstafanir þar sem verða vopnuð átök eða náttúrhamfarir og senda sérfræðinga á vettvang.

Stofnendur Bláa skjaldarins eru alþjóðleg samtök bóka-, skjala-, og menningarminjasafna; IFLA – International Federation of Library Associations, ICA – International Council on Archives, ICOM – International Council of Museums, og ICOMOS – International Council of Monuments and Sites. Íslandsdeildir ICOM, ICOMOS og fulltrúar IFLA, ICA á Íslandi hafa ákveðið að taka höndum saman og stofna Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi. Með því vilja þessi samtök hvetja til samstarfs stofnana sem bera ábyrgð á menningararfi, svo og ríkisstjórnar, sveitarfélaga og Almannavarna um forvarnir og viðbrögð við vá, svo að tryggja megi öryggi mennningarminja ef hætta steðjar að.

Heimasíðu Alþjóðanefndar Bláa skjaldarins má nálgast hér.

 

6. júlí 2014

SARPUR HLÝTUR ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN 2014

DSC09354

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Íslensku safnaverðlaunin 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag, sunnudaginn 6. júlí. Var það Rekstrarfélag Sarps sem hlaut viðurkenninguna fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps (www.sarpur.is) og 1.000.000 kr. að auki.

Þrjú söfn hlutu tilnefningu árið 2014 – Hafnarborg, menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar sem tilnefnd er fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni, Þjóðminjasafn Íslands fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins og Rekstrarfélag Sarps fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.

Sjá myndaalbúm hér.

Í umsögn valnefndar segir:

Rekstrarfélag Sarps er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps. Á árinu 2013 urðu þau tímamót í Íslensku safnastarfi að safnkostur þeirra safna sem eiga aðild að menningarsögulega gagnasafninu Sarpi varð aðgengilegur almenningi í gegnum veraldarvefinn. Þá var opnaður svo kallaður ytri vefur Sarps sem býður upp á leit í safnkosti 44 safna af ýmsum stærðum og gerðum.

Ytri vefurinn er gátt inn í skráningarkerfi safnanna þar sem upplýsingar um safnkost þeirra er að finna. Fjársjóður sá, sem söfnin varðveita, er einstaklega fjölbreyttur; þar má finna margskonar brúkshluti, ljósmyndir, myndlistarverk af ýmsu tagi, lýsingu á þjóðháttum fyrr og nú ásamt upplýsingum um hús og margt fleira. Ytri vefur Sarps er bylting í aðgengi almennings að upplýsingum um menningararfinn og skapar tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á safnkosti íslenskra safna til að finna upplýsingar, skoða, bera saman og deila.

Vefurinn nýtist nemendum á öllum skólastigum og eykur möguleika á rannsóknum á menningararfinum. Vefurinn gefur almenningi tækifæri til að bæta við þekkingarbrunninn í gegnum sérstakt athugasemdakerfi. Gagnasafnið er því lifandi og kvikt, tekur sífellt við nýjum upplýsingum, stækkar og batnar meðal annars með myndvæðingu þess. Ytri vefur Sarps er mikilvægur til þess að söfnin í landinu séu virkir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og opnar gátt milli almennings og safna.

Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FISOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.

 

6. júlí 2014

Íslenski safnadagurinn 2014

1011155_527583123943957_476089674_n

Íslenski safnadagurinn er haldin hátíðlegur víða um land sunnudaginn 13. júlí. Í tilefni dagsins verður spennandi og áhugaverð dagskrá víða um land, eins og sjá má hér.

Dagskrá yfir landið allt:

Dagskrá íslenska safnadagsins 2014

Dagskrá eftir landshlutum:

Höfuðborgarsvæðið

Suðurland og Reykjanes

Norðurland

Vesturland og Vestfirðir

Allar nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu Íslenska safnadagsins.

 

19. júní 2014

Capture

Tilkynnt hefur nú verið um tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2014

Íslensku safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gátu almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. TILNEFNINGAR DÓMNEFNDAR ERU Í STAFRÓFSRÖÐ:

 • HAFNARBORG, MENNINGAR OG LISTAMIÐSTÖÐ HAFNARFJARÐAR er tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni þar sem þátttaka almennings er lykilatriði.
 • REKSTRARFÉLAG SARPS – er tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.
 • ÞJÓÐMINJASAFN ÍSLANDS – er tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins.

Valnefnd skipa Haraldur Þór Egilsson, formaður valnefndar, Hilmar Malmquist, Valgerður Guðmundsdóttir, Ágústa Kristófersdóttir og Sif Jóhannesdóttir. Valnefnd hefur tilnefnt eftirfarandi þrjú söfn og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna Safnaverðlaun 2014 og 1.000.000 króna að auki. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn sunnudaginn þann 6. júlí á Bessastöðum. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin.

FRÉTTATILKYNNING – Tilnefningar til Safnaverðlaunana 2014

6. maí 2014

ÍSLENSKU SAFNAVERÐLAUNIN 2014

Safnaverðlaunin er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. ÓSKAÐ ER EFTIR ÁBENDINGUM frá almenningi, stofnunum og félagasamtökum um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar. Söfnum er jafnframt heimilt að senda inn kynningar á eigin verkefnum. Til greina koma sýningar, útgáfur og annað er snýr að þjónustu við safngesti jafnt sem verkefni er lúta að faglegu innra starfi svo sem rannsóknir og varðveisla. Valnefnd tilnefnir þrjú söfn eða verkefni og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna og 1.000.000 króna að auki. Safnaverðlaunin verða veitt í níunda sinn 6. júlí 2014. Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 20. maí 2014.

Sendist: Safnaverdlaun2014@icom.is eða Safnaverðlaunin 2014, Pósthólf: P.O Box 1489, 121 Reykjavík.

Íslandsdeild ICOM – Alþjóðaráðs safna og FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmanna standa saman að verðlaununum.

 

20. febrúar 2014

Alþjóðlegi safnadagurinn verður haldinn 18. maí

Althjodlegi safnadagurinn
Smellið á myndina til að sjá upplýsingar á alþjóðasíðu ICOM

 

28. febrúar 2014

Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr útgáfu- og ferðasjóði Íslandsdeildar ICOM fyrir árið 2014

Í ár verða veittir allt að fjórir styrkir sem nema 50.000.- kr. hver.
Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til að sækja alþjóðlega fundi og ráðstefnur á vegum ICOM auk þess sem styðja má útgáfur á efni sem tengist faglegu starfi safna.
Upplýsinga um ráðstefnur og fundi má finna á heimasíðum alþjóðlegu fagdeildanna og á slóðinni: http://icom.museum/events/calendar/2014/

 • Umsóknum skal skila fyrir 20. mars og skal umsækjandi tilgreina hvaða ráðstefnu hann hyggst sækja eða gera grein fyrir fyrirhugaðri útgáfu.
 • Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára (2013 0g 2014).
 • Hægt er að sækja um vegna ráðstefna sem haldnar eru á árinu 2014.

Nánar um reglur sjóðsins hér
Umsóknir skal senda í tölvupósti til stjórnarinnar á netfangið stjorn@icom.is fyrir 20. mars 2014.
Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér fundi og ráðstefnur á slóðinni icom.museum – skoða alþjóðadeildir og einnig viðburðadagatal.

20. febrúar 2014
Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM

800px-reykjavik_pano_saga

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM verður haldinn fimmtudaginn 27. mars, 2014, klukkan 16.00 á Þjóðminjasafni Íslands. Venjuleg aðalfundarstörf, en nánari dagskrá kynnt síðar.

 

FRÉTTIR 2013

Aðalfundur félagsins

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM verður haldinn 14. mars n.k. klukkan 16.00 á Þjóðminjasafni Íslands. Venjulega aðalfundarstörf. Nánari dagskrá auglýst síðar.

Alsherjaþing ICOM

Alsherjaþing ICOM verður haldið Ríó de Janeiro í Brasilíu dagana 10 – 17. ágúst 2013. Mikill áhugi er á þátttöku í þinginu af hálfu félaga í Íslandsdeild ICOM og vel á annan tug félaga hafa skráð sig eða lýst yfir áhuga á að taka þátt. Alls hafa 8 félagsmenn hafa fengið úthlutað úr Útgáfu- og ferðasjóði vegna þingsins, í síðustu 2 úthlutunum og jafnframt hefur stjórn sótt um styrk til höfuðstöðva ICOM í Frakklandi, fyrir 3 stjórnarmenn og  3 unga félaga.

Ferða- og útgáfusjóður – úthlutanir

Úthlutað var úr ferða og útgáfusjóði félagsins í byrjun febrúar 2013. Fjórar umsóknir bárust og var öllum umsækjendum veittur styrkur til að sækja alsherjaþing ICOM í Rio de Janeiro í sumar, samkvæmt auglýsingu, 50.000 kr. hverjum.

Auglýsing frá Ferða- og útgáfusjóði

Auglýst er eftir umsóknum í Ferða- og útgáfusjóð Íslandsdeildar ICOM. Frestur til að sækja um styrk rennur út þann 3. febrúar 2013. Í ár verða veittir allt að fjórir styrkir sem nema 50.000.- kr. hver.

Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til að sækja alþjóðlega fundi og ráðstefnur á vegum ICOM auk þess sem styðja má útgáfur á efni sem tengist faglegu starfi safna. Í ár verður lögð áhersla á að styrkja félagsmenn til að sækja allsherjarþing ICOM í Ríó de Janeiro í Brasilíu 10 – 17. ágúst 2013. Nánar um ráðstefnuna á heimasíðum alþjóðlegu fagdeildanna og á slóðinni: http://www.icomrio2013.org.br/

Umsóknum skal skila fyrir 3. febrúar og skal umsækjandi tilgreina hvaða ráðstefnu hann hyggst sækja eða gera grein fyrir fyrirhugaðri  útgáfu.   Umsækjandi þarf að vera fullgildur félagi og hafa staðið skil á félagsgjöldum síðustu tveggja ára (2012 0g 2013). Hægt er að sækja um vegna ráðstefna sem haldnar eru á árinu 2013.

Umsóknir skal senda í tölvupósti til ritara félagsins Guðbrands Benediktssonar fyrir 3. febrúar 2012.

Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér fundi og ráðstefnur á slóðinni icom.museum – skoða alþjóðadeildir og einnig viðburðadagatal.

Ólöf K. Sigurðardóttir, formaður Íslandsdeildar ICOM

Úthlutunarreglur Ferðasjóðs Íslandsdeildar ICOM – fyrir árið 2013:

 1. Veittir verða að hámarki 4 styrkir sem hver eru að uppæð kr. 50.000.-
 2. Styrkþegar skulu hafa greitt félagsgjöld 2012 og 2013
 3. Umsóknir um styrki til að sækja allsherjarþingið í RÍÓ í ágúst skulu njóta forgangs
 4. Félagsmenn sem ekki hafa sótt allsherjarþing skulu njóta forgangs
 5. Litið skal til þess hve lengi félagsmenn hafa verið í félaginu

 

Enn eldri fréttir

Erum við að gleyma einhverju?
Í tilefni alþjóðlega safnadagsins miðvikudaginn 18. maí 2011 mun Íslandsdeild ICOM í samstarfi við námsbraut í safnafræði við Háskóla Íslands standa fyrir málþingi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands frá kl. 14 til 16.

Yfirskrift dagsins er SÖFN OG MINNINGAR, en samband safna og minninga er margslungið. Söfn eiga þátt í að varðveita minningar einstaklinga og samfélaga, miðla þeim og móta. Heimildir sem söfn varðveita segja persónulegar jafnt sem samfélagslegar sögur og endurspegla þannig minningar um liðinn tíma um leið og þau afhjúpa afstöðu samtímans til fortíðarinnar.

Á málþinginu verða haldi erindi sem tengjast efninu hvert með sínum hætti. Fjórir meistaranemar í safnafræði greina umdeild dæmi úr safnaheiminum allt frá því þegar íslenskur listnemi olli fjaðrafoki í Royal Ontario Museum í Kanada og til þess þegar verk eftir myndlistarmanninn Richard Prince var fjarlægt af sýningu í Tate Modern í London. Framsögur flytja þau Arndís Bergsdóttir, Bergsveinn Þórsson, Heiða Björk Árnadóttir og Skúli Sæland.

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn að frumkvæði ICOM sem eru alþjóðleg samtök safnamann og er markmiðið að vekja athygli á mikilvægi safna í þróun samfélagsins. Dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur með ýmsum hætti frá árinu 1977 í meira en 100 löndum.

Aðalfundur Íslandsdeildar ICOM verður haldinn á Þjóðminjasafni Íslands fimmtudaginn 17. mars klukkan 16.00

Alþjóðlegi safnadagurinn 18. MAÍ 2011
Þann 18. maí ár hvert efnir ICOM til alþjóðlega safnadagsins til að leggja áherslu á mikilvægi safna í þróun samfélaga og vekja athygli á stafsemi þeirra. Að þessu sinni er yfirskrift dagsins Söfn og minningar. Söfn varðveita minningar og segja sögur. Þar eru varðveittir munir sem leggja grunn að sjálfsmynd þjóða og endurspegla bæði náttúru og menningararf. Í ár er alþjóðlegi safnadagurinn helgaður þessum minjum og minningum þeim tengdum og er hvatt til skoðunar og endurskoðunar á persónulegum jafnt sem sameiginlegum minningum. Í samvinnu við UNESCO verður sjónum beint að Afríku þar sem menningarlegt framlag álfunnar er í mörgum tilfellum óþekkt með öllu og verðskuldar að fá kynningu.

Um alþjóðlega safnadaginn

Allsherjarþing ICOM
Allsherjarþing ICOM var haldið í Shanghai dagana 7. til 12. nóvember 2010 undir yfirskriftinni Museums for Social Harmony. Að þessu sinni sóttu sex félagar Íslandsdeildarinnar þingið. Fyrir utan fundi og fyrirlestar allsherjarþingsins sátu þátttakendur einnig fundi í sínum fagdeildum. Þátttakendur munu segja frá ráðstefnunni á aðalfundi Íslandsdeildarinnar þann 17. mars.

Um þingið

haus_news
Ráðstefna ICOM/CECA 09:
Safnfræðsla í alþjóðlegu samhengi – áherslur og framkvæmd

ICOM/CECA heldur árlega ráðstefnu sína á Grand Hótel í Reykjavík 5. – 10. október 2009
Ráðstefnan er skipulögð í samráði við Íslandsdeild ICOM og Listasafn Íslands.

Það stefnir í góða þáttöku á ráðstefnunni og áhugaverða fyrirlestra.
Lykilfyrirlesarar þau: George E. Hein, Jocelyn Dodd og Ástráður Eysteinsson
Nánari upplýsingar er að finna á slóðunum:
http://ceca.icom.museum/
http://www.yourhost.is/titlar-atburda/ceca2009.html

Nánari upplýsingar veita:
Rakel Pétursdóttir, Listasafni Íslands, Fríkirkjuvegur 7, 101 Reykjavik, rakel@listasafn.is eða
Inga Sólnes, Gestamóttakan – Your Host in Iceland, yourhost@yourhost.is

Aðrar fréttir á pdf skjali:
CECA Europe News – Mars 2008
CECA Europe News – June 2008
CECA Europe News – October 2008
CECA Europe News – November 2008
Notes for contributors Ceca Europe News