Íslensk þýðing á eldri samþykktum ICOM

Samþykktir ICOM

Samþykktar á 18. allsherjarþingi ICOM í Stavanger í júlí 1995

1. grein – Nafn og réttarstaða

1. Alþjóðaráð safna (ICOM) er alþjóðleg og óháð samtök safna og faglærðra safnmanna, stofnuð til framdráttar safnfræðum og öðrum fræðum sem varða rekstur og starfsemi safna.

2. Í ICOM starfa meðlimir samtakanna saman í þjóðdeildum, alþjóðlegum nefndum og tengdum og svæðisbundnum samtökum, og njóta til þess aðstoðar aðalskrifstofunnar.

3. Allsherjarþing ICOM ákveður hvar skrifstofa og aðalskrifstofa ICOM skuli hafa aðsetur, að fengnu samþykki Unesco (Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna). ICOM ber að gera nauðsynlegar og viðeigandi ráðstafanir til að afla sér þeirra sérréttinda og styrkja sem standa þeim til boða samkvæmt lögum þess lands sem hýsir skráða skrifstofu og aðalskrifstofu ICOM.

2. grein – Skýrgreiningar

1. Safn er varanleg stofnun opin almenningi, sem ekki er rekin í hagnaðarskyni heldur í þágu þjóðfélags og framþróunar og hefur það hlutverk að safna efnislegum heimildum sem snerta manninn og umhverfi hans, standa vörð um þær, rannsaka þær, miðla upplýsingum um þær og hafa þær til sýnis, svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.

(a) Nota skal ofangreinda skýrgreiningu á safni, án þess að þrengja hana á nokkurn hátt með tilliti til þeirrar stjórnar sem safnið lýtur, svæðisbundinna sérkenna, hagnýtingar þess eða þeirrar söfnunarlegu sérhæfingar sem það ástundar.

(b) Til viðbótar þeim stofnunum sem bera heitið „söfn“, falla eftirfarandi stofnanir eða fyrirbæri einnig undir þá skýrgreiningu:

(i) náttúruminjar, fornminjar og þjóðminjar og svæði af sama toga og sögulegar minjar og svæði sem teljast safnígildi enda safni þau efnislegum heimildum um manninn og umhverfi hans, standi vörð um þær og miðli upplýsingum um þær;

(ii) stofnanir sem safna lifandi plöntum og dýrum og hafa þau til sýnis, til dæmis grasagarðar, dýragarðar, lagardýrasöfn og staðir þar sem lifandi dýr eru til sýnis í eftirlíkingu af eðlilegu umhverfi sínu;

(iii) vísindamiðstöðvar og stjörnuver;

(iv) stofnanir helgaðar forvörslu muna og sýningarstaðir á vegum bóka- og skjalasafna;

(v) þjóðgarðar;

(vi) alþjóðleg, þjóðleg, svæðisbundin eða staðbundin samtök safna, svo og ráðuneyti eða opinberir aðilar sem bera ábyrgð á söfnum í samræmi við skýrgreiningu þessarar greinar;

(vii) stofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni eða samtök sem annast rannsóknir, fræðslustarfsemi, starfsþjálfun, heimildasöfnun og aðra starfsemi sem tengist söfnum og safnfræðum;

(viii) aðrar stofnanir sem framkvæmdaráð, að höfðu samráði við ráðgjafarnefnd samtakanna, telur gegna safnhlutverki að einhverju eða öllu leyti eða styðja við starfsemi safna og safnmanna með safnfræðilegum rannsóknum, fræðslustarfsemi eða starfsþjálfun.

2. Faglærðir safnmenn telst allt það fólk sem starfar við söfn eða stofnanir sem falla undir þá skýrgreiningu á söfnum sem reifuð er í 1. tölul. 2. gr., enda hafi það hlotið sérhæfða starfsþjálfun eða öðlast sambærilega starfsreynslu á einhverju sviði sem varðar rekstur og starfsemi safna, og sjálfstæðir aðilar sem hafa í heiðri siðareglur ICOM og starfa fyrir söfn eins og hér hefur verið lýst, ýmist sem fagmenn eða ráðgjafar, en tengjast ekki á neinn hátt kynningu á eða viðskiptum með varning eða búnað sem notaður er í safnrekstri.

3. Lögmætur félagi í ICOM er einstaklingur eða stofnun sem staðið hefur skil á árgjöldum (sem og uppsöfnuðum skuldum) fyrir 1. apríl á því ári sem árgjöld taka til.

4. Land er sjálfsstjórnarríki sem er meðlimur í Sameinuðu þjóðunum eða einhverjum sérhæfðra stofnana þeirra eða Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni eða á aðild að samþykktum Alþjóðadómstólsins.

3. grein – Markmið og valdsvið ICOM

1. Markmið ICOM eru:

(a) að stuðla að og styðja stofnsetningu, þróun og faglegan rekstur safna af öllu tagi;

(b) að auka á upplýsingu um og skilning á eðli, starfsemi og hlutverki safna í þágu þjóðfélags og framþróunar;

(c) að koma á samvinnu og gagnkvæmri samhjálp safna og meðal faglærðra safnmanna víða um heim;

(d) að vera fulltrúi og bakhjarl faglærðra safnmanna og framkvæmdaaðili í málum sem varða hagsmuni þeirra;

(e) að efla og útbreiða þekkingu um safnfræði og önnur fræði sem varða safnstjórnun og -starfsemi.

2. Til að ná fram þessum markmiðum ber ICOM að beita öllum löglegum, hentugum og nauðsynlegum aðferðum sem gera samtökunum kleift að framkvæma áðurnefnd ætlunarverk sín.

4. grein – Tungumál

1.Enska og franska skulu vera opinber og jafnrétthá tungumál ICOM. Hver félagi getur notað hvort tungumálið sem er á alþjóðlegum fundum ICOM.

2. Allsherjarþingi er heimilt að samþykkja notkun á fleiri opinberum tungumálum svo fremi félagar í samtökunum beri þann kostnað sem af hlýst.

5. grein – Tengsl við önnur samtök

1. ICOM ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma á og viðhalda ráðgefandi og faglegum tengslum við Unesco. ICOM er einnig heimilt að koma á gagnkvæmum samskiptum við önnur alþjóðleg samtök (þ. á m. Hagfræði- og félagsvísindanefnd Sameinuðu þjóðanna, ICOMOS, ICCROM) eftir því sem talið er við eiga á hverjum tíma.

2. Heimilt er að bjóða fulltrúum alþjóðlegra samtaka, sem ICOM hefur tekið upp samskipti við, að eiga fulltrúa á allsherjarþingi ICOM.

3. Komi fram sérstök ósk frá forseta varðandi tiltekin samtök, ber aðalritara að:

(a) semja um gagnkvæm samskipti við þau; og

(b) leggja skilmála varðandi slík samskipti fyrir framkvæmdaráð og ráðgjafarnefnd til samþykktar.

6. grein – Flokkun aðildar

1. Aðild að ICOM er flokkuð með eftirfarandi hætti:

(a) einstaklingar

(b) stofnanir

(c) aukafélagar

(d) heiðursfélagar Flokkun aðildar skal ákvörðuð í samræmi við 7. gr. (einstaklingar, stofnanir og aukafélagar) og 8. gr. (heiðursfélagar).

2. Einstaklingsaðild hljóta þeir sem eru ýmist:

(a) í fullu starfi eða hlutastarfi sem faglærðir safnmenn, samkvæmt skilgreiningu í 2. tölul. 2. gr. þessara samþykkta;

(b) faglærðir safnmenn sem hafa látið af störfum;

(c) aðrir einstaklingar sem í krafti reynslu sinnar eða faglegrar þjónustu við ICOM eða tiltekna áætlun ICOM, þjóðdeild eða alþjóðlega nefnd, eru taldir verðskulda aðild að ICOM, svo fremi þeir séu ekki fleiri en tíundi hluti tiltekinnar þjóðdeildar.

3. Stofnanaaðild hljóta söfn eða aðrar stofnanir sem falla undir þá skýrgreiningu safna sem sett er fram er í 1. tölul. 2. gr. í þessum samþykktum, eða samtök sem hafa söfn innan sinna vébanda eða söfn eru á einhvern hátt háð.

4. Aukafélagar eru einstaklingar eða stofnanir sem styðja ICOM og markmið þess vegna áhuga á söfnum og alþjóðlegri samvinnu safna.

5. Heiðursfélagar eru einstaklingar sem innt hafa af hendi einstæða þjónustu við alþjóðlegan málstað safnstarfsemi eða ICOM.

7. grein – Umsóknir um aðild

1. Að heiðursfélögum undanskildum skulu einstaklingar eða stofnanir sem æskja aðildar að ICOM leggja inn skriflegar umsóknir samkvæmt fyrirmælum í reglum er varða þá aðild sem um er að ræða.

2. Umsóknir einstaklinga, stofnana og aukafélaga ber að senda aðalritara eða þjóðdeild í heimalandi umsækjanda (sé slík nefnd til staðar). Aðalritari leggur umsóknir, sem honum berast, fyrir viðeigandi þjóðdeild, þar sem hún er til staðar. Einstaklingar sem sækja um aðild á grundvelli c-liðar 2. tölul. 6. gr. skulu leggja inn meðmæli með umsókn sinni.

3. Viðkomandi þjóðdeild ber að taka allar umsóknir til afgreiðslu og eingöngu samþykkja þær eða hafna þeim á grundvelli þeirra forsendna sem settar eru fram í 2., 3. og 4. tölul. 6. gr. án þess að gera upp á milli þeirra á nokkurn hátt, nema þar sem ákvæði 5. tölul. þessarar greinar eiga við.

4. Sé engin þjóðdeild til staðar í því landi þar sem umsækjandi hefur fasta búsetu, ber að vísa umsókn hans til framkvæmdaráðs til afgreiðslu.

5. Einstaklingar eða stofnanir (að starfsmönnum þeirra meðtöldum) sem versla með (kaupa eða selja í hagnaðarskyni) menningarverðmæti, þar með talin hvers konar listaverk eða sýnishorn af náttúrulegum eða vísindalegum toga, skulu undir engum kringumstæðum hljóta aðild að ICOM. Taka ber fyllsta tillit til löggjafar í hverju landi, svo og viðurkenndra alþjóðlegra samþykkta. Einnig skulu útilokaðir frá aðild þeir einstaklingar eða stofnanir sem hafa með höndum starfsemi sem gæti leitt til hagsmunaárekstra.

6. Um leið og umsókn hefur hlotið samþykki og greitt hefur verið árgjald sem þjóðdeild (eða framkvæmdaráð, eftir því sem við á) hefur ákvarðað, nýtur umsækjandi allra þeirra réttinda sem aðildinni fylgja.

7. Um leið og þjóðdeild hefur samþykkt aðild nýrra félaga, skulu nöfn þeirra, ásamt afritum af umsóknum þeirra og árgjöld fyrir yfirstandandi ár send aðalskrifstofu ICOM eins fljótt og auðið er.

8. Um leið og aðalskrifstofa ICOM hefur móttekið upplýsingar um aðild nýrra félaga og árgjöld fyrir yfirstandandi reikningsár, ber henni við fyrsta tækifæri að senda nýjum félögum skírteini sem staðfestir aðild þeirra að samtökunum og upplýsingar um aðra þá þjónustu sem félögum stendur til boða.

9. Hafni þjóðdeild umsókn um aðild að ICOM, er umsækjanda frjálst að fara fram á endurskoðun þeirrar ákvörðunar við framkvæmdaráð. Skriflegar beiðnir um endurskoðun skal senda aðalritara, sem skal leita sér frekari upplýsinga eftir því sem ástæða virðist til áður en hann leggur málið fyrir framkvæmdaráð til úrskurðar. Úrskurður framkvæmdaráðs er endanlegur og verður ekki áfrýjað.

8. grein – Heiðursfélagar

1. Allsherjarþing tilnefnir til heiðursfélaga, að fenginni samhljóða tillögu framkvæmdaráðs, einstaklinga sem tilnefndir eru af formönnum þjóðdeilda, formönnum alþjóðlegra nefnda eða meðlimum framkvæmdaráðs. Tilnefningum skulu fylgja helstu upplýsingar um eðli þeirrar einstæðu þjónustu sem lögð er til grundvallar tilnefningunni.

2. Heiðursfélagar eru tilnefndir til lífstíðar og eru undanþegnir árgjöldum. Heiðursfélagar skulu aldrei vera fleiri en tuttugu á hverjum tíma.

9. grein – Úrsögn úr samtökunum

1. Einstaklingar eða stofnanir segja sig úr samtökunum með eftirfarandi hætti:

(a) með skriflegri úrsögn;

(b) með því að láta hjá líða að greiða árgjald innan árs frá gjalddaga þrátt fyrir að send hafi verið skrifleg tilkynning um skuldina í almennum pósti;

(c) félagsmaður fullnægir ekki lengur skilyrðum um aðild að ICOM, ef hann skiptir um starfsvettvang.

(d) með því að framkvæmdaráð, að tilhlutan þjóðdeildar, alþjóðlegrar nefndar, eða í undantekningartilfellum að eigin frumkvæði, ógildir aðild einstaklings eða stofnunar vegna alvarlegra ávirðinga sem varða við faglegar siðareglur eða gjörninga sem brjóta að verulegu leyti í bág við markmið ICOM.

10. grein – Árgjöld

1. Einstaklingar, stofnanir og aukafélagar í ICOM skulu inna af hendi árgjald sem ákvarðað er árlega af framkvæmdaráði samkvæmt g-lið 1. tölul. 22. gr.

2. Árgjaldið gildir fyrir almanaksárið (1. janúar til 31. desember) og fellur í gjalddaga ekki síðar en 1. apríl ár hvert og skal greiðast til þjóðdeildar í heimalandi félaga, eða til aðalskrifstofu, sé engin þjóðdeild til staðar.

11. grein – Réttindi félaga

1. Þeir einstaklingar, stofnanir og aukafélagar, sem eru lögmætir félagar, eiga rétt á eftirfarandi:

(a) að sækja og taka þátt í aðalráðstefnu ICOM;

(b) að sækja og taka þátt í allsherjarþingi ICOM;

(c) að taka þátt í starfi þjóðdeildar í heimalandi sínu;

(d) að taka þátt í starfi alþjóðlegra nefnda að eigin vali;

(e) að fá þau fréttabréf og rit sem send eru félögum ókeypis;

(f) að nota sér þjónustu Upplýsingamiðstöðvar Unesco-ICOM um safnmál. (Ráðgjafarnefnd ICOM samþykkti (á 47. fundi sínum), ásamt framkvæmdaráði (á 71. fundi þess) í júlí 1990 að breyta nafninu Heimildamiðstöð Unesco-ICOM í Upplýsingamiðstöð Unesco-ICOM um safnmál);

(g) að fá félagsskírteini ICOM og árlegan límmiða um leið og árgjald fyrir hvert reikningsár hefur verið innt af hendi (þrjú skírteini og þrjá límmiða ef stofnun á í hlut).

2. Einstaklingar með lögmæta aðild geta boðið sig fram til eftirtaldinna embætta:

(a) formennsku í ráðgjafarnefnd;

(b) forseta ICOM eða setu í framkvæmdaráði;

(c) formennsku eða setu í stjórnum allra þeirra nefnda, þjóðdeilda jafnt sem alþjóðlegra nefnda, þar sem þeir eru atkvæðisbærir félagar samkvæmt 1. og 2. tölul. 12. gr.;

(d) formennsku eða setu í sérhverri stjórn svæðisbundinna samtaka sem þjóðdeild þeirra á aðild að.

3. Stofnanir með lögmæta aðild geta tilnefnt faglærða safnmenn til að fara með atkvæði sín í þjóðdeildum og alþjóðlegum nefndum sem þær eiga aðild að, sem og á aðalráðstefnu og allsherjarþingi. Þeir fulltrúar þurfa ekki að eiga einstaklingsaðild að ICOM. Skrifleg tilkynning, undirrituð af forsvarsmanni þeirrar stofnunar sem um ræðir, skal send formönnum nefnda eða aðalritara, eftir því sem við á. Fulltrúar tilnefndir af stofnunum geta boðið sig fram til eftirtalinna embætta:

(a) forseta ICOM eða setu í framkvæmdaráði;

(b) formennsku eða setu í stjórnum allra þeirra nefnda, þjóðdeilda jafnt sem alþjóðlegra nefnda, þar sem þeir eru atkvæðisbærir félagar samkvæmt 1. og 2. tölul. 12. gr.;

(c) formennsku eða setu í sérhverri stjórn svæðisbundinna samtaka sem þjóðdeild þeirra á aðild að.

4. Aukafélagar mega ekki gegna embættum innan ICOM.

5. Heiðursfélagar eiga kost á sömu réttindum og fríðindum sem tilgreind eru í 1. tölul. þessarar greinar, að því undanskildu að þeir fá félagsskírteini ICOM og límmiða endurgjaldslaust. Heiðursfélagar mega ekki gegna embættum innan ICOM.

12. grein – Atkvæðisréttur

1. Einstaklingar og stofnanir með lögmæta aðild að þjóðdeild, greiða eitt atkvæði í nefndinni. Tilnefndur fulltrúi stofnunar greiðir atkvæði fyrir hönd hennar. Skoðanir einstaklings eða atkvæði hans eru ekki bindandi fyrir þá stofnun eða stjórn sem hann tilheyrir.

2. Einstaklingur eða stofnun með lögmæta aðild mega greiða eitt atkvæði í einni alþjóðlegri nefnd. Um leið og félagi tekur sæti í alþjóðlegri nefnd skal hann gefa til kynna hvort hann sækist eftir atkvæðisrétti innan nefndarinnar. Öllum umsóknum um atkvæðisrétt í alþjóðlegri nefnd ber að vísa til aðalritara, sem skal votta að umsækjandinn hafi ekki gildan atkvæðisrétt í annarri alþjóðlegri nefnd. Tilnefndur fulltrúi stofnunar greiðir atkvæði fyrir hönd hennar. Einstaklingur eða stofnun sem hefur atkvæðisrétt í alþjóðlegri nefnd en er ófær um að sækja fund nefndarinnar, getur tilnefnt annan félaga með atkvæðisrétt í nefndinni til að fara með atkvæði hans á fundinum.

3. Einstaklingur eða stofnun með lögmæta aðild getur greitt eitt atkvæði á aðalráðstefnu ICOM. Tilnefndur fulltrúi stofnunar greiðir einn atkvæði fyrir hönd hennar. Enginn sem skráður er til fundarins fer með fleiri en eitt atkvæði.

4. Atkvæðisréttur einstaklinga og stofnana á allsherjarþingi er skilgreindur í 6. tölul. 19. gr. og 27. gr. segir fyrir um kosningar til framkvæmdaráðs.

5. Aukafélagar og heiðursfélagar hafa ekki atkvæðisrétt nema á aðalráðstefnu ICOM, að því tilskildu að þeir hafi verið skráðir til fundarins sem einstaklingar.

13. grein – Einingar ICOM

1. Eftirfarandi einingar eru uppistaða ICOM:

(a) þjóðdeildir

(b) svæðisbundin samtök

(c) landsfulltrúar

(d) alþjóðlegar nefndir

(e) tengd samtök

(f) allsherjarþing

(g) aðalráðstefna

(h) ráðgjafarnefnd

(i) framkvæmdaráð

(j) aðalskrifstofa

(k) Upplýsingamiðstöð Unesco-ICOM um safnamál

(l) ICOM-stofnunin

14. grein – Þjóðdeildir

1. Þjóðdeildirnar eru grunneiningar ICOM og helsti vettvangur samskipta milli ICOM og félaga þess. Þjóðdeild gætir hagsmuna ICOM í hverju landi, tryggir hagsmuni félaga gagnvart ICOM, þ.á m. í faglegum málefnum sem þjóðdeildin annast, og tekur þátt í að hrinda áætlunum ICOM í framkvæmd.

2. Þjóðdeild miðlar upplýsingum milli félaga og höfuðstöðva ICOM og er einkum ætlað að:

(a) hvetja faglærða safnmenn og söfn í landi sínu til að gerast félagar í ICOM;

(b) veita ráðgjafarnefnd, framkvæmdaráði og aðalritara ráðleggingar viðkomandi öllu sem snertir ICOM og áætlanir þess;

(c) taka til afgreiðslu umsóknir einstaklinga, stofnana og aukafélaga um aðild að ICOM og senda þær áleiðis til aðalskrifstofu;

(d) tilnefna atkvæðisbæra félaga til að kjósa um frambjóðendur til framkvæmdaráðs og til að greiða atkvæði á allsherjarþingum;

(e) taka saman ársskýrslu um starfsemi sína á undangengnu almanaksári og senda hana til framkvæmdaráðs og ráðgjafarnefndar;

(f) innheimta árgjöld fyrir hönd ICOM og senda þau til aðalskrifstofu.

3. Í þjóðdeild skulu vera allir félagar í ICOM sem búsettir eru í því landi þar sem framkvæmdaráð hefur stofnað nefndina. Þjóðdeildin setur sér starfsreglur, sem ekki skulu stangast á við þær fyrirmyndir að starfsreglum fyrir þjóðdeildir sem tilgreindar eru í þessum samþykktum.

4. Sé engin þjóðdeild til staðar í tilteknu landi, má einstaklingur í sama landi, að fengnu samþykki þjóðdeildar í öðru landi og með samþykki framkvæmdaráðs, gerast félagi í þeirri nefnd og taka þátt í starfi hennar sem væri hann búsettur í því landi. Þessari aðild lýkur sjálfkrafa um leið og félagar í heimalandi einstaklingsins verða fimm að tölu.

5. Framkvæmdaráð getur sett á fót þjóðdeild í tilteknu landi um leið og skrifleg beiðni um slíkt berst aðalritara, undirrituð af a.m.k. fimm einstaklingum eða stofnunum með aðild að ICOM, sem búsetu hafa í landinu.

6. Um leið og slík beiðni berst aðalritara ber honum að kynna hana öllum félögum í ICOM sem búsettir eru í viðkomandi landi og veita þeim 30 daga ráðrúm til að koma á framfæri athugasemdum um beiðnina. Aðalritara ber síðan að senda beiðnina, ásamt athugasemdum ICOM félaga sem búsettir eru í landinu, til framkvæmdaráðs sem tekur hana til afgreiðslu.

7. Ákveði framkvæmdaráð að setja á fót þjóðdeild, ber aðalritara að tilkynna það öllum ICOM félögum sem búsettir eru í viðkomandi landi og tilnefna einn þeirra til að kalla til fyrsta fundar þjóðdeildar og stjórna honum, en á þeim fundi ber að kjósa formann og framkvæmdastjórn og samþykkja starfsreglur.

8. Sá sem kjörinn er til að fara með fundarstjórn á fyrsta fundi skal senda fundargerð til aðalritara við fyrstu hentugleika, svo og afrit af starfsreglum ásamt nöfnum og heimilisföngum fram-kvæmdastjórnarmanna.

9. Þar sem þjóðdeild er ekki til staðar geta heildarsamtök safna og faglærðra safnmanna í landinu farið skriflega fram á það við aðalritara að fá að breyta sér í þjóðdeild ICOM í því landi. Heimild til þess veitir framkvæmdaráð. Heimildin er því aðeins veitt ef sýnt þykir að umrædd samtök séu með hátt hlutfall ICOM félaga innan sinna vébanda, og að lög umræddra samtaka stangist hvorki á við samþykktir ICOM né fyrirmyndir að starfsreglum fyrir þjóðdeildir sem tilgreindar eru í þessum samþykktum.

10. Sérhver þjóðdeild kýs sér formann og framkvæmdastjórn, þó ekki færri en 4 menn (að formanni meðtöldum). Engum manni er heimilt að sitja lengur en sex ár samfellt í framkvæmdastjórn, nema hann sé í framhaldi af því kosinn formaður eða varaformaður. Engum manni er heimilt að gegna embætti formanns eða varaformanns lengur en sex ár samfellt.

11. Formaður sérhverrar þjóðdeildar skal senda afrit af ársskýrslu nefndarinnar fyrir undangengið ár til aðalritara, sem leggur hana fyrir aðalfund ráðgjafarnefndar og framkvæmdaráðs. Ársskýrslan skal berast aðalritara minnst sex vikum fyrir auglýstan ársfund.

12. Sérhver þjóðdeild skal efna til aðalfundar minnst einu sinni á ári þar sem framkvæmdastjórn leggur ársskýrslu með upplýsingum um starfsemi og fjárreiður sínar fyrir félaga og á þeim fundi skal yfirfara og afgreiða áætlanir nefndarinnar.

13. Framkvæmdastjórn skal tilnefna einstaklinga til að fara með atkvæði nefndarinnar í kosningum til framkvæmdaráðs og á allsherjarþingi.

14. Sérhver þjóðdeild skal koma á tengslum við landsnefnd Unesco ( þar sem hún er til staðar) í landi sínu.

15. Sérhver þjóðdeild skal gera sitt ítrasta til að koma á tengslum við heildarsamtök faglærðra safnmanna í landi sínu.

16. Framkvæmdaráð getur ákveðið að fella úr gildi réttindi þjóðdeildar, sem tilgreind eru í þessum samþykktum, telji ráðið að nefndin sé ekki lengur virk.

17. Framkvæmdaráð getur ákveðið að afturkalla viðurkenningu sína á tiltekinni þjóðdeild:

(a) hafi ráðið fengið skriflega beiðni um slíkan gjörning, studda þremur fjórðu nefndarmanna, eða

(b) hafi ráðið fengið sannfærandi sönnunargögn (og ráðfært sig við nefndina) um að tiltekin þjóðdeild hafi brotið alvarlega í bág við samþykktir eða siðareglur ICOM og hafi ekki leitast við að bæta úr misgerðum sínum, þrátt fyrir ítrekaðar áminningar um að nefndin kunni að tapa réttindum sínum haldi hún uppteknum hætti.

18. Þjóðdeild, sem vikið hefur verið úr ICOM um tíma, getur tekið til starfa á ný, fái hún til þess heimild frá framkvæmdaráði, sem telur sig þá hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um farsælar lyktir þeirra vandamála sem leiddu til hins tímabundna brottrekstrar úr ICOM og að hún geti hafið störf á ný með eðlilegum hætti.

15. grein – Svæðisbundin samtök

1. Fái framkvæmdaráð um það beiðni, studda meðmælum ráðgjafarnefndar, frá þremur eða fleiri þjóðdeildum á tilteknu landsvæði, getur það samþykkt stofnun svæðisbundinna samtaka ICOM. Svæðisbundin samtök af því tagi skulu kallast ICOM, og þar til viðbótar skal koma viðtekið heiti þess landsvæðis sem um er að ræða, t.d. ICOM – Asía og Kyrrahafssvæði.

2. Þjóðdeildir geta sótt um aðild að svæðisbundnum samtökum í heimshluta sínum. Umsókn þjóðdeildar um aðild að svæðisbundnum samtökum ICOM ber að leggja fyrir framkvæmdaráð, sem afgreiðir hana að höfðu samráði við félaga eða stofnfélaga samtakanna og ráðgjafarnefnd.

3. Svæðisbundin samtök ICOM hafa að markmiði að vera vettvangur upplýsingamiðlunar og samvinnu þjóðdeildar, safna og faglærðra safnmanna á því svæði sem samtökin taka til. Á eigin kostnað geta þessir aðilar skipulagt ráðstefnur, gefið út fréttabréf eða önnur rit og framkvæmt hvaðeina sem nauðsynlegt eða hentugt þykir til að koma markmiðum þeirra fram.

4. Framkvæmdastjórn, kosin af félögum á fundi, skal fara með stjórn svæðisbundinna samtaka ICOM. Sérhver þjóðdeild greiðir eitt atkvæði á fundinum, eigi hún fulltrúa þar. Í framkvæmdastjórn skulu vera formaður og minnst þrír aðrir félagar. Sérhver meðlimur í framkvæmdaráði sem búsettur er á svæðinu, forseti ICOM og formaður ráðgjafarnefndar skulu í krafti embætta sinna sitja í framkvæmdastjórninni. Forseti ICOM eða tilnefndur staðgengill hans skal hafa umsjón með kosningu fyrstu framkvæmdastjórnar nýstofnaðra svæðisbundinna samtaka. Engum manni er heimilt að sitja lengur en sex ár samfleytt í framkvæmdastjórn, nema hann sé kosinn formaður í beinu framhaldi af stjórnarsetu sinni. Engum manni er heimilt að gegna formennsku lengur en sex ár samfleytt.

5. Svæðisbundin samtök ICOM skulu setja sér starfsreglur sem ekki skulu stangast á við þær reglur um starfsemi svæðisbundinna samtaka sem framkvæmdaráð mælir fyrir um í 28. gr. þessara samþykkta.

6. Að fengnu samþykki framkvæmdaráðs er aðalritara heimilt að veita svæðisbundnum samtökum alla þá aðstoð við að skipuleggja starfsemi sína sem hæfa þykir. Honum er meðal annars heimilt að skipa fulltrúa af aðalskrifstofu ICOM, eða aðila sem búsettur er á svæðinu, til að taka að sér framkvæmdastjórn svæðisbundinna samtaka. Framkvæmdastjórinn er ábyrgur gagnvart framkvæmdastjórn hinna svæðisbundnu samtaka sem eru svo aftur ábyrg fyrir þeim kostnaði sem stofnað er til.

7. Að tilhlutan ráðgjafarnefndar getur framkvæmdaráð leyst upp svæðisbundin samtök eða vikið þeim úr ICOM um tíma, fyrir eftirtaldar sakir:

(a) svæðisbundin samtök á tilteknu svæði eru ekki nægilega virk til að það svari kostnaði að halda þeim gangandi;

(b) starfsemi samtakanna er engin eða ófullnægjandi;

(c) framkvæmdir samtakanna brjóta alvarlega í bág við samþykktir eða siðareglur ICOM.

8. Svæðisbundin samtök sem vikið hefur verið úr ICOM um tíma, geta tekið til starfa á ný, fái þau til þess heimild frá framkvæmdaráði, sem telur sig þá hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um farsæla lausn þeirra vandamála sem leiddu til hinnar tímabundnu brottvikningar, og að samtökin geti hafið störf á ný með eðlilegum hætti.

16. grein – Landsfulltrúar

1. Sé félaga í ICOM að finna í landi þar sem engin þjóðdeild er til staðar, er framkvæmdaráði heimilt að tilnefna félaga í ICOM sem búsettur er í umræddu landi til að vera landsfulltrúi þess. Skal hann vera fulltrúi félaga í ICOM í því landi á allsherjarþingi og er heimilt að sitja sem áheyrnarfulltrúi á fundum ráðgjafarnefndar og allra svæðisbundinna samtaka sem fyrirfinnast í þeim heimshluta sem land hans tilheyrir. Landsfulltrúi hefur ekki atkvæðisrétt á allsherjarþingi né í kosningum til framkvæmdaráðs.

17. grein – Alþjóðlegar nefndir

1. Alþjóðlegu nefndirnar eru helsti vettvangur þess starfs sem ICOM innir af hendi, jafnt inn á við sem út á við. Þær starfa alfarið á faglegum grundvelli.

2. Alþjóðleg nefnd skal vera vettvangur samskipta ICOM-félaga með svipuð fagleg áhugamál og sjá til þess að koma þeim áhugamálum á framfæri við ICOM. Í verkahring alþjóðlegrar nefndar er einkum:

(a) að þróa og hrinda í framkvæmd áætlunum ICOM og þeirri starfsemi sem alþjóðlegu nefndunum er sérstaklega ætlað að sjá um;

(b) að tilnefna fulltrúa sem kjósa eiga til framkvæmdaráðs og greiða atkvæði á allsherjarþingi;

(c) að senda ársskýrslu um starf nefndarinnar á undangengnu starfsári til framkvæmdaráðs og ráðgjafarnefndar;

(d) að veita ráðgjafarnefnd, framkvæmdaráði og aðalritara ráðleggingar viðkomandi öllu sem snertir ICOM og áætlanir þess.

3. Framkvæmdaráði er heimilt að setja á fót alþjóðlega nefnd með umboð sem tekur til ákveðins þáttar í safnfræðum, stefnumörkun og starfsháttum safna, eða til einnar eða fleiri sérgreina eða starfsgreina á sviði safnstjórnunar og -starfsemi. Framkvæmdaráði ber að leita álits ráðgjafarnefndar áður en hún setur á fót nýja alþjóðlega nefnd. Framkvæmdaráðið eitt getur ákveðið verksvið alþjóðlegrar nefndar og skorið úr um það hvort umboð alþjóðlegra nefnda skarist eða taki til sömu starfsemi ef ágreiningur um slíkt kemur upp.

4. Nefndarmenn í alþjóðlegri nefnd eru einstaklingar með lögmæta aðild að ICOM eða tilnefndir fulltrúar stofnana sem mælast til aðildar að nefndinni. Nefndin kýs sér formann og framkvæmdastjórn sem setur sér starfsreglur er ekki skulu stangast á við þær reglur um starfsemi alþjóðlegra nefnda sem mælt er fyrir um í þessum samþykktum og stýrir sinni eigin starfsemi. Starfsemi þeirra tekur til:

(a) fundarhalda;

(b) gerð fréttabréfa og annarra dreifirita;

(c) umfjöllunar mála með bréfaskiptum;

(d) samstarfs við önnur stéttarsamtök. Engum manni er heimilt að sitja lengur en sex ár samfleytt í framkvæmdastjórn alþjóðlegrar nefndar, nema hann sé í framhaldi af því kosinn formaður eða varaformaður hennar. Engum manni er heimilt að gegna embætti formanns eða varaformanns lengur en sex ár samfleytt.

5. Framkvæmdaráði er heimilt að setja á fót alþjóðlega nefnd að eigin frumkvæði, eða eftir að aðalritara hefur borist skrifleg tillaga, undirrituð af minnst tíu ICOM-félögum, þar sem verksvið slíkrar nefndar er tilgreint í meginatriðum og röksemdir fyrir stofnun hennar tíundaðar. Þegar framkvæmdaráð ákveður að setja á fót nýja alþjóðlega nefnd, eða þegar áðurnefnd tillaga kemur fram, ber aðalritara að tilkynna það öllum formönnum annarra alþjóðlegra nefnda, svo og öllum tengdum samtökum, og óska eftir athugasemdum þeirra við tillöguna innan sextíu daga. Að sextíu dögum liðnum ber aðalritara að senda ráðgjafarnefnd tillöguna til umsagnar ásamt tilheyrandi athugasemdum ef einhverjar eru.

6. Aðalritara ber að leggja tillöguna, ásamt athugasemdum formanna alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka og umsögn ráðgjafarnefndar, fyrir framkvæmdaráð til afgreiðslu. Ákveði framkvæmdaráð að setja á stofn nýja alþjóðlega nefnd, ber aðalritara að tilkynna aðstandendum tillögunnar um ákvörðun ráðsins og tilnefna mann til að kalla saman og stjórna fyrsta fundi nefndarinnar þar sem kjósa skal formann og framkvæmdastjórn og samþykkja starfsreglur sem ekki skulu brjóta í bága við þær fyrirmyndir að reglum um starfsemi alþjóðlegra nefnda sem mælt er fyrir um í þessum samþykktum. Formaður, kjörinn á fyrsta fundi alþjóðlegrar nefndar, skal senda fundargerð fyrsta fundar til aðalritara við fyrsta tækifæri, ásamt afriti af þeim starfsreglum sem nefndin hefur samþykkt og nöfnum og heimilisföngum framkvæmdastjórnarmanna.

7. Aðalritara ber að upplýsa ICOM-félaga um stofnun nýrrar alþjóðlegrar nefndar, um umboð hennar og nöfn og heimilisföng stofnenda um leið og því verður við komið að stofnfundi loknum. Í framhaldi af því skal sérhver lögmætur félagi í ICOM eiga rétt á að ganga í nefndina og getur farið fram á atkvæðisrétt í henni í samræmi við 2. tölul. 12. gr.

8. Einungis einstaklingar og tilnefndir fulltrúar stofnana með atkvæðisrétt í alþjóðlegri nefnd geta greitt atkvæði um mál sem koma fyrir nefndina, boðið sig fram til formennsku eða stjórnarsetu í nefndinni eða hlotið tilnefningu til að fara með atkvæði nefndarinnar í kjöri til framkvæmdaráðs eða á allsherjarþingi.

9. Alþjóðleg nefnd skal að öllu jöfnu efna til allsherjarfundar einu sinni á ári hið minnsta, á sömu árum og allsherjarþing er haldið og á sama stað og tíma og allsherjarþingið. Að fengnum tilmælum frá aðalritara ber stjórn alþjóðlegrar nefndar að tilnefna fimm menn til að fara með atkvæði nefndarinnar á allsherjarþingum og í kosningum til framkvæmdaráðs, hvort sem það eru einstaklingar með lögmæta aðild eða lögmætir fulltrúar stofnana innan ICOM. Formaður alþjóðlegrar nefndar skal leggja ársskýrslu um starfsemi nefndarinnar á undangengnu almanaksári fyrir aðalritara, sem leggur hana fyrir aðalfund ráðgjafarnefndar og framkvæmdaráðs. Ársskýrslan skal berast aðalritara minnst sex vikum fyrir auglýstan ársfund.

10. Hyggist alþjóðleg nefnd efna til fundar í tilteknu landi ber formanni hennar að tilkynna það formanni þjóðdeildar í því landi.

11. Alþjóðleg nefnd getur sett á laggir vinnuhópa sem hún telur nauðsynlega til að framfylgja umboði sínu.

12. Framkvæmdaráð getur leyst upp eða vikið alþjóðlegri nefnd frá um stundarsakir, að fengnum tilmælum ráðgjafarnefndar, af eftirfarandi ástæðum:

(a) félagar eru of fáir til að hægt sé að réttlæta áframhaldandi starfsemi;

(b) starfsemi er ýmist engin eða ófullnægjandi;

(c) ítrekaðar tafir á þróun og framkvæmd markmiða;

(d) hlutverki nefndarinnar er lokið;

(e) starfsemi nefndar brýtur í bág við samþykktir eða siðareglur ICOM. 13. Alþjóðleg nefnd, sem vikið hefur verið úr ICOM um tíma, getur tekið til starfa á ný, fái hún til þess heimild frá framkvæmdaráði, sem telur sig þá hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um farsæla lausn þeirra vandamála sem leiddu til hinnar tímabundnu brottvikningar, og að nefndin geti hafið störf á ný með eðlilegum hætti.

18. grein – Tengd samtök

1. Alþjóðleg samtök, þar sem tveir þriðju félagsmanna að minnsta kosti eru faglærðir safnmenn samkvæmt skilgreiningu í 2. tölul.

2. gr. eða söfn, samkvæmt skilgreiningu í 1. tölul. 2. gr. geta sótt um að tengjast ICOM. 2. Skriflegar umsóknir um slík tengsl skulu berast aðalritara, ásamt afriti af lögum og reglum samtakanna, svo og staðfestum upplýsingum um hversu hátt hlutfall félaga í samtökunum eru faglærðir safnmenn eða söfn. Í umsókninni skulu tilgreindar ástæður þess að samtökin æskja tengsla við ICOM.

3. Aðalritari skal tilkynna formönnum allra alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka um umsóknina og óska eftir athugasemdum þeirra við hana innan sextíu daga. Að sextíu dögum liðnum ber aðalritara að senda umsóknina og athugasemdir við hana ráðgjafarnefnd til afgreiðslu ásamt tilheyrandi athugasemdum, ef einhverjar eru.

4. Aðalritara ber að leggja umsóknina, ásamt tilheyrandi athugasemdum formanna alþjóðlegra nefnda eða annarra tengdra samtaka og umsögn ráðgjafarnefndar, fyrir framkvæmdaráð til afgreiðslu.

5. Ákveði framkvæmdaráð að veita samtökunum tengda aðild, ber því að tilkynna þeim um ákvörðun sína, og fara þess á leit að minnst helmingur félaga í samtökunum gangi í ICOM innan árs frá dagsetningu ákvörðunarinnar. Hafi færri en þriðjungur félaga í samtökunum gengið í ICOM innan árs frá umræddri dagsetningu, skoðast tengd aðild samtakanna ógild.

6. Tengd samtök eiga rétt á að samþykkja eigin stofnsamþykkt og reglur, svo fremi þessar reglur brjóti ekki í bág við samþykktir ICOM.

7. Framkvæmdaráð getur rofið tengsl ICOM við alþjóðleg samtök, að fengnum tilmælum ráðgjafarnefndar, af eftirfarandi ástæðum:

(a) ICOM-félagar eru að staðaldri færri í samtökunum en reglur segja fyrir um;

(b) faglærðir safnmenn og söfn eru að staðaldri færri í samtökunum en reglur segja fyrir um;

(c) starfsemi samtakanna er engin eða ófullnægjandi;

d) starfsemi samtakanna brýtur alvarlega í bág við samþykktir eða siðareglur ICOM.

8. Alþjóðleg samtök sem svipt hafa verið réttindum, geta sótt um inngöngu á ný, hafi þau vandamál sem leiddu til sviptingar réttindanna verið farsællega til lykta leidd.

19. grein – Allsherjarþing

1. Allsherjarþing er æðsta stefnumarkandi stofnun ICOM. Hlutverk þess er eftirfarandi:

(a) að samþykkja og, ef þörf krefur, endurskoða samþykktir;

(b) að samþykkja starfsáætlun ICOM fyrir eftirfarandi þriggja ára tímabil;

(c) að samþykkja fjárlög fyrir eftirfarandi þriggja ára tímabil;

(d) að taka við og samþykkja skýrslu um starf ICOM á undangengnu þriggja ára tímabili;

(e) að taka við og samþykkja fjárhagsreikninga fyrir undan-gengið þriggja ára tímabil;

(f) að fjalla um og taka ákvarðanir um öll þau mál sem ráðgjafarnefnd, framkvæmdaráð og aðalráðstefna kunna að leggja fyrir þingið;

(g) að afgreiða allar tillögur sem það telur viðeigandi og varða söfn, safnfræði og annað það sem ICOM hefur á stefnuskrá sinni;

(h) að leiðbeina framkvæmdaráði, eftir því sem ástæða þykir til, í málefnum sem varða starfsemi ICOM;

(i) að ákvarða stað og stund fyrir næsta allsherjarþing, svo og umfjöllunarefni næstu aðalráðstefnu;

(j) að samþykkja og breyta starfsreglum sínum, svo og starfsreglum aðalráðstefnu eftir þörfum. Ákvarðanir allsherjarþings eru endanlegar og verður ekki áfrýjað.

2. Öllum ICOM-félögum er heimilt að sækja og taka þátt í allsherjarþingi. Stofnunum er heimilt að tilnefna þrjá menn sem fulltrúa sína á allsherjarþingi.

3. Reglulegt allsherjarþing (og aðalráðstefnu) ber að halda á þriggja ára fresti, og skal næsta allsherjarþing á undan velja stað, stund og umræðuefni þingsins, að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar og framkvæmdaráðs. Allsherjarþingið skal velja þing- og ráðstefnu-stað með tilliti til aðstæðna á hinum ýmsu svæðum og hentugleika til fundarhalda, svo og þess kostnaðar sem fundarhöldin munu hafa í för með sér. Forseti, eða einn af varaforsetum í fjarveru hans, skal vera í forsæti á hverju allsherjarþingi.

4. Minnst 12 mánuðum fyrir setningu allsherjarþings ber aðalritara að upplýsa formenn allra þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka um það hvar og hvenær næsta allsherjarþing skal haldið og bjóða þeim að leggja fram tillögur að dagskrárefni. Framkvæmdaráð skal taka sérhverja tillögu til afgreiðslu og semur hún síðan drög að dagskrá og leggur hana fyrir ráðgjafarnefnd til samþykktar minnst sex mánuðum fyrir setningu þingsins.

5. Forseti skal kalla saman sérstakt allsherjarþing ICOM:

(a) ef þriðjungur þjóðdeilda fer fram á það;

(b) ef meirihluti framkvæmdaráðs fer fram á það. Sérstakt allsherjarþing skal haldið, þar sem aðalskrifstofa ICOM hefur aðsetur, innan tveggja mánaða frá því að forseta berst skrifleg beiðni þar að lútandi.

6. Réttur til að greiða atkvæði á allsherjarþingi og við kosningar til framkvæmdaráðs er sem hér segir:

(a) sérhver þjóðdeild hefur rétt á að tilnefna fimm menn til að fara með atkvæði nefndarinnar á allsherjarþingi, ýmist menn á eigin vegum eða fulltrúa stofnana innan ICOM sem aðild eiga að nefndinni, þ. á m. einnig nefndarmenn í ráðgjafarnefnd og framkvæmdaráði frá því landi sem um er að ræða;

(b) sérhver alþjóðleg nefnd hefur rétt á að tilnefna fimm menn til að fara með atkvæði nefndarinnar á allsherjarþingi, ýmist menn á eigin vegum eða fulltrúa stofnana innan ICOM sem aðild eiga að nefndinni;

(c) sérhver tengd samtök, þar sem meir en helmingur félaga er í ICOM, hefur rétt á að tilnefna þrjá menn til að fara með atkvæði samtakanna á allsherjarþingi, ýmist menn á eigin vegum eða fulltrúa stofnana innan ICOM sem aðild eiga að samtökunum. Tengd samtök, þar sem minna en helmingur félaga er í ICOM, hafa rétt á að tilnefna einn félagsmanna til að fara með atkvæði samtakanna;

(d) stjórnir þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda eða tengdra samtaka hafa rétt á að tilnefna einn mann í nefndinni eða samtökunum til að fara með atkvæði annars manns sem tilnefndur hefur verið til að fara með atkvæðið, samanber a-, b-, og c-lið, sjái sá síðarnefndi sér ekki fært að sækja allsherjarþingið.

7. Allsherjarþing telst lögmætt, þegar viðstaddir tilnefndir atkvæðisbærir þingfulltrúar, hvort sem þeir fara með eigin atkvæði eða annarra, eru ekki færri en tveir þriðju hugsanlegs fjölda atkvæðisbærra félaga samkvæmt þeim reglum sem tilteknar eru í 6. tölul. 19. gr. Sé tilskilinn fjöldi tilnefndra atkvæðisbærra fulltrúa ekki viðstaddur skal allsherjarþing koma saman aftur á sama stað að tuttugu og fjórum tímum liðnum. Skoðast þingið þá lögmætt, óháð því hvort nægilega margir tilnefndir atkvæðisbærir þingfulltrúar eru viðstaddir. Að því er þessa grein varðar skal sérhver nefnd, sem vikið hefur verið frá um tíma ekki talin með þegar tekið er saman hvort þing sé lögmætt. Maður sem tilnefndur hefur verið til að fara með atkvæði fleiri en einnar nefndar eða samtaka skal talinn með fyrir hverja nefnd eða samtök sem hann greiðir atkvæði fyrir þegar tekið er saman hvort þing sé lögmætt.

8. Öll mál sem koma til umfjöllunar á allsherjarþingi skulu afgreidd með einföldum meirihluta atkvæða, nema breytingar á þessum samþykktum, en þær þarf að samþykkja með tveimur þriðju greiddra atkvæða (29. gr.), en þrjá fjórðu greiddra atkvæða þarf til að samþykkja að leysa upp ICOM (30. gr.).

20. grein – Aðalráðstefna

1. ICOM ber að kalla til aðalráðstefnu á þriggja ára fresti á sama stað og sama tíma og reglulegt allsherjarþing fer fram. Aðalráðstefna er vettvangur fyrir umfjöllun og umræður um safnfræði og söfn, frá hagnýtum jafnt sem fræðilegum sjónarhóli, en sérstaklega fjallar hann um umræðuefni sem næsta allsherjarþing á undan hefur samþykkt að taka upp á aðalráðstefnunni. Fundurinn skal einnig taka við og fara yfir skýrslur um starfsemi ICOM á undangengnum þremur árum og drög að starfsáætlun ICOM til næstu þriggja ára. Fundurinn getur, sýnist honum svo, vísað þeim málum, sem upp koma í umræðum á aðalráðstefnunni, til allsherjarþings.

2. Allir ICOM-félagar eiga rétt á að sækja aðalráðstefnu. Fleiri en einn maður geta verið fulltrúar stofnunar en aðeins einn þeirra skal tilnefndur til að fara með atkvæði stofnunarinnar.

3. Menn á eigin vegum, einn tilnefndur fulltrúi hverrar stofnunar, aukafélagar og heiðursfélagar, sem skráðir eru til þátttöku á aðalráðstefnu, fara hver um sig með eitt atkvæði um þau mál sem lögð eru fyrir ráðstefnuna til ákvörðunar. Enginn fær umboð til að fara með atkvæði annars á aðalráðstefnu. Einfaldur meirihluti atkvæða nægir í atkvæðagreiðslu á aðalráðstefnu.

21. grein – Ráðgjafarnefnd

1. Ráðgjafarnefnd gegnir eftirfarandi hlutverki:

(a) hún er framkvæmdaráði og allsherjarþingi innan handar um ráðgjöf varðandi stefnumörkun, starfsáætlun, starfsreglur og fjárreiður ICOM;

(b) hún afgreiðir endurskoðaða reikninga starfsársins á undan og fjárlög yfirstandandi árs sem gjaldkeri leggur fram;

(c) hún velur frambjóðendur til framkvæmdaráðs;

(d) hún fjallar um og veitir ráðgjöf um allar breytingartillögur við samþykktir ICOM í samræmi við 29. gr.

(e) að auki framkvæmir hún hvaðeina sem þessar samþykktir segja fyrir um.

2. Eftirfarandi aðilar sitja í ráðgjafarnefnd:

(a) formenn þjóðdeilda eða tilnefndir staðgenglar þeirra;

(b) formenn alþjóðlegra nefnda eða tilnefndir staðgenglar þeirra;

(c) formenn tengdra samtaka eða tilnefndir staðgenglar þeirra;

(d) formaður ráðgjafarnefndar kjörinn af ráðgjafarnefnd úr hópi ICOM-félaga.

3. Einstaklingur gengur úr ráðgjafarnefnd:

(a) láti hann af embætti formanns í þjóðdeild, alþjóðlegri nefnd eða samtökum tengdum ICOM;

(b) ef formaður á í hlut, verði hann ófær um að gegna embætti sínu, gangi úr ICOM í samræmi við 9. gr., eða sendi aðalritara afsagnarbréf.

4. Nefndarmenn í ráðgjafarnefnd (að formanni undanskildum) geta tilnefnt sér staðgengla úr hópi annarra ICOM-félaga í nefndinni til að sækja fundi nefndarinnar, en hver nefndarmaður má aðeins fara með eitt slíkt umboð. Nefndarmaður tilnefnir staðgengil sinn skriflega og gildir tilnefningin einungis fyrir einn tiltekinn fund nefndarinnar. Staðgengill sem tilnefndur er með þessum hætti hefur öll réttindi umbjóðanda síns á þessum tiltekna fundi nefndarinnar, þ.á m. atkvæðisrétt.

5. Á þeim fundum sem ráðgjafarnefnd heldur í tengslum við allsherjarþing ICOM skal hún kjósa sér formann til þriggja ára. Formannsefni skal vera einstaklingur með lögmæta aðild að ICOM, og gildir þá einu hvort hann situr eða hefur áður setið í ráðgjafarnefnd, eða hvorugt. Formann ráðgjafarnefndar má endurkjósa einu sinni. Minnst sex mánuðum fyrir setningu reglulegs allsherjarþings ber aðalritara að skrifa bréf til formanna þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka og biðja þá að tilnefna menn til að gegna formennsku í ráðgjafarnefnd. Tilnefningar skulu berast aðalritara eigi síðar en þremur mánuðum fyrir setningu allsherjarþings. Aðalritari skal senda nöfn frambjóðenda ásamt þeim upplýsingum sem þeir vilja koma á framfæri um ævi sína og störf, til nefndarmanna í ráðgjafarnefnd eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir setningu allsherjarþings.

6. Fráfarandi formaður ráðgjafarnefndar skal stjórna fundi hennar rétt fyrir setningu allsherjarþings og á þeim fundi skal nefndin kjósa sér nýjan formann í leynilegri atkvæðagreiðslu. Aðalritari og tveir eftirlitsmenn skulu hafa með höndum talningu atkvæða. Sá frambjóðandi sem flest atkvæði hlýtur, svo og meira en 50% greiddra atkvæða, skoðast réttkjörinn. Hljóti enginn frambjóðandi yfir 50% greiddra atkvæða, skal sá frambjóðandi sem fæst atkvæði hlaut teljast úr leik. Skal þá kosið milli þeirra frambjóðenda sem eftir eru og svo koll af kolli uns einn frambjóðandi hlýtur yfir 50% greiddra atkvæða. Nýkjörinn formaður tekur til starfa í lok allsherjarþings, en meðan á þinginu stendur er honum heimilt að taka þátt í störfum og umræðum ráðgjafarnefndar sem væri hann fullgildur nefndarmaður.

7. Ráðgjafarnefnd skal efna til fundar að allsherjarþingi loknu, þar sem kjörinn skal varaformaður úr hópi nefndarmanna. Varaformaður skal aðstoða formann við almenn nefndarstörf í ráðgjafarnefnd og getur verið staðgengill hans á fundum framkvæmdaráðs eða stjórnað svæðisbundnum samtökum, samkvæmt sérstöku skriflegu umboði sem varðar tiltekinn fund eða eða tiltekin samtök.

8. Formaður ráðgjafarnefndar skal:

(a) kalla saman nefnd sína og stjórna fundum hennar;

(b) sitja í framkvæmdaráði í krafti embættis síns;

(c) vera kosningaeftirlitsmaður ICOM, samkvæmt 27. gr.;

(d) sitja í stjórnum allra svæðisbundinna samtaka í krafti embættis síns. Í fjarveru formanns skal varaformaður stjórna fundum nefndarinnar.

9. Neyðist formaður eða varaformaður ráðgjafarnefndar til að láta af störfum á miðju kjörtímabili, skulu nefndarmenn á fyrsta fundi sem fylgir í kjölfarið kjósa einn úr sínum hópi í embætti formanns eða varaformanns til loka kjörtímabils fráfarandi formanns og/eða varaformanns.

10. Ráðgjafarnefnd skal koma saman minnst einu sinni á ári til reglulegs fundar í tengslum við fund framkvæmdaráðs. Standi allsherjarþing fyrir dyrum, skal ráðgjafarnefnd koma saman til reglulegs fundar nokkrum dögum fyrir fund framkvæmdaráðs minnst sex mánuðum fyrir setningu allsherjarþings, en á þeim fundi ráðgjafarnefndar ber að tilnefna frambjóðendur til framkvæmdaráðs. Ráðgjafarnefnd skal einnig koma saman stuttu fyrir og í lok allsherjarþings.

11. Framkvæmdaráð getur farið fram á sérstakan fund ráðgjafarnefndar, sömuleiðis fjórðungur nefndarmanna í ráðgjafar-nefnd. Skrifleg beiðni um slíkt skal berast formanni og skal hann þá þegar í stað kalla til fundar sem haldinn skal eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst beiðnin. Sérstaka fundi af þessu tagi skal halda þar sem aðalskrifstofa ICOM hefur aðsetur.

12. Félagar í framkvæmdaráði, formenn svæðisbundinna samtaka og landsfulltrúar tilnefndir samkvæmt 16. gr. hafa rétt til að sækja fundi ráðgjafarnefndar sem áheyrnarfulltrúar. Þeir hafa fullt málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.

13. Ráðgjafarnefnd telst ákvörðunarbær ef 50 % nefndarmanna, eða staðgenglar þeirra, eru viðstaddir. Sé tilskilinn fjöldi atkvæðisbærra fulltrúa ekki viðstaddur skal kalla nefndina aftur saman á sama stað að sólarhring liðnum. Skoðast nefndin þá lögmæt, óháð því hvort nægilega margir atkvæðisbærir nefndar-menn eru viðstaddir. Formaður ráðgjafarnefndar og formenn þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka (eða lögmætir staðgenglar þeirra) fara hver um sig með eitt atkvæði. Maður sem gegnir formennsku í fleiri en einni nefnd eða samtökum fer með eitt atkvæði fyrir hverja nefnd eða samtök sem hann er í forsvari fyrir. Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða viðstaddra nefndarmanna ræður úrslitum. Standi atkvæði á jöfnu, er formanni ráðgjafarnefndar heimilt að greiða úrslitaatkvæði.

14. Ráðgjafarnefnd getur krafið framkvæmdaráð eða aðalritara um öll gögn um málefni, sem varða ICOM, nema gögn af persónulegum toga. Nefndin getur sett á laggirnar vinnuhópa með þátttöku eins eða fleiri nefndarmanna og skal einn þeirra taka að sér stjórn hópsins, að viðbættum öðrum þeim ICOM-félögum sem hún telur þörf á, til að gaumgæfa og álykta um ýmis mál, sem snúa að ICOM, og skýra ráðgjafarnefnd frá þeim.

22. grein – Framkvæmdaráð

1. Hlutverk framkvæmdaráðs er sem hér segir :

(a) að gera allar þær ráðstafanir sem það telur til framdráttar ákvörðunum og tilmælum allsherjarþings;

(b) að tryggja að samþykktri áætlun ICOM sé framfylgt á hagkvæman og árangursríkan hátt og í samræmi við samþykkt fjárlög samtakanna;

(c) að sjá til þess að öll veigamikil mál sem viðkoma stefnumörkun, áætlanagerð og starfsháttum ICOM séu lögð fyrir ráðgjafarnefnd til umfjöllunar og ráðgjafar;

(d) að fjalla um og gera allar þær ráðstafanir sem það telur til framdráttar tillögum eða tilmælum ráðgjafarnefndar;

(e) að fylgjast með starfsemi þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda eða tengdra samtaka, og ef þörf krefur, samræma þessa starfsemi;

(f) að tiltaka þann fjölda alþjóðlegra nefnda sem einstakir félagsmenn mega sitja í;

(g) að ákvarða árleg félagsgjöld fyrir hvern aðildarflokk;

(h) að taka ákvarðanir og grípa til aðgerða (þar á meðal ákvarðanir og aðgerðir sem samkvæmt þessum samþykktum eru alfarið í verkahring allsherjarþings eða ráðgjafarnefndar) ef upp koma neyðartilfelli milli allsherjarþinga eða funda ráðgjafarnefndar, telji framkvæmdaráðið brýnt og í þágu ICOM að skerast í leikinn. Öllum slíkum ákvörðunum eða aðgerðum ber að vísa til viðeigandi nefnda eða ráða ICOM eins skjótt og unnt er, ásamt skýrslu um þau málsatvik sem urðu tilefni áðurnefndra ákvarðana eða aðgerða.

2. Í framkvæmdaráði skulu sitja tíu ICOM-félagar og skulu níu þeirra kjörnir af tilnefndum atkvæðisbærum fulltrúum þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka til þriggja ára í senn. Í krafti embættis síns skal formaður ráðgjafarnefndar sitja í stjórn framkvæmdaráðs. Af níu kjörnum framkvæmdaráðsmönnum skulu fjórir sitja í stjórn framkvæmdaráðs, en fimm framkvæmdaráðsmenn gegna ekki embætti í ráðinu. Í stjórninni eru forseti, tveir varaforsetar og gjaldkeri. Kjör til framkvæmdaráðs fer fram á allsherjarþingi í samræmi við 27. gr. og skulu úrslit kosninganna gerð heyrinkunn á þinginu. Umboð þeirra sem kjörnir eru í framkvæmdaráð gildir frá lokum reglulegs allsherjarþings til loka næsta reglulega allsherjarþings þar á eftir.

3. Enginn má sitja lengur en tvö kjörtímabil samfleytt sem venjulegur framkvæmdaráðsmaður í framkvæmdaráði, en hins vegar er framkvæmdaráðsmaður kjörgengur til stjórnar ráðsins næsta kjörtímabil á eftir. Enginn má sitja í framkvæmdaráði lengur en tvö kjörtímabil samfleytt, hvorki í sama embætti né öðru embætti. Enginn má sitja lengur en fjögur tímabil samfleytt sem kjörinn framkvæmdaráðsmaður. Maður sem situr tvö eða fleiri kjörtímabil í framkvæmdaráði í samræmi við framangreind ákvæði getur ekki sóst eftir endurkjöri til ráðsins fyrr en að minnst einu þriggja ára kjörtímabili liðnu. Maður sem verið hefur utan framkvæmdaráðs a.m.k. eitt þriggja ára kjörtímabil hefur sama kjörgengi til ráðsins og sá sem ekki hefur áður setið í því.

4. Framangreind ákvæði skulu ekki koma í veg fyrir að maður sem setið hefur eitt eða fleiri kjörtímabil sem formaður ráðgjafarnefndar verði kjörinn til setu eða stjórnar í framkvæmdaráði næsta kjörtímabil á eftir. Né heldur skal maður sem setið hefur eitt eða fleiri kjörtímabil í framkvæmdaráði vera útilokaður frá setu í ráðinu sem formaður ráðgjafarnefndar næsta kjörtímabil á eftir.

5. Framkvæmdaráðsmaður skal víkja úr embætti, verði hann ófær um að sinna því, gangi úr ICOM í samræmi við 9. gr. eða sendi aðalritara afsagnarbréf.

6. Losni embætti í stjórn framkvæmdaráðs á þriggja ára kjörtímabili þess, skulu framkvæmdaráðsmenn skipa einn úr sínum hópi í embættið, svo og í önnur embætti sem kunna að losna í beinu framhaldi af þeirri skipan. Gangi almennur framkvæmdaráðsmaður úr framkvæmdaráði á þriggja ára kjörtímabili þess meir en sex mánuðum fyrir setningu allsherjarþings, skal ráðið skipa einn ICOM-félaga í hans stað til loka kjörtímabilsins. Í því tilfelli ber ráðinu að kappkosta að skipa ICOM-félaga af sama svæði og fráfarandi ráðsmaður var fulltrúi fyrir. Gangi einhver úr ráðinu skemur en sex mánuðum fyrir setningu allsherjarþings, skal enginn skipaður í ráðið í hans stað fyrr en að loknum kosningum á allsherjarþingi.

7. Framkvæmdaráð skal koma saman til reglulegs fundar minnst tvisvar á ári. Þegar allsherjarþing er haldið skal annar þessara tveggja funda haldinn á sama stað og allsherjarþingið. Við það tækifæri skal framkvæmdaráð koma saman rétt fyrir og stuttu eftir allsherjarþing. Á allsherjarþinginu skal ráðið auk þess koma saman eins oft og forseti æskir þess. Á fundi framkvæmdaráðs sem haldinn er strax að loknu allsherjarþingi, taka nýkjörnir framkvæmda-ráðsmenn formlega til starfa.

8. Framkvæmdaráð kemur saman til sérstakra funda að beiðni forseta, eða ef skrifleg beiðni um slíkan fund berst frá fimm eða fleiri kjörnum ráðsmönnum. Berist forseta beiðni um sérstakan fund ráðsins skal hann gera nauðsynlegar ráðstafanir hið fyrsta og skal fundurinn haldinn innan þrjátíu daga frá dagsetningu beiðnar.

9. Framkvæmdaráðsmaður sem er ófær um að sækja fund ráðsins getur tilnefnt sér staðgengil (þó ekki annan ráðsmann) úr röðum ICOM-félaga. Tilnefningin skal vera skrifleg og gilda einungis fyrir umræddan fund. Á umræddum fundi skal staðgengill ráðsmanns hafa öll réttindi umbjóðanda síns, þ. á m. atkvæðisrétt. Enginn staðgengill má fara með fleiri en eitt umboð á fundum ráðsins.

10. Framkvæmdaráð telst ákvörðunarbært ef sjö framkvæmda-ráðsmenn eða lögmætir staðgenglar þeirra eru til staðar, svo fremi fimm framkvæmdaráðsmenn séu viðstaddir í eigin persónu. Hver framkvæmdaráðsmaður fer með eitt atkvæði. Standi atkvæði á jöfnu, hefur forseti einnig úrslitaatkvæði.

11. Framkvæmdaráð getur efnt til síma- eða sjónvarpsfunda með ráðsmönnum.

23. grein – Stjórn framkvæmdaráðs

1. Forseti ICOM skal kalla saman allsherjarþing og framkvæmdaráð og stjórna fundum þeirra. Milli þess sem framkvæmdaráð kemur saman skal forseti taka þær ákvarðanir og gera þær ráðstafanir sem hann telur við hæfi og nauðsynlegar fyrir hagsmuni ICOM. Allar ákvarðanir og ráðstafanir forseta sem þannig eru til komnar skulu lagðar fyrir næsta fund framkvæmdaráðs til staðfestingar. Forseti er fulltrúi ICOM í samskiptum við sjálfstæð ríki og alþjóðleg samtök, einkum Unesco, ICOMOS og ICCROM (Hagfræði- og félagsvísindanefnd Sameinuðu þjóðanna).

2. Varaforsetar skulu vera forseta til aðstoðar og staðgenglar hans ef nauðsyn krefur. Forseti getur falið þeim umsjón ákveðinna málaflokka, og sé forseti af einhverjum ástæðum ófær um að gegna embættisskyldum sínum, getur annar hvor varaforseta gerst staðgengill hans, einnig þegar kalla þarf saman og stjórna fundum framkvæmdaráðs og allsherjarþingi.

3. Gjaldkeri skal taka saman og kynna þriggja ára fjárhagsáætlun ICOM á hverju allsherjarþingi og semja drög að fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár sem í hönd fer, til kynningar á árlegum fundum ráðgjafarnefndar og framkvæmdaráðs. Gjaldkeri skal fylgjast grannt með tekjum og útgjöldum ICOM, og leggja viðhlítandi tillögur um úrbætur fyrir framkvæmdaráð, telji hann fjárhagslegum hagsmunum ICOM stefnt í hættu. Gjaldkeri skal leggja árlega ársreikninga ICOM í dóm endurskoðanda eða sambærilegrar stofnunar sem til þess hefur verið skipuð samkvæmt 5. tölul. 26. gr. og leggja endurskoðaða reikninga ICOM síðan fyrir ráðgjafarnefnd til afgreiðslu. Gjaldkeri skal leggja endurskoðaða reikninga hvers þriggja ára tímabils fyrir allsherjarþing til afgreiðslu, ásamt með athugasemdum ráðgjafarnefndar. Framkvæmdaráð getur skipað mann, sem ekki þarf að vera ICOM-félagi, til að vera gjaldkera til aðstoðar.

24. grein – Aðalskrifstofa

1. Aðalritari og starfsmenn ICOM mynda aðalskrifstofu.

2. Aðalritari er ráðinn af framkvæmdaráði og skulu laun hans og starfsskilyrði ákvörðuð af ráðinu og endurskoðuð reglulega. Aðalritari er samningsbundinn í allt að þrjú ár, en framlengja má samningstímabilið. Framkvæmdaráð skal taka hugsanlega endurráðningu aðalritara til umræðu minnst sex mánuðum áður en samningstímabili hans lýkur.

3. Aðalritari ICOM er aðalframkvæmdastjóri samtakanna og er ábyrgur gagnvart framkvæmdaráði fyrir hagkvæmri og góðri stjórnun ICOM og daglegum rekstri aðalskrifstofu. Í daglegum rekstri lýtur aðalritari stjórn forseta. Aðalritari getur, með fyrirvara um samþykki framkvæmdaráðs að því er varðar ýmis störf sem tilgreind eru í reglugerðunum, ráðið starfsmenn til aðalskrifstofu eða sagt þeim upp. Ráðningarskilmálar (með starfslýsingu og launatöflu) skulu tilgreindir í starfsreglum, sem settar eru í samræmi við 1. tölul. 28. gr.

4. Hlutverk aðalritara er sem hér segir:

(a) að veita ICOM-félögum nauðsynlega fyrirgreiðslu;

(b) að sjá framkvæmdaráði, ráðgjafarnefnd og allsherjarþingi fyrir skrifstofuþjónustu;

(c) að undirbúa þá starfsáætlun ICOM sem allsherjarþing hefur samþykkt, stuðla að framkvæmd hennar, meta árangur hennar og gefa um hana skýrslu;

(d) að sjá um fjármál ICOM undir stjórn gjaldkera, þar á meðal greiðslur á reikningum, bókfærslu og gerð tilhlýðilegra fjárhags-skýrslna;

(e) að auðvelda starfsemi alþjóðlegu nefndanna;

(f) að aðstoða aðalskrifstofu Unesco við framkvæmd starfs-áætlunar.

5. Aðalritari skal gefa út upplýsingarit eða fréttabréf á opinberum tungumálum ICOM með reglulegu millibili, sem send skulu öllum lögmætum ICOM-félögum.

6. Aðalritari getur, að fengnu samþykki framkvæmdaráðs og í samræmi við yfirlýsta starfsáætlun og fjárlög ICOM, gefið út önnur þörf rit sem varða starf ICOM á hverju því tungumáli sem nauðsyn krefur, ýmist fyrir hönd ICOM eða í samstarfi við önnur alþjóðleg, þjóðleg, opinber eða einkaleg samtök, á hverju því tungumáli sem þykir við hæfi.

7. Aðalritari getur boðið ICOM-félögum eða öðrum aðilum þessi rit til sölu eða eignar með öðrum hætti.

8. Aðalritari er ábyrgur fyrir stjórnun og starfsemi Unesco-ICOM upplýsingamiðstöðvarinnar fyrir söfn og skal sjá miðstöðinni fyrir þeim starfsmönnum og því fjármagni sem framkvæmdaráð álítur að muni tryggja rekstur hennar.

25. grein – ICOM-stofnunin

1. Stofnsetja skal ICOM-stofnun til að styðja við starfsemi ICOM. Allsherjarþing skal samþykkja stofnskrá og starfsreglur stofnunarinnar, svo og allar breytingar á þeim sem ekki brjóta í bága við samþykktir ICOM.

2. Forseti ICOM-stofnunarinnar hefur rétt til setu og þátttöku í framkvæmdaráði, ráðgjafarnefnd og á allsherjarþingi, en hefur ekki atkvæðisrétt á þessum samkomum

26. grein – Fjármál

1.Tekjustofn ICOM er sem hér segir :

(a) félagsgjöld sem ICOM-félagar reiða af hendi;

(b) tekjur af starfsemi ICOM, þ. á m. af sölu upplýsingarita og ráðstefnuhaldi;

(c) styrkir, opinber fjárframlög, peningagjafir og arfsgjafir frá aðilum sem framkvæmdaráð tekur gilda;

(d) framlög frá ICOM-stofnuninni;

(e) greiðslur fyrir þjónustu sem ICOM hefur innt af hendi eða samningsbundnar greiðslur sem samtökin hafa borið úr býtum samkvæmt tilteknum samningum (sem framkvæmdaráð þarf að samþykkja) vegna sérstakra og afmarkaðra verkefna.

2. Fyrir hönd ICOM er framkvæmdaráði heimilt að taka við, afla, fá að láni, eða taka til varðveislu og notkunar fjármuni sem eru nauðsynlegir til að hrinda í framkvæmd þeim markmiðum sem lögfest eru í samþykktum ICOM.

3. Gjaldkera er heimilt að taka við styrkjum, opinberum fjárframlögum, peningagjöfum og arfsgjöfum fyrir hönd ICOM, svo fremi framkvæmdaráð samþykki að veita þeim viðtöku.

4. Aðeins má nota fjármuni ICOM í samræmi við hina árlegu fjárhagsáætlun sem gjaldkeri hefur tekið saman og framkvæmdaráð samþykkt.

5. Á ársfundi sínum skal ráðgjafarnefnd skipa hæfan mann eða stofnun sem endurskoðanda ICOM gegn þóknun sem ráðgjafarnefndin telur sanngjarna.

6. Í hverju því landi þar sem fyrir er opinberlega stofnuð þjóðdeild ICOM, er heimilt að stofna sérstakan bankareikning, að fengnu samþykki framkvæmdaráðs og í samræmi við lög þess lands sem um er að ræða, þar sem leggja má inn sjóði sem eru í eigu ICOM í því landi en eru ekki sjálfkrafa framseljanlegir. Þessa sjóði má einungis nota með samþykki framkvæmdaráðs. Á hverju ári skal gjaldkeri ICOM leggja fyrir framkvæmdaráð og ráðgjafarnefnd bókhaldsgögn sem sýna stöðu og notkun þessara sjóða.

7. Hvorki þjóðdeild né alþjóðleg nefnd skulu taka á sig fjárhagslegar eða lagalegar skuldbindingar sem hafa í för með sér útgjöld fyrir ICOM, án þess að leita fyrst eftir samþykki framkvæmdaráðs. Þetta gildir þó ekki þegar um er að ræða samning eða samkomulag sem snertir starf nefndanna sjálfra og greiðist úr þeirra eigin sjóðum.

27. grein – Kosningar til framkvæmdaráðs

1. Formaður ráðgjafarnefndar er jafnframt kjörstjóri ICOM og ber honum að hafa umsjón með kosningum og staðfesta að tilskildum reglum hafi verið fylgt.

2. Minnst þremur mánuðum fyrir fund ráðgjafarnefndar, þar sem velja skal frambjóðendur til kosninga í framkvæmdaráð, ber aðalritara að rita formönnum allra þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka og biðja þá að tilnefna aðila (ICOM-félaga eða lögmæta fulltrúa stofnana innan ICOM) sem gefa vilja kost á sér til setu í framkvæmdaráði, hvort heldur er sem venjulegir ráðsmenn eða stjórnarmenn.

3. Ráðgjafarnefnd tekur einungis til greina tilnefningar, þar sem upplýst er í stuttu máli um æviferil, menntun og reynslu tilnefndra aðila. Tilnefningu skal fylgja undirrituð viljayfirlýsing þess sem tilnefndur er þar sem kemur fram ótvíræður áhugi hans og hæfni til að taka sæti í ráðinu. Aðalritara ber að leggja allar slíkar tilnefningar fyrir ráðgjafarnefnd, ásamt staðfestingu þess að þeir sem tilnefndir eru hafi lögmæta einstaklingsaðild að ICOM eða séu lögmætir fulltrúar tiltekinna stofnana innan ICOM og hafi þess vegna kjörgengi til framkvæmdaráðs sem venjulegir framkvæmda-ráðsmenn eða stjórnarmenn í ráðinu, í samræmi við 3. og 4. tölul. 22. gr.

4. Þegar tekinn er saman listi yfir frambjóðendur til kosninga í framkvæmdaráð, skal ráðgjafarnefnd taka tillit til skoðana framkvæmdaráðs, þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka á hæfni einstakra frambjóðenda til að gegna stjórnunarstörfum í ICOM. Ráðgjafarnefnd skal tryggja eftir föngum að frambjóðendur séu fulltrúar bæði svæðisbundinna og faglegra hagsmunahópa innan ICOM.

5. Ráðgjafarnefnd kýs í mesta lagi tuttugu og þrjá frambjóðendur til kosninga í framkvæmdaráð úr þeim hópi manna sem voru tilnefndir. Þessum frambjóðendum skal raðað á tvo lista. Á A-lista eru nöfn þeirra sem gefa kost á sér til stjórnarstarfa í ráðinu. Á B-lista eru nöfn þeirra sem vilja verða venjulegir ráðsmenn. Frambjóðandi til stjórnarstarfa í framkvæmdaráði skal ekki sækjast eftir að verða venjulegur ráðsmaður.

6. (a) Komi upp sú staða að maður, sem ráðgjafarnefndin hefur valið til að vera í kjöri til stjórnar framkvæmdaráðs, sjái sér ekki fært að vera í kjöri af einhverjum ástæðum og enginn annar býður sig fram til þessa embættis í stjórn ráðsins, skal framkvæmdaráð, að höfðu samráði við ráðgjafarnefnd að því marki sem mögulegt er, tilnefna annan ICOM-félaga til framboðs, svo fremi sá einstaklingur samþykki að vera í framboði.

(b) Komi upp sú staða að maður, sem ráðgjafarnefndin hefur valið til að vera í kjöri til framkvæmdaráðs, sjái sér ekki fært að vera í kjöri af einhverjum ástæðum og ekki eru nægilega margir frambjóðendur til að tryggja kjör fimm ráðsmanna, skal framkvæmdaráð, að höfðu samráði við ráðgjafarnefnd að því marki sem mögulegt er, tilnefna annan ICOM-félaga til framboðs, svo fremi sá einstaklingur samþykki að vera í framboði.

(c) Þegar framkvæmdaráð velur frambjóðendur samkvæmt a- eða b-lið 6. tölul., skal það taka mið af upprunalegum lista ráðgjafarnefndar yfir hugsanlega frambjóðendur og einnig af niðurstöðum atkvæðagreiðslu ráðgjafarnefndar um sömu frambjóðendur á kjörfundinum þar sem frambjóðendur til framkvæmdaráðs voru valdir.

(d) Neyðist framkvæmdaráð til að grípa inn í kosningar með þeim hætti sem tilgreint er í a- og b-lið 6. tölul., ber aðalritara ekki nauðsyn til að virða þau tímatakmörk sem tilgreind eru í 7. og 9. tölul. 27. gr.

7. Aðalritari skal, ekki síðar en fimm mánuðum fyrir setningu allsherjarþings, rita formönnum þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka og tilkynna þeim um nöfn frambjóðenda sem ráðgjafarnefnd hefur lagt blessun sína yfir og gefa þeim nefndum eða samtökum, sem hafa ekki fulltrúa á allsherjarþingi, kost á að neyta réttar síns til að greiða atkvæði bréflega.

8. Landsnefndir, alþjóðlegar nefndir og tengd samtök, sem hyggjast greiða atkvæði bréflega, skulu upplýsa aðalritara um þann ásetning sinn og tryggja að full nöfn og heimilisföng ICOM-félaga, sem hafa verið tilnefndir í samræmi við a-, b- eða c-lið 6. tölul. 19. gr., til að fara með atkvæði nefnda eða samtaka, berist aðalritara ekki síðar en þremur mánuðum fyrir setningu allsherjarþings.

9. Ekki síðar en tveimur mánuðum fyrir setningu allsherjarþings skal aðalritari senda öllum þessum tilnefndu og atkvæðisbæru fulltrúum atkvæðaseðil með nöfnum frambjóðenda, bæði til kosningar til stjórnar framkvæmdaráðs (A-listi) og setu í ráðinu (B-listi), ásamt stuttum æviágripum frambjóðenda sem fylgdu upprunalegum tilnefningum þeirra, þar sem fram koma upplýsingar um hæfni þeirra og reynslu.

10. Atkvæðaseðli skulu fylgja skýringar aðalritara, þar sem tekið er fram hvernig fylla skal út atkvæðaseðilinn. Atkvæðaseðlinum, æviágripi frambjóðenda og skýringum aðalritara fylgir umslag (þar sem á stendur „Kosningar til framkvæmdaráðs“, og nafn viðeigandi þjóðdeildar, alþjóðlegrar nefndar eða tengdra samtaka). Í þetta umslag skal setja útfylltan atkvæðaseðil, innsigla umslagið og póstleggja það í öðru umslagi sem áritað er til aðalritara.

11. Útfylltur atkvæðaseðill skal berast aðalritara minnst viku fyrir setningu aðalfundar og skoðast hann þá gildur. Aðalritari skal opna póstumslög að viðstöddum einum eða fleiri mönnum. Innsigluð og áprentuð umslög skal aðalritari merkja með móttökudagsetningu og upphafsstöfum sínum.

12. Aðalritari skal leggja öll póstsend atkvæði í innsigluðum og áprentuðum umslögum sínum fyrir kjörstjóra við upphaf allsherjarþings.

13. Þjóðdeildir, alþjóðlegar nefndir og tengd samtök geta ógilt póstsend atkvæði sín allt fram að setningu aðalráðstefnu, verði nefndirnar eða samtökin með fulltrúa á allsherjarþinginu. Í því tilfelli verður skrifleg yfirlýsing frá stjórn þeirrar nefndar eða samtaka sem í hlut á um að hún hafi ákveðið að fara fram á ógildingu póstsendra atkvæða sinna og fela tilteknum einstaklingum að fara með atkvæði sitt á allsherjarþingi í samræmi við 6. tölul. 19. gr. að berast aðalritara fyrir setningardag ráðstefnunnar. Hafi aðalritari móttekið slíka yfirlýsingu, ber honum að leggja innsigluð umslög með atkvæðum þeirrar nefndar eða samtaka sem í hlut eiga, ásamt beiðninni um ógildingu atkvæðanna í hendur kjörstjóra sem þegar skal eyðileggja atkvæðin í vitna viðurvist.

14. Kjörstjóri skal stjórna kosningu til framkvæmdaráðs á allsherjarþingi, í samræmi við starfsreglur allsherjarþings, sjá 2. tölul. 28. gr. Einungis tilnefndir fulltrúar þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka, samanber a-, b- eða c-lið, 6. tölul. 19. gr. eða tilnefndir staðgenglar þeirra, sjá d-lið, 6. tölul. 19. gr. hafa atkvæðisrétt. Formanni viðeigandi nefndar eða samtaka ber að tilkynna aðalritara skriflega um allar tilnefningar. Komi upp ágreiningur eða óvissa hefur kjörstjóri algjöran og óskoraðan rétt til að skera úr um það hvort tiltekinn maður telst hafa kosningarétt eður ei og verður ákvörðun hans ekki áfrýjað.

15. Kjörstjóri skal fyrst opna innsigluð umslög með aðsendum atkvæðum og bæta þeim við þau atkvæði sem þegar hafa verið greidd á allsherjarþingi, og í kjölfarið ber honum að gaumgæfa öll greidd atkvæði til að ganga úr skugga um það hvort atkvæðaseðlarnir séu rangt útfylltir og þar með ógildir.

16. Kjörstjóri skal telja greidd atkvæði með aðstoð tveggja manna sem allsherjarþing hefur skipað. Þeir skulu vera ICOM-félagar, en ekki í kjöri til embætta, né heldur starfsmenn á aðalskrifstofu. 17. Gild atkvæði skulu talin á eftirfarandi hátt:

(a) fyrst skal telja atkvæði greidd frambjóðendum til stjórnar framkvæmdaráðs (A-listi) og skal sá frambjóðandi, sem fær flest atkvæði í hvert tiltekið embætti í stjórninni, skoðast löglega kjörinn;

(b) þarnæst skal telja atkvæði greidd þeim sem bjóða sig fram sem almennir framkvæmdaráðsmenn (B-listi). Þeir fimm frambjóðendur, sem flest atkvæði hljóta, skulu skoðast löglega kjörnir.

18. Fái tveir frambjóðendur jafnmörg atkvæði skal kjörstjóri beita hlutkesti til að knýja fram úrslit í atkvæðagreiðslunni.

19. Kjörstjóri skal tilkynna um úrslit atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi og veita eftirfarandi upplýsingar um:

(a) fjölda gildra atkvæða sem greidd voru;

(b) dreifingu atkvæða meðal frambjóðenda;

(c) hvort hlutkesti hafi verið beitt til að knýja fram úrslit í atkvæðagreiðslu;

(d) hvort einhver atkvæði hafi verið úrskurðuð ógild og ástæður þessa.

20. Aðalritari skal, um leið og því verður við komið, tilkynna öllum frambjóðendum skriflega um úrslit kosninganna.

28. grein – Reglur um beitingu

1. Að höfðu samráði við ráðgjafarnefnd, skal framkvæmdaráð samþykkja þær reglur sem þarf til að hrinda ákvæðum þessara samþykkta í framkvæmd og endurskoða þær með reglulegu millibili. Þetta gildir ekki um starfsreglur allsherjarþings, aðalráðstefnu og ráðgjafarnefndar.

2. Allsherjarþingi og ráðgjafarnefnd ber að semja sínar starfsreglur og endurskoða þær með reglulegu millibili. Allsherjarþing skal samþykkja sérstakar starfsreglur fyrir aðalráðstefnu og endurskoða þær með reglulegu millibili.

3. Reglurnar skulu vera í samræmi við samþykktirnar. Þær skulu hvorki takmarka né auka við:

(a) heimild ICOM-félaga til að taka ákvarðanir varðandi réttindi eða skyldur þeirra samkvæmt þessum samþykktum; og

(b) ákvörðunarvald það sem þessar samþykktir tryggja allsherjarþingi, ráðgjafarnefnd og framkvæmdaráði.

4. Þær reglur sem eru í gildi við gildistöku þessara samþykkta (að undanskildum þeim reglum sem beinlínis brjóta í bág við samþykktirnar) skulu áfram teljast gildar sem væru þær framlenging af samþykktunum, uns endurskoðun þeirra hefur átt sér stað. Framkvæmdaráð skal semja, endurskoða og breyta eftir þörfum öllum reglum sem eru nauðsynlegar fyrir rekstur ICOM, innan tólf mánaða frá gildistöku þessara samþykkta. Allar breytingartillögur við starfsreglur allsherjarþings eða ráðgjafarnefndar ber að leggja fyrir hlutaðeigandi aðila til samþykkis eða breytinga eftir þörfum.

5. Allar reglur eða breytingartillögur við reglur ber að leggja fyrir ICOM-félaga eins skjótt og unnt er eftir að búið er að semja þær eða samþykkja.

6. Landsnefndir, alþjóðlegar nefndir, tengd samtök eða ráðgjafarnefndin geta allar farið fram á það við framkvæmdaráð að regla verði tekin til endurskoðunar. Skriflega beiðni um slíka endurskoðun, ásamt rökstuðningi fyrir henni, ber að senda aðalritara. Framkvæmdaráð skal annast umbeðna endurskoðun við fyrsta tækifæri og að henni lokinni ber að tilkynna þeim sem óskuðu endurskoðunar um niðurstöður hennar hið fyrsta. Þegar um er að ræða starfsreglur allsherjarþings eða ráðgjafarnefndar, ber að leggja beiðnina, svo og umsögn framkvæmdaráðs um hana, fyrir hlutaðeigandi aðila til athugunar og viðeigandi afgreiðslu.

29. grein – Beiting samþykkta og endurskoðun þeirra

1. Þessar samþykktir öðlast gildi um leið og þær hafa hlotið samþykki allsherjarþings (en 3. tölul. 22. gr. skal ekki beitt og er það gert til að koma í veg fyrir að sá sem kjörinn er forseti ICOM á því allsherjarþingi sem samþykkir samþykktirnar, geti gegnt því embætti í tvö kjörtímabil). Allsherjarþing getur tekið samþykktirnar til endurskoðunar öðru hvoru samkvæmt þeirri málsmeðferð sem rakin er í þessari grein.

2. Þjóðdeild, alþjóðleg nefnd eða tengd samtök geta öll lagt fram breytingartillögur við þessar samþykktir hvenær sem þeim þóknast. Breytingartillögur og rökstuðningur fyrir þeim skulu berast aðalritara skriflega, og ber honum að leggja þær fyrir næsta fund framkvæmdaráðs, sem tekur þær til umsagnar.

3. Aðalritara ber að leggja breytingartillögurnar, meðfylgjandi rökstuðning og umsögn framkvæmdaráðs fyrir næsta fund ráðgjafarnefndar til umfjöllunar. Styðji ráðgjafarnefndin breytingartillögu ber henni að tilkynna aðalritara um afstöðu sína, og ber honum þá að leggja umrædda tillögu fyrir allsherjarþing til afgreiðslu.

4. Sé ráðgjafarnefndin andvíg breytingartillögunni, ber henni að tilkynna aðalritara um afstöðu sína. Aðalritara ber þá að tilkynna flutningsmönnum tillögunnar um lyktir málsins og skoðast fram komin tillaga þar með ómerk.

5. Framkvæmdaráð og ráðgjafarnefnd geta einnig lagt fram breytingartillögur við þessar samþykktir og skal leitað álits og umsagnar ráðgjafarnefndar um þær. Ráðgjafarnefnd þarf að leggja blessun sína yfir allar breytingartillögur framkvæmdaráðs.

6. Aðalritari skal tilkynna formönnum allra þjóðdeilda, alþjóðlegra nefnda og tengdra samtaka um þær breytingartillögur sem ýmist hafa hlotið samþykki ráðgjafarnefndar eða verið lagðar fram af framkvæmdaráði, minnst 60 dögum fyrir setningu allsherjarþings.

7. Breytingartillögur sem lagðar eru fyrir allsherjarþing í samræmi við framangreind ákvæði verða að fá tvo þriðju greiddra atkvæða til að hljóta samþykki. Hljóti þær samþykki skulu þær taka gildi þegar í stað og skal aðalritari þegar tilkynna öllum þjóðdeildum, alþjóðlegum nefndum og tengdum samtökum um gildistöku þeirra.

30. grein – Slit samtakanna

1. ICOM er einungis hægt að leggja niður með formlegri ályktun allsherjarþings. Allsherjarþing getur því aðeins samþykkt slíka ályktun hafi skrifleg tillaga um hana, þar sem ástæður fyrirhugaðra slita eru studdar gildum rökum, verið send öllum ICOM-félögum minnst sex mánuðum fyrir setningu allsherjarþings. Ályktun um að leysa ICOM upp þarf samþykki þriggja af hverjum fjórum atkvæðisbærum ICOM-félögum á allsherjarþingi, eins og sagt er fyrir um í 6. tölul. 19. gr.

2. Við slit samtakanna skal framselja allar eignir ICOM samtökum sem hafa svipuð markmið og ICOM, að höfðu samráði við Unesco.